Þétt „Við lögðum okkur 100% í þetta og ég er virkilega ánægður með hópinn,“ segir Jón Björn, bassaleikari hljómsveitarinnar Ourlives.
Þétt „Við lögðum okkur 100% í þetta og ég er virkilega ánægður með hópinn,“ segir Jón Björn, bassaleikari hljómsveitarinnar Ourlives.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Arnar Eggert Thoroddsen arnart@mbl.is Hljómsveitin Ourlives gaf út plötuna We Lost The Race í hitteðfyrra og spratt svo gott sem fullbúin úr höfði Seifs.

Arnar Eggert Thoroddsen

arnart@mbl.is

Hljómsveitin Ourlives gaf út plötuna We Lost The Race í hitteðfyrra og spratt svo gott sem fullbúin úr höfði Seifs.

„Fyrsta platan var engu að síður hálfgerð safnplata,“ segir Jón Björn Árnason, bassaleikari sveitarinnar.

„Hún geymir uppsafnað efni og við sáum að ef við ætluðum að gera eitthvað af viti í þessum bransa yrðum við að semja og semja til að bæta okkur. Við sömdum 32 lög og 10 þeirra eru á nýju plötunni. Við lögðum okkur 100% í þetta og ég er virkilega ánægður með hópinn.“

Jón segir að þetta hafi verið „sturluð“ vinna í eitt ár en þeir félagar eru allir vinnandi menn auk þess að vera í hljómsveitinni.

Jón segir að lögin sem hafi orðið útundan komi út jafnt og þétt í gegnum tonlist.is, þeir ætli að byggja upp „góða“ b-hliðarplötu eins og hann orðar það

„Það er kannski asnalegt að segja það en við ætluðum að byrja á því að semja lög sem gætu orðið smáskífur en það gekk ekkert. Þau lög komust ekki inn á plötuna en þar fór ákveðinn heildarsvipur að ráða því hvað færi inn og hvað ekki.“

Það var mikið tosað í Ourlives frá öðrum löndum í blábyrjun ferilsins og Jón segir að það hafi verið fullmikið af því góða.

„Við bökkuðum úr því og höfum vaxið saman sem band ef svo má segja síðasta árið. Þegar maður er að byrja í svona harki vill maður hlaupa um torg og segja öllum frá því hvað þetta sé stórkostlegt en við erum búnir að læra að það er ekki endilega málið. Það er ekki sniðugt að byrja á öfugum enda. Aðalmálið er að vaxa og þroskast sem tónlistarmaður og hitt – ef það svo gerist – er bara bónus ofan á það. Fókusinn hjá okkur er góður núna.“

ÚTGEFANDI OURLIVES

Kölski sjálfur!

Barði Jóhannsson, stundum kenndur við Bang Gang, er mikill velgjörðarmaður Ourlives en hann og Þorkell Máni Pétursson stýra útgáfunni Kölska sem er í eigu Senu. Plötur með Diktu, Ourlives, Pétri Ben og Eberg, Ólafi Arnalds, Cliff Clavin og Lady & Bird hafa komið út á vegum Kölska.