Austurvöllur Mótmælendur stóðu flestir við girðingu sem sett hafði verið upp framan við þinghúsið. Nokkrir kveiktu á blysum og tunnur voru barðar.
Austurvöllur Mótmælendur stóðu flestir við girðingu sem sett hafði verið upp framan við þinghúsið. Nokkrir kveiktu á blysum og tunnur voru barðar. — Morgunblaðið/Júlíus
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Róbert B. Róbertsson robert@mbl.is Vel á annað þúsund manns safnaðist saman fyrir framan Alþingi á Austurvelli í gærