Einar Oddsson
Einar Oddsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Silja Björk Huldudóttir silja@mbl.is „Þessi diskur eru búinn að vera fimm ár í smíðum, en þá byrjuðum við að taka upp.

Silja Björk Huldudóttir

silja@mbl.is

„Þessi diskur eru búinn að vera fimm ár í smíðum, en þá byrjuðum við að taka upp. Lögin spanna hins vegar miklu lengra tímabil, því nýjasta lagið var samið fyrir um sex árum og það elsta fyrir rúmum þrátíu árum,“ segir Einar Oddsson þegar blaðamaður slær á þráðinn til hans í tilefni nýútkominnar geislaplötu hans sem nefnist Grúsk. Um er að ræða fyrstu geislaplötu samnefndrar hljómsveitar með ellefu lögum eftir Einar samin við texta eftir hann, Magnús Þór Sigmundsson, Þórarin Eldjárn og Davíð Stefánsson.

Aðspurður hvort hann eigi enn mikið óútgefið efni í fórum sínum svarar Einar því játandi og tekur fram að hann eigi nóg efni. „Raunar tókum við fyrir þennan disk upp alls tæplega tuttugu lög bæði á íslensku og ensku, en ákváðum síðar að aðeins íslensku lögin skyldu rata á þessa fyrstu plötu,“ segir Einar og tekur fram að gaman gæti verið að fylgja nýja disknum eftir fljótlega með ensku lögunum. „Það verður hins vegar að koma í ljós hvort útgáfunni verður fylgt eftir að ári eða bara síðar.“

Spurður um nafngiftina á diskum og hópnum segir Einar alltaf erfitt að finna gott nafn á hlutina. „Ég hripaði niður nokkur nöfn sem komu til greina og bar undir fólk sem fannst þetta besta nafnið. Það rímar vel við þetta tónlistarlega grúsk sem liggur að baki disknum þar sem maður er að sækja melódíur aftur í fortíðina sem maður samdi þá.“

Samkvæmt upplýsingum frá Einari stendur nokkuð stór hópur að baki Grúski á disknum eða ellefu hljóðfæraleikarar og tíu söngvarar, en í þeirra hópi eru Pétur Hjaltested á hljómborð, bassa og trommur en hann annaðist einnig upptökustjórn og var hægri hönd Einars við vinnslu disksins, Vignir Snær Vigfússon og Birkir Rafn Gíslason gítarleikarar, Róbert Þórhallsson og Haraldur Þorsteinsson bassaleikarar og Ásgeir Óskarsson trommuleikari, en sjálfur spilar Einar á hljómborð. Í hópi söngvara eru Heiða Ólafsdóttir og Bergsveinn Arilíusson. Útgáfutónleikar verða í Gaflaraleikhúsinu í Hafnarfirði fimmtudaginn 20. október kl. 20.30. Þar verður bandið skipað sex hljóðfæraleikrunum, tveimur bakraddasöngvunum og sjö söngvurum.