Ný samsteypustjórn vinstri- og miðflokka tók formlega við völdunum í Danmörku í gær undir forystu Helle Thorning-Schmidt, sem gegnir embætti forsætisráðherra fyrst kvenna í sögu landsins.

Ný samsteypustjórn vinstri- og miðflokka tók formlega við völdunum í Danmörku í gær undir forystu Helle Thorning-Schmidt, sem gegnir embætti forsætisráðherra fyrst kvenna í sögu landsins. Alls eru níu konur í 23 ráðherraembættum í nýju stjórninni og þær eru því 39% ráðherranna.

Áður höfðu leiðtogar tveggja stjórnarflokkanna, Jafnaðarmannaflokksins og Sósíalíska þjóðarflokksins, sagt að stefnt yrði að því að konur fengju helming ráðherrastólanna.

Sósíalíski þjóðarflokkurinn er með sex ráðherra í stjórninni og þeirra á meðal eru þrjár konur. Þær fara með heilbrigðismál, umhverfismál og utanríkisviðskipti.

Jafnaðarmenn fengu ellefu ráðherraembætti og konur gegna fimm þeirra. Auk forsætisráðuneytisins fara konurnar fyrir vinnumála-, félagsmála-, menntamála- og matvælaráðuneytunum. Miðflokkurinn Radikale Venstre fékk sex ráðherraembætti og leiðtogi hans, Margrethe Vestager, er eina konan í ráðherraliði flokksins. Hún fer með efnahags- og innanríkismál í stjórninni.

Konurnar valdameiri

Tim Knudsen, prófessor í stjórnmálafræði við Kaupmannahafnarháskóla, kveðst hafa búist við því að konur fengju um helming ráðherraembættanna. Danskir jafnaðarmenn hafi áður krafist þess að konur yrðu minnst 40% fulltrúa í sveitarstjórnum í Danmörku og það hlutfall hafi ekki náðst í nýju stjórninni.

Í ríkisstjórn borgaralegu flokkanna undir forystu Lars Løkke Rasmussens gegndu konur helmingi ráðherraembættanna.

Tim Knudsen bendir þó á að kvenráðherrarnir í nýju ríkisstjórninni eru mun valdameiri en konurnar í ríkisstjórn borgaralegu flokkanna. Konur gegna nú t.a.m. tveimur valdamestu ráðherraembættunum. „Hvað völdin áhrærir hafa konurnar eflst,“ hefur fréttavefur Berlingske eftir Knudsen.

Ráðherrasveitin endurspeglar hlutfall kvenna á þinginu. Konur eru nú 39,7% fulltrúanna á danska þinginu og fleiri en nokkru sinni fyrr. bogi@mbl.is

Nýbúi í ráðherrastól
» Á meðal ráðherra nýju ríkisstjórnarinnar er Manu Sareen, sem fæddist á Indlandi. Hann varð fyrsti innflytjandinn til að gegna ráðherraembætti í Danmörku.
» Sareen fer með jafnréttis- og kirkjumál. Hann hefur m.a. lofað að beita sér fyrir því að samkynhneigð pör fái að giftast í kirkjum landsins.
  • Kvenráðherrarnir í ríkisstjórn Helle Thorning-Schmidt eru mun valdameiri en konurnar í ríkissjórn borgaralegu flokkanna.