Margrét Árnadóttir fæddist í Reykjavík 26. febrúar 1953. Hún lést á krabbameinsdeild Landspítalans 25. september.

Margrét var dóttir hjónanna Guðrúnar Borghildar Steingrímsdóttur, f. 5.10. 1925, og Árna V. Gíslasonar, fyrrverandi forstjóra, f. 2.6. 1928. Systkini Margrétar eru: 1) Steinunn Kristín, f. 24.2. 1950, gift Sigurði Guðmundssyni, f. 22.10. 1949. Þau eiga þrjá syni og tvö barnabörn; 2) Gísli, f. 24.1. 1955, giftur Unni Úlfarsdóttur, f. 13.2. 1955. Þau eiga eiga þrjú börn og þrjú barnabörn; 3) Bogi Guðmundur, f. 9.10. 1966, giftur Kristínu Hlíðberg Rafnsdóttur, f. 12.8. 1972. Þau eiga tvö börn.

Hinn 16. ágúst 1975 giftist Margrét eftirlifandi eiginmanni sínum, Gísla Örvari Ólafssyni, bifreiðasmið og bílamálara, f. 30.12. 1953. Gísli er sonur Maríu Gísladóttur, f. 1.12. 1933, hún lést 2.1. 1994, og Ólafs A. Ólafssonar málarameistara, f. 27.1. 1931. Margrét og Gísli eignuðust þrjú börn. Þau eru: 1) Steinar Freyr sölumaður, f. 13.2. 1976, kvæntur Kristínu Guðrúnu Jónsdóttur deildarstjóra, f. 2.7. 1980. 2) Rúnar Bogi flugmaður, f. 11.6. 1982. 3) Kristín Ýr nemi, f. 4.8. 1993.

Margrét lauk verslunarprófi og samhliða vinnu, heimilishaldi og uppeldi lauk hún stúdentsprófi frá Verslunarskóla Íslands árið 1990. Hún starfaði hjá Landsbanka Íslands um árabil en tók síðan við framkvæmdastjórastöðu í fyrirtæki fjölskyldu sinnar sem hún gegndi þar til það var selt árið 2007. Eftir það starfaði hún hjá flugfélaginu Bláfugli. Margrét var dugnaðarforkur til hugar og handa eins og hún á ættir til. Hvers kyns hannyrðir léku í höndum hennar. Þau Gilli höfðu mikla ánægju af því að dvelja í sumarbústað sínum í Svínadalnum sem hún hafði búið miklu úrvali muna sem hún hafði yndi af. Þau hjónin höfðu einnig búið sér glæsilegt heimili í Seljahverfinu. Margrét varð þrisvar sinnum Íslandsmeistari í línudansi hópa og var varaformaður Félags línudansara þegar hún lést.

Útför Margrétar fer fram frá Bústaðakirkju í dag, 4. október 2011, og hefst athöfnin kl. 13.

Ó elsku mamma. Nú er mamma farin. Farin frá okkur úr þessum veraldlega heimi á vit hins óþekkta. Orð geta ekki lýst því hve mikill söknuðurinn er, söknuður sem mun fylgja okkur til hins síðasta sólarlags. Það mun ekki líða dagur þar sem við hugsum ekki um mömmu og allt sem við gerðum saman. Samvera okkar mömmu er nokkuð sem aldrei gleymist, hlátur, grátur og fræknir sigrar. „Farin“ er hins vegar afstætt í okkar huga, því minning hennar og andi munu verma hjörtu okkar. Mamma var ekki bara sú sem skapaði okkur, heldur var hún vinur í raun, ráðgjafi og leiðbeinandi í lífinu. Ef það var einhver vafi um eitthvað ráðfærðum við okkur við mömmu og útkoman var okkur alltaf til hagsbóta. Þegar lífið reyndist erfitt og ósanngjarnt kom hún okkur til varnar og sýndi okkur leiðina heim.

