Bestur Matthías Vilhjálmsson fékk flest M allra leikmanna deildarinnar hjá Morgunblaðinu í ár.
Bestur Matthías Vilhjálmsson fékk flest M allra leikmanna deildarinnar hjá Morgunblaðinu í ár. — Morgunblaðið/Ómar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fótbolti Víðir Sigurðsson vs@mbl.is Matthías Vilhjálmsson, fyrirliði FH-inga, er besti leikmaður Pepsi-deildar karla í fótbolta 2011, samkvæmt einkunnagjöf Morgunblaðsins.

Fótbolti

Víðir Sigurðsson

vs@mbl.is

Matthías Vilhjálmsson, fyrirliði FH-inga, er besti leikmaður Pepsi-deildar karla í fótbolta 2011, samkvæmt einkunnagjöf Morgunblaðsins. Matthías hafði þar betur í baráttu við þrjá leikmenn sem voru á svipuðu reki og hann allt keppnistímabilið en það voru Halldór Orri Björnsson úr Stjörnunni, Kristinn Steindórsson úr Breiðabliki og Tryggvi Guðmundsson úr ÍBV.

Matthías lék 21 af 22 leikjum Hafnarfjarðarliðsins og fékk í þeim 20 M hjá íþróttafréttamönnum Morgunblaðsins. Þar af fékk hann 13 í seinni umferð deildarinnar, komst þá á blað í öllum leikjum liðsins nema einum, og fékk 2 M í þrígang í síðari hluta mótsins en einu sinni fyrri part sumars.

Þetta er í takt við gengi FH-liðsins sem fékk 16 stig í fyrri umferð deildarinnar en 28 stig í þeirri síðari. Enda var Matthías í fararbroddi þegar liðið reif sig í gang á miðju sumri eftir að hafa valdið stuðningsmönnum sínum vonbrigðum með frammistöðunni framan af tímabilinu. Fyrirliðinn varð langefstur FH-inga í einkunnagjöfinni en markvörðurinn Gunnleifur Gunnleifsson kom næstur honum með 12 M.

Halldór í öðru sæti

Halldór Orri Björnsson úr Stjörnunni varð annar með 19 M í 21 leik með Garðabæjarliðinu.

Halldór Orri átti jafnt og gott tímabil, hlaut 9 M í fyrri umferðinni og 10 M í þeirri síðari. Halldór Orri fékk fimm sinnum tvö M fyrir frammistöðu sína í leikjum Stjörnunnar. Hans besti kafli var frá 9.-16. umferð þegar hann fékk 11 M í átta leikjum.

Kristinn í þriðja sæti

Kristinn Steindórsson úr Breiðabliki varð þriðji, fékk líka 19 M en lék alla 22 leiki Kópavogsliðsins. Frammistaða Kristins var ljósi punkturinn í annars miklu vonbrigðasumri Blika og hann var sérstaklega öflugur framan af tímabilinu. Kristinn fékk 12 M í fyrstu tíu umferðunum og varð eini leikmaður deildarinnar á þessu ári til að fá hæstu einkunn, 3 M, fyrir sína frammistöðu. Það var eftir að hann skoraði öll þrjú mörk Blika í 3:1-sigri á Fylki í fimmtu umferð mótsins. Kristinn fékk auk þess fjórum sinnum 2 M fyrir sinn leik.

Tryggvi Guðmundsson úr ÍBV varð fjórði með 18 M og síðan komu Stjörnumennirnir Garðar Jóhannsson með 17 og Jóhann Laxdal með 16 M.

Fimm efstu leikmenn í hverju liði í deildinni má sjá neðar á síðunni.

Úrvalslið Morgunblaðsins er síðan hér til hægri en það er alfarið byggt á M-gjöfinni og endurspeglar því heildarframmistöðu leikmanna á tímabilinu, frá fyrsta leik til þess síðasta.

Matthías Vilhjálmsson

» Hann er 24 ára Ísfirðingur og lék kornungur með meistaraflokki BÍ 2002-2003.
» Fór síðan í FH 2004 og hefur leikið með meistaraflokki félagsins frá 2005.
» Matthías hefur leikið 115 leiki með FH í efstu deild og skorað 37 mörk.
» Hann á að baki 23 leiki með yngri landsliðum Íslands og 7 A-landsleiki.
» Matthías lék nokkra leiki með Colchester í ensku C-deildinni eftir áramótin.

Stjörnumenn fengu flest M

Stjarnan var það lið í Pepsi-deild karla 2011 sem fékk flest M í heildar einkunnagjöf Morgunblaðsins.

Garðbæingar voru án efa eitt allra skemmtilegasta liðið á nýloknu Íslandsmóti og markaskorið ber því gott vitni. Stjörnumenn skoruðu flest mörk allra, 51 talsins, áttu markakónginn, Garðar Jóhannsson, og gerðu þremur mörkum meira en næsta lið, FH.

Stjörnumenn fengu samtals 123 M í leikjunum 22 í sumar, fjórum meira en Íslandsmeistarar KR og tólf meira en FH-ingar sem voru þriðju í þessari deild.

Hér til hliðar má sjá hversu mörg M hvert lið fékk samtals frá íþróttafréttamönnum Morgunblaðsins á nýliðnu tímabili. Röðin endurspeglar að stórum hluta lokaniðurstöðu mótsins. Nema að því leyti að Stjarnan stingur sér fram fyrir liðin þrjú sem enduðu í efstu sætum deildarinnar, og Þór hefur sætaskipti við Fylki í neðri helmingi deildarinnar. vs@mbl.is

Leiðrétting 5. október - Magnús annar hjá Víkingum

Þau leiðu mistök urðu í blaðinu í gær að nafn Magnúsar Þormars, markvarðar Víkings, féll niður í yfirlitinu yfir þá sem fengu flest M í einkunnagjöf Morgunblaðsins í fótboltanum.

Magnús varð annar hæsti leikmaður Víkings í einkunnagjöfinni með 10 M. Réttur listi yfir þá efstu hjá Víkingi lítur því þannig út, leikjafjöldi í svigum:

14 Mark Rutgers (22)

10 Magnús Þormar (22)

5 Björgólfur Takefusa (14)

4 Egill Atlason (6)

4 Colin Marshall (7)

vs@mbl.is

Úrvalslið 22. umferðar

Morgunblaðið birtir í dag 22. og síðasta úrvalslið sitt í Pepsi-deild karla í fótbolta á þessu ári. Eftir hverja umferð hefur blaðið birt sitt úrvalslið, byggt á einkunnum og frammistöðu leikmanna.

Þeir Óskar Pétursson, markvörður Grindavíkur, og Kristinn Steindórsson, sóknarmaður Breiðabliks, eru báðir í liðinu í sjötta skipti í sumar.

Stjörnumennirnir Daníel Laxdal og Garðar Jóhannsson hafa oftast verið valdir í liðið, 7 sinnum hvor. Auk Óskars og Kristins hafa Halldór Orri Björnsson úr Stjörnunni og Guðmundur Reynir Gunnarsson úr KR verið valdir 6 sinnum í liðið og síðan kemur Matthías Vilhjálmsson úr FH sem hefur verið 5 sinnum í úrvalsliðinu. vs@mbl.is