Fjárlög Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra kynnti fjárlög næsta árs um helgina sem leið.
Fjárlög Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra kynnti fjárlög næsta árs um helgina sem leið. — Morgunblaðið/Golli
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fréttaskýring Örn Arnarson ornarnar@mbl.is Miðað við síðustu hagspár er ólíklegt að forsendur fjárlaga næsta árs haldi. Fjárlögin byggjast á hagvaxtarspá Hagstofunnar frá því í sumar en þar er gert ráð fyrir að hagvöxtur verði 3,1% á næsta ári.

Fréttaskýring

Örn Arnarson

ornarnar@mbl.is

Miðað við síðustu hagspár er ólíklegt að forsendur fjárlaga næsta árs haldi. Fjárlögin byggjast á hagvaxtarspá Hagstofunnar frá því í sumar en þar er gert ráð fyrir að hagvöxtur verði 3,1% á næsta ári. Hlutirnir hafa þróast á verri veg síðan þá og það er til marks um það að Seðlabanki Íslands lækkaði hagvaxtarspá sína fyrir næsta ár verulega í ágúst. Þá var spáð að hagvöxtur á næsta ári yrði einungis 1,6%, en í apríl spáði bankinn að hagvöxtur yrði 2,9%. Ástæðan fyrir lækkun hagvaxtarspár Seðlabankans er sögð vera framhlaðnari einkaneysluferill en búist hafði verið við auk seinkana á stóriðjuframkvæmdum.

Eðli málsins samkvæmt er fylgni milli hagvaxtar og tekna ríkissjóðs og þar af leiðandi getur munað miklu á því hvort vöxtur landsframleiðslunnar á næsta ári reynist 1,6% eins og Seðlabankinn spáir eða 3,1% eins og Hagstofan spáir. Mismunurinn á milli spánna nemur um 25 milljörðum. Miðað við að ríkið taki ríflega þriðjung af þessari upphæð í formi skatttekna þá munar þarna um átta milljörðum fyrir tekjur ríkissjóðs.

Ekki tekið tillit til versnandi ástands erlendis

Þorbjörn Atli Sveinsson, hagfræðingur hjá greiningardeild Arion banka, segir að þjóðhagsspá Hagstofunnar sé í bjartsýnni kantinum hvað einkaneyslu og hagvöxt varðar. Einkum ef horft sé til þess óróa sem ríki á alþjóðamörkuðum. Til samanburðar geri nýjasta hagspá Seðlabankans ráð fyrir að þessir þættir þróist með heldur neikvæðari hætti – þá eigi reyndar eftir að taka áhrif af versnandi hagvaxtarhorfum á heimsvísu með í reikninginn. Því megi velta því fyrir sér hvort þær forsendur sem fjárlögin byggjast á séu líklegar til að standast þegar líður fram á næsta ár.

Bjartsýnin sem Þorbjörn nefnir kemur glögglega í ljós þegar einstaka liðir þjóðhagsspár Hagstofunnar frá því í sumar eru bornir saman við ágústspá Seðlabankans. Hagstofan gerir ráð fyrir að einkaneyslan vaxi um 3,3% á næsta ári, á meðan Seðlabankinn gerir ráð fyrir að vöxturinn verði 2,3%. Mismunurinn á einkaneyslunni útskýrir að stærstum hluta ólíka niðurstöðu Hagstofunnar annarsvegar og Seðlabankans hinsvegar.

Spáð í vöxt
» Þjóðhagsspá Hagstofunnar frá því í sumar gerir ráð fyrir 3,1% hagvexti á næsta ári.
» Fjárlög næsta árs byggjast á hagvaxtarspá Hagstofunnar.
» Í ágúst spáði Seðlabankinn 1,6% hagvexti á næsta ári.