Við systkinin höfðum öll okkar ólíku en sérstöku tengsl við mömmu. Það skipti ekki máli hvert okkar leitaði til hennar, öll fengum við óskipta athygli hennar, og þegar við lítum til baka getum við ekki fundið eitt atriði sem hún klikkaði á í garð okkar. Allt sem við erum höfðum við frá henni. Meiri dugnaðarfork og reglusamari manneskju höfum við ekki þekkt, hún var mikill náttúruunnandi, lista- og hannyrðakona og vinur vina sinna. Arfleifð hennar erum við börnin hennar, fjölskylda og vinir og það sem hún skilur eftir sig eru yndislegar minningar sem myndu fylla dýpstu dali. Hún hafði skilað sínu og svo miklu meira en það, en hennar tilgangur í lífinu er á endastöð kominn og við tekur eitthvað nýtt og framandi. Við vitum það að hún er í góðum höndum og því brosum við þegar við lítum upp til himna.

Ávallt munum við minnast hennar af allri okkar hjartans ást og með kærleika hennar að vopni munu opnast nýjar gáttir, gáttir til nýrra tækifæra, nýrra minninga og nýrra sigra.

Við viljum tileinka þetta brot út kvæði minningunni um mömmu:

Jeg trúi því, sannleiki,

að sigurinn þinn

að síðustu vegina jafni.

(Þorsteinn Erlingsson)

Fyrir hönd barna,

Steinar F. Gíslason.

Ég trúi því varla enn að ég þurfi að setjast hér niður og skrifa minningargrein um hana tengdamúttu. Þó svo hún hafði barist lengi við erfið veikindi hafði hún aldrei hátt um það og kom dauðsfall hennar svolítið eins og þruma úr heiðskíru lofti og skildi það eftir sár sem aldrei mun gróa.

Ég kynntist Möggu fyrst árið 1998 þegar ég og Steini byrjuðum eitthvað að dúlla okkur saman. Hún var reyndar úti á Ítalíu fyrstu dagana og var Steini frekar lúsalegur þegar hann kynnti mig fyrir mömmu og pabba þegar þau voru komin heim. Það var nú samt ekki að spyrja að því, hún og reyndar öll fjölskyldan tóku mér opnum örmum og létu mér strax finnast ég vera mikilvægur þáttur í tilveru þeirra. Við komumst fljótt að því að ég átti sameiginlegt áhugamál með fjölskyldunni, en það var mikil og sterk tenging við hana stóru Ameríku og áttum við fjölskyldan margar yndislegar stundir þar saman. Við stelpurnar gátum legið tímunum saman úti við sundlaug á meðan karlarnir spiluðu golf og svo seinnipartinn var kíkt í mollin og fengið sér að borða. Ég viðurkenni þó að ég var alls ekki eins dugleg og Magga í búðunum, en hún bætti svo sem alveg upp fyrir það með því að kaupa á mann föt þó svo hún hafi verið aðeins meira fyrir glingrið og glimmerið en ég.

Árið 2004 ákváðum við Steini að gifta okkur og kom aldrei annar staður til greina en að hafa veisluna í Jakaselinu. Þurfti Magga að skutla seinustu gestunum heim klukkan 6 um morguninn og er það mjög gott dæmi um partíin sem Jakaselið bauð upp á. Við Steini fengum svo oft Jakaselið lánað fyrir okkur og héldum við meðal annars stórafmæli, útskriftarveislur og kveðjupartí svo eitthvað sé nefnt.

Við Steini fluttum til Ameríku árið 2006. Magga kom og heimsótti okkur nokkrum sinnum og stundum fórum við og hittum þau í íbúðinni í Florida og eru þær stundir okkur Steina svakalega mikils virði. Stuttu eftir að við fluttum aftur heim varð Magga veik. Við vissum reyndar ekki alvarleika veikindanna fyrr en allt of seint og gerir það fráfall hennar enn erfiðara. Frá því við Steini fluttum heim vorum við mjög dugleg að fara með þeim upp í bústað og vorum við iðin við að betrumbæta og fegra umhverfið í hvert skipti. Magga skaut aldrei niður þær hugmyndir sem við fengum og erum við meðal annars byrjuð á tréhýsi, búin að byggja risadanspalla og ryðja hálfan skóginn til að búa til gönguleiðir um svæðið.

Eins erfiður og tíminn fram að þessu hefur verið veit ég að hann á ekkert eftir að skána. Tíminn læknar svo sannarlega ekki öll sár, en við lærum ef til vill að lifa með sársaukanum þegar á líður.

Elsku Gilli, Rússi, Ýra, Steini minn, amma og afi og í raun öll tengdafjölskyldan mín. Við höldum áfram að vera sterk eins og Magga vildi og munum svo sannarlega halda áfram að skapa frekar minningar saman, hvort sem það er í Reykjavík, Svínadal eða Ameríku.

Þín tengdadóttir,

Kristín.

Elsku amma, við söknum þín mikið. Þú varst alltaf svo góð við okkur. Leyfðir okkur að gista hjá þér og við fengum líka að fara með ykkur afa upp í sumarbústað. Í sumarbústaðnum fengum við oft að fara í nammiskápinn og svo fengum við líka alltaf pott-ís þegar við fórum í heita pottinn. Við fórum líka nokkrum sinnum í leikhús með þér. Þegar þú fórst til útlanda keyptirðu alltaf fullt af fötum á okkur, það fannst okkur gaman, sérstaklega Viktoríu. Þú varst líka svo dugleg að prjóna á okkur lopapeysur og kraga og legghlífar og eyrnabönd. Þegar við gistum hjá þér þá sögðum við alltaf bænina okkar:

Vertu yfir og allt um kring

með eilífri blessun þinni,

sitji Guðs englar saman í hring

sænginni yfir minni.

(Sig. Jónsson frá Presthólum)

Þín ömmubörn,

Viktoría, Lúkas Magni

og Jökull Gísli.

Við systurnar vorum ekki líkar að eðlisfari þegar við vorum að alast upp. Ég vildi helst vera uppi í sófa að lesa en hún var rauðhærður, freknóttur fjörkálfur sem fékk oft bágt fyrir prakkarastrikin. Eftir að við eltumst og stofnuðum heimili urðum við samrýndari og höfum í raun ekki getað án hvor annarrar verið svo áratugum skiptir.

Ég man þegar ég kom heim frá Kanada eitt vorið meðan Siggi var í námi og hún kynnti mig fyrir kærastanum sínum, mér fannst hún hafa valið vel og okkur Gilla varð strax vel til vina. Við fórum með strákana okkar í útilegur, ferðir til Ítalíu, Bretlands og Bandaríkjanna. Eftir að mamma og pabbi og þau Gilli byggðu sumarbústaðina sína í Svínadalnum vorum við æ oftar þar, fengum að gista á háaloftinu. Síðar bættist Gísli bróðir við með sinn bústað og síðast við Siggi. Það var viðtekin venja að við borðuðum saman í bústaðnum um helgar og þá var nú glatt á hjalla. Ekki spillti fyrir að Gilli er frábær kokkur og hún, hin hagsýna húsmóðir, sá að best og ódýrast var að gera allt sjálfur, allir muna eftir heimabökuðu brauðunum, snúðunum og eldbökuðu pítsunum. Oft vorum við hátt í 20 að borða saman og þá skipti ekki máli þótt einhverjir bættust í hópinn, uppskriftin var bara stækkuð, allir voru velkomnir, alltaf nóg pláss í hjarta hennar.

Við unnum saman hlið við hlið við rekstur fjölskyldufyrirtækisins í rúm 20 ár, þar unnum við öll systkinin, Gilli mágur og Unnur mágkona ásamt pabba og mömmu. Síðan þegar strákarnir okkar stækkuðu fengu þeir vinnu þar líka, þannig að stórfjölskyldan var alltaf saman í leik og starfi.

Magga systir var stórhuga, ákveðin, hjálpsöm, gjafmild, leiðbeinandi ráðgjafi, ættrækin og sannur vinur vina sinna. Hún hafði alltaf tíma fyrir þá sem þurftu á aðstoð að halda, hvort sem það var að hjálpa til við handavinnu, lærdóm eða fara í búðir. Þessi mikli orkubolti þurfti alltaf að hafa eitthvað fyrir stafni og dró mig með sér á alls konar námskeið. Nefna má bútasaum, leikfimi, keramikmálun, leirlistina og línudansinn. Nú í vor fékk hún mig meira að segja með sér á zumba-námskeið. Línudansinn veitti henni mikla ánægju, hún var búin að stunda hann í nokkur ár með Gilla þegar hún ákvað að ég yrði að kynnast þessum gleðigjafa líka. Hún fékk Huldu mágkonu sína til að fara með mér á byrjendanámskeið og eftir það varð ekki aftur snúið. Þarna sameinaðist góður félagsskapur og gleðin að dansa við skemmtilega og fjölbreytta músík hjá Óla Geir. Hún var ein af stofnendum keppnishópsins Dívurnar og eins og venjulega dró hún mig með í hópinn. Þarna myndaðist sérlega góður kjarni af 12 hressum og jákvæðum konum sem hafði það markmið að vinna Íslandsmeistaratitilinn og það tókst síðustu þrjú árin, síðan var hist í sumarbústaðnum með makana til að fagna sigri og þar var sungið og dansað fram á morgun, yndisleg minningabrot.

Við hneigjum höfuð í sorg eins og blómin sem verða að láta undan haustlægðunum sem nú dynja á okkur, ég veit að ég á eftir að sakna hennar óumræðilega mikið um alla framtíð.

Steinunn Árnadóttir.

Í dag kveðjum við Möggu mágkonu mína, en margar góðar minningar koma upp. Það var stoltur bróðir sem kom með þessa fallegu rauðhærðu stúlku heim og því gleymi ég aldrei. Þau voru óþreytandi að taka mig með sér allt sem þau fóru, hvort sem var á rúntinn niður á Hallærisplan, sveitaböll, útilegur o.fl.

Hún ferðaðist alltaf mikið og þegar ég fór í fyrsta skipti til útlanda innan við tvítugt, þá var það vegna þess að hún bauð mér með sér til London ásamt Unni mágkonu sinni. Þetta var eitthvað sem ég hafði aldrei látið mig dreyma um og var ógleymanlegt að vera 3 ungar stúlkur saman í heimsborginni.

Hún var einstaklega myndarleg í öllu sem hún gerði, bútasaumur, allskonar föndur og þær eru ófáar flíkurnar sem hún hefur prjónað og saumað, en hún var alltaf að skapa og gera eitthvað fallegt og margir nutu góðs af því. Hennar orð voru „þetta er ekkert mál, bara drífa sig“ og þær eru ófáar veislurnar sem hún og Gísli héldu og alltaf var það jafn glæsilega gert hvort sem það var maturinn eða skreytingarnar. Og aldrei stóð á Möggu að bjóða fram aðstoð sína við veislur eða bara hvað sem var. Magga elskaði að dansa og var alltaf jafn gaman að sjá þau hjónin dansa hvort sem það var samkvæmisdans eða línudans, en hún var búin að vera í línudansi í mörg ár. Magga elskaði að hafa fallegt í kringum sig, hvort sem það var heimilið eða sumarbústaðurinn og alltaf var jafn gaman og gott að koma til hennar. Það voru sérstök forréttindi að fá að kynnast Möggu sem var bæði falleg að innan sem og að utan.

Elsku Gísli, Steinar Freyr, Kristín, Rúnar Bogi og Kristín Ýr, megi góður Guð blessa ykkur og gefa ykkur styrk.

Takk fyrir allt og hvíldu í friði.

Valgerður Ólafsdóttir.

Í dag kveð ég mína yndislegu mágkonu. Ég var 7 ára gömul þegar Magga og Gísli byrjuðu saman, ég sat uppi á eldhúsborði og Gísli var að sýsla í eldhúsinu þegar rauðhærð fegurðardís var alltaf að hjóla í botnlanganum heima í Sævó. Ég spurði Gísla hvort þetta væri kærastan hans en hann gaf ekkert upp við krakkakjánann.

Gísli og Magga byrjuðu snemma að ferðast og alltaf komu þau með einhvern pakka handa mér, risadúkku sem labbaði með mér og flott leðurpils sem ég geymi ennþá. Þau byrjuðu sinn búskap í Kjarrhólmanum og strax þá kom í ljós hvað heimili þeirra var glæsilegt. Við Magga höfum alltaf átt gott með að tala saman og höfum við eytt mörgum stundum að spjalla og eru þessar stundir mér mjög dýrmætar.

Fyrir 10 árum þá byrjaði Magga að dansa línudans og fannst mér það mjög spennandi og svo fyrir 8 árum þá hvatti hún mig til að prófa og hef ég dansað síðan með henni og því hefði ég ekki viljað missa af. Tíminn sem ég er búin að fá að vera með þeim Möggu og Gísla á línudansböllum hefur verið mjög skemmtilegur og eins og alltaf var Magga fremst í flokki að dansa allt kvöldið.

Magga hefur alltaf verið mjög virk í dansinum og er búin að vera í stjórn Félags íslenskra línudansara í mörg ár og á endanum gat hún líka fengið mig með sér í stjórn, það lýsir Möggu svo vel hvað hún var dugleg að fá fólk til að vinna með sér og hvað hún var drífandi einstaklingur. Við fórum línudanshópurinn til Skotlands og var það yndislegur tími sem við áttum saman þar og voru þau hjónin eins og alltaf hrókar alls fagnaðar. Magga keppti í línudansi og var Íslandsmeistari í hópakeppni í þrjú ár og tók hún núna síðast þátt í maí á þessu ár.

Magga var mikil hannyrðakona og var hún alltaf að búa til eitthvað fallegt. Magga var alltaf boðin og búin til að aðstoða við hvað sem er og alltaf sagði hún: Þú getur þetta, þetta er ekkert mál. Elsku Magga mín, ég og fjölskylda mín þökkum þér fyrir tímann sem við áttum saman og þú munt lifa áfram í hjörtum okkar og bænum.

Elsku Gísli, Steinar Freyr, Rúnar Bogi, Kristín Ýr og Kristin.

Missir ykkar er mikill og megi Guð styrkja ykkur í þessari sorg.

Hvíl í friði, Magga mín.

Hulda.

Mín elskulega mágkona hefur fengið hvíldina, eftir langvinnan og illvígan sjúkdóm. Magga frænka, eins og hún var alltaf kölluð hjá okkur, tók mér strax opnum örmum frá fyrsta degi þegar ég var að kynnast Boga bróður hennar. Hún var alveg einstök, sérlega ósérhlífin og vinnusöm kona. Hún var alltaf til taks, sama hvert erindið var. Það má segja að hún hafi gengið mér í móðurstað eftir að ég missti móður mína. Efst í huga er þakklæti fyrir allar þær frábæru stundir sem við höfum átt með henni, t.d. fyrstu Flórídaferðina okkar – þá vorum við Bogi nýbyrjuð saman, sumarbústaða- og verslunarferðir, ættarmót og ekki má gleyma öllum fjölskylduboðunum og hefðunum, piparkökumálun, þrettándagleði og lengi mætti telja. Hún var mjög barngóð, og í sveitinni, þar sem þau hjónin byggðu sér draumahús, var oft margmenni. Við Bogi komum þeim systrum Steinunni og Margréti skemmtilega á óvart þegar við létum skíra dóttur okkar eftir þeim báðum sem var lítill þakklætisvottur til systranna fyrir allt það sem þær höfðu gert fyrir okkur. Þessi fjölskylda er sérlega samheldin, þau unnu öll saman í eigin fjölskyldufyrirtæki og reistu öll sumarbústaði ekki langt hvert frá öðru, því er söknuðurinn mikill og stórt skarð höggvið. Það er sagt að tíminn lækni öll sár, eflaust er það rétt en Möggu frænku gleymum við aldrei. Um leið og ég kveð elskulega mágkonu mína og þakka henni fyrir allar yndislegu samverustundirnar vil ég senda elsku Gilla, börnunum og Guðrúnu og Árna mínar innilegustu samúðarkveðjur. Megi góður guð veita ykkur styrk í ykkar miklu sorg.

Kristín Rafnsdóttir (Stína).

Stundum finnst manni að lífinu sé ekki réttlátlega skipt á milli manna. Sumir lifa langt umfram lífsgleði meðan aðrir fá hér allt of stutta dvöl. Þetta á svo sannarlega við um kæra mágkonu mína, Margréti Árnadóttur, sem við kveðjum í dag. Henni var úthlutað allt of stuttum tíma og átti svo mikið eftir sem hún hefði getað notið og gert. Við erum máttvana gagnvart örlögunum og fáum ekki skilið orsakasamhengið: hvers vegna þessi góða manneskja er frá okkur tekin í blóma lífsins. Þótt við reynum að sætta okkur við þetta er það ógnarsárt.

Magga var ekki ýkja gömul þegar ég kynntist stóru systur hennar og kom inn í fjölskylduna sem ég hef nú verið hluti af í hálfan fimmta áratug. Þegar unglingsárin og nám voru að baki tók við lífsbaráttan sem við Steina höfum háð hlið við hlið með Möggu og Gilla alla tíð síðan. Strákarnir okkar og þeirra hafa alist upp saman eins og bræður og síðust bættist Kristín Ýr við, borin á höndum af öllum hópnum. Við höfum hjálpast að um alla hluti hvort sem er í leik, námi eða starfi. Oft var unnið lengi fram eftir, við bílaviðgerðir eða framkvæmdir og Gilli allra manna hjálpfúsastur. Það voru því mörg kvöldin sem Magga mátti gæta bús og barna og aldrei aðgerðalaus því önnur eins afköst í ýmiss konar handavinnu, saumaskap og fleiru eru sjaldséð. Eftir að þær systur voru báðar komnar til starfa í fjölskyldufyrirtækinu var allur hópurinn, að lokum þrjár kynslóðir, saman alla virka daga, fór saman í frí og eftir að við komum okkur upp bústöðunum í Svínadalnum höfum við eytt flestum helgum ársins þar. Næstum allar máltíðir borðaðar saman og oftar en ekki mikið fjölmenni.

Þannig héldum við að þetta gæti haldið áfram, en svo bar skugga á sem aldrei hafði gert fyrr. Fyrir fimm árum greindist mágkona mín með krabbamein. Eftir meðferð við því héldum við að hún hefði komist yfir hjallann en í raun er þetta búið að vera á brattann allan tímann síðan fyrir Möggu. Hún bar þó ekki vandkvæði sín á torg í þessu efni frekar en öðrum, þótt það munaði svo sannarlega um hana var það ekki hennar stíll að trana sér fram. Þegar komið var fram á þetta ár varð brekkan brattari og erfiðari uns ekki varð lengra komist og hún gat ekki meir. Við erum nú komin að vatnaskilum og það er svo sannarlega dimmt yfir. Hér kveðjum við raungóðan vin sem aldrei brást. Minningin um þessa glæsilegu, skemmtilegu, rauðhærðu konu er meitluð í hugann og er því miður ein eftir.

Hallgrímur Pétursson orti um dauðann:

..

veit enginn neitt um það

hverninn, á hverjum tíma,

eða hvar hann kemur að.

Þetta er sú staða sem við erum í nú: við fáum ekki skilið af hverju við þurfum að ganga í gegnum þennan erfiða tíma núna, söknuðurinn er sár og ekkert verður aftur eins og það var. Þrátt fyrir að tími Möggu mágkonu minnar hafi verið allt of stuttur þá notaði hún hann vel og betur en margur. Hún er nú laus úr þeirri kvöl sem á hana var lögð og ekki varð undan vikist og hún vildi ekki að við tefðum við sorgina heldur værum sterk. Það þurfum við að reyna að gera í minningu hennar.

Sigurður Guðmundsson.

Það er sárt og erfitt að kveðja uppáhaldsfrænku mína og eina af mínum bestu vinkonum.

Magga frænka var alltaf til staðar fyrir mig, þegar gekk vel var hún tilbúin að hrósa og samgleðjast. Svo gaf hún sér alltaf tíma til að hlusta þegar ég þurfti að tuða, alltaf svo skilningsrík. Magga frænka var stórkostleg kona, hún var glæsileg og lífsglöð, hún hafði svo mikla útgeislun og góða nærveru. Hún var einstaklega fjölhæf og alltaf var eitthvert föndur í gangi, við fórum saman á keramíknámskeið og svo seinna á glernámskeið, hún kenndi mér svo margt. Magga frænka var líka alltaf með prjónana uppi og var ég svo lánsöm að eignast flottar lopapeysur, trefla, kraga og ýmislegt annað, alltaf komu ný snið og ný mynstur. Magga frænka var einnig mikil saumakona og hefur hún saumað ófáar flíkurnar á mig í gegnum árin, sérstaklega er mér minnisstætt þegar hún og amma saumuðu á mig hvítan síðkjól fyrir árshátíð hjá Verzló, hann var glæsilegur. Minningarnar eru svo margar sem fara í gegnum hugann, allar svo skemmtilegar. Samverustundirnar í Davenport og á Flórída eru ofarlega í huga, allar ferðirnar í mollin og þegar við fórum út að borða og fengum okkur carpaccio og créme brulée, það var uppáhalds.

Magga frænka átti mikið í mér og börnunum mínum sem alltaf kölluðu hana ömmu. Hún var yndisleg amma, leyfði börnunum oft að gista, koma með í sumarbústaðinn og einnig eru leikhúsferðirnar margar.

Það er ótrúlega erfitt að kveðja góða vinkonu, elsku Magga frænka, þín verður sárt saknað en minningarnar geymi ég vel í hjarta mínu.

Þín

Hrafnhildur Gísladóttir (Habbó).

Það er stórt skarð í hjörtum okkar sem þekktum Margréti eða Möggu frænku eins og við kölluðum hana. Hún var svo einstaklega kraftmikil sem og yndisleg í alla staði.

Okkar fjölskyldur hafa alltaf varið miklum tíma saman hvort sem það hefur verið í vinnu eða í fríum og eru það einhverjar af dýrmætustu stundum í lífi okkar sem við munum alltaf horfa til baka til með miklum söknuði og þakklæti fyrir að hafa átt.

Síðasta haust áttum við með henni frábært frí í Flórída þar sem hún tók upp á því að eigin frumkvæði að kenna dóttur okkar að synda á nokkrum dögum. Þar var líka verslað mikið og var alltaf gott að hafa Möggu með í ráðum við val á fötum enda stórglæsileg kona.

Á sumrin hittumst við mikið uppi í bústað enda bústaðir fjölskyldna okkar nánast hlið við hlið. Þar voru alltaf á boðstólum Möggu-muffins eða Möggu-snúðar í kaffinu. Og svo hélt matarveislan áfram – hvítlauksgrillaðir humarhalar með góða brauðinu sem hún bakaði, nautalundir, appelsínu-önd og svona gæti maður áfram talið.

Hún var alltaf svo atorkusöm sem lýsti sér meðal annars í því að hún var alltaf með eitthvað á prjónunum og prjónaði peysur og annað á alla stórfjölskylduna. Hún var einnig sídansandi enda margfaldur Íslandsmeistari í línudansi sem hún stundaði af kappi með mömmu.

Það er svo skrítið að skrifa um hana í fortíð, það er svo stutt síðan að við vorum öll saman og allt virtist í himnalagi. Svo var hún hrifsuð frá ástvinum sínum sem sitja eftir með sorg í hjarta og skilningsvana.

Hvíl í friði,

Guðmundur Orri og Lilja.