Íslandsbanki Væntanlega fyrsti nýi aðilinn til að gefa út skuldabréf á markaði frá því fyrir hrun. Útgáfan verður allt að fimm milljarðar á árinu.
Íslandsbanki Væntanlega fyrsti nýi aðilinn til að gefa út skuldabréf á markaði frá því fyrir hrun. Útgáfan verður allt að fimm milljarðar á árinu. — Morgunblaðið/Kristinn
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ívar Páll Jónsson ivarpall@mbl.is Íslandsbanki hefur fengið leyfi Fjármálaeftirlitsins til útgáfu sértryggðra skuldabréfa. Bankinn gerir ráð fyrir því að gefa út skuldabréf fyrir allt að fimm milljarða króna á þessu ári.

Ívar Páll Jónsson

ivarpall@mbl.is

Íslandsbanki hefur fengið leyfi Fjármálaeftirlitsins til útgáfu sértryggðra skuldabréfa. Bankinn gerir ráð fyrir því að gefa út skuldabréf fyrir allt að fimm milljarða króna á þessu ári. Sértryggð skuldabréf eru oftast með veði í fasteignalánum og þykja því tryggari eign en margar aðrar skuldaviðurkenningar á fjármálamarkaði.

Íslandsbanki verður því líklega fyrsti nýi útgefandi skuldabréfa í Kauphöll Íslands frá því fyrir hrun í október 2008, en samkvæmt frétt Viðskiptablaðsins frá því á fimmtudaginn hefur Arion banki einnig sótt um leyfi til Fjármálaeftirlitsins til útgáfu sértryggðra skuldabréfa.

Strangar kröfur til útgefenda

Íslandsbanki hefur ákveðið að selja fyrst til íslenskra fjárfesta og má gera ráð fyrir því að þar verði lífeyrissjóðir fremstir í flokki, enda fyrirferðarmiklir á íslenskum fjármálamarkaði.

Útgáfa sértryggðra skuldabréfa hefur aukist mjög eftir að fjármálakreppan hóf innreið sína. Sem fyrr segir eru slík skuldabréf talin tryggari en hefðbundnir skuldabréfagerningar á markaði. Bréfin eru gefin út samkvæmt lögum nr. 11 frá 2008 um sértryggð skuldabréf, en þau eru að sænskri fyrirmynd. Samkvæmt lögunum eru strangar kröfur gerðar til útgefenda. Tryggingasafnið að baki skuldabréfinu skal standast sérstök vikuleg álagspróf með tilliti til vaxta og gengis gjaldmiðla. Þá hefur Fjármálaeftirlitið sérstakt eftirlit með útgáfunni, auk þess sem sjálfstæður skoðunarmaður sinnir eftirliti. Fjárhæð tryggingasafnsins skal einnig ávallt vera hærri en sem nemur heildarfjárhæð höfuðstóls þess flokks sem það er trygging fyrir.

Markaðsvirði útgefinna sértryggðra skuldabréfa í heiminum hefur aukist um tæp 60% frá árinu 2003, en heildarmarkaðsvirði útgefinna bréfa var í kringum 2.400 milljarða evra í lok árs 2009. Þýskaland er stærsti útgefandi sértryggðra skuldabréfa, en markaðir á Spáni, Frakklandi og Bretlandi hafa stækkað hratt á undanförnum árum. Ef við lítum til næstu nágranna okkar eru Danir og Svíar stórtækir í útgáfu sértryggðra skuldabréfa, en Norðmenn og Svíar hafa minni reynslu af markaði með slík bréf.

LANGT FERLI Á ENDA

Aukin breidd í fjármögnun

Birna Einarsdóttir bankastjóri segir að þessi skuldabréfaútgáfa sé hluti af fjármögnunarstefnu bankans, sem geri ráð fyrir aukinni breidd í fjármögnun hans. „Innlán eru 75% af fjármögnun okkar, og það hefur alltaf verið stefna okkar að það hlutfall yrði lægra, eins og í hefðbundinni bankastarfsemi,“ segir hún. „Þetta hefur verið nokkuð langt ferli og ég er mjög ánægð með að leyfið sé í höfn. Við teljum þessa útgáfu mikilvæga fyrir uppbyggingu á íslenskum fjármálamarkaði. Við verðum mjög vör við að fjárfestar hafa áhuga á nýjum fjárfestingarkostum og vonandi taka þeir þessum bréfum vel.“