Forvarnir Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, kynnti forvarnardaginn við athöfn í Breiðholtsskóla í gær. Forvarnardagurinn er á morgun.
Forvarnir Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, kynnti forvarnardaginn við athöfn í Breiðholtsskóla í gær. Forvarnardagurinn er á morgun. — Morgunblaðið/Golli
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Helgi Bjarnason helgi@mbl.is „Við fögnum því að taka þátt núna. Verkefnið er mjög gott og hefur verið vel rekið,“ segir Guðbjörg Aðalbergsdóttir, skólameistari Framhaldsskólans í Mosfellsbæ og formaður Félags íslenskra framhaldsskóla.

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

„Við fögnum því að taka þátt núna. Verkefnið er mjög gott og hefur verið vel rekið,“ segir Guðbjörg Aðalbergsdóttir, skólameistari Framhaldsskólans í Mosfellsbæ og formaður Félags íslenskra framhaldsskóla. Forvarnardagurinn verður á morgun og að þessu sinni bæði í grunnskólum og framhaldsskólum.

Ágætur árangur hefur náðst með forvarnarstarfi í grunnskólum landsins. Þótt gott forvarnarstarf sé einnig unnið í framhaldsskólum gefa rannsóknir til kynna að drykkja ungmenna aukist hratt eftir að grunnskóla lýkur. Kannanir sýna að hlutfall þeirra sem segjast hafa verið ölvaðir í mánuðinum á undan eykst úr 9% í 10. bekk í 43% hjá 16-17 ára framhaldsskólanemendum. Hlutfall þeirra sem prófað hafa hass eykst úr 3 í 7% og þeirra sem prófað hafa maríjúana úr 8 í 12%. Þá eykst hlutfall þeirra sem reykja úr 5 í 9%.

Guðbjörg viðurkennir að þetta sé mikil aukning og telur að það tengist því að samfélagið hafi að vissu leyti veitt þegjandi samþykki fyrir því að framhaldsskólanemendur drekki áfengi. „Það hefur náðst árangur en við þurfum að gera enn betur. Kannski ekki síst með því að breyta menningunni í framhaldsskólanum og koma þeim skilaboðum sterkt á framfæri að þetta er ekki í lagi og mikilvægt sé að stunda heilbrigðan lífsstíl strax á unglingsaldri. Mér finnst mikilvægt að allir hjálpist að. Það skiptir máli hvað fullorðna fólkið segir, ekki síst foreldrarnir. Áhrifaríkast er ef við tölum einum rómi gagnvart unglingunum,“ segir Guðbjörg.

NEMENDUR RÆÐA MÁLIN

Samkeppni um myndband

Nemendur í grunnskólum ræða hugmyndir og tillögur um hvaðeina sem eflt getur forvarnir. Efnt er til samkeppni meðal nemenda framhaldsskóla og efstu bekkja grunnskóla um myndband sem best sýnir hvað geti fengið ungt fólk til að fresta því að drekka áfengi eða sleppa því alveg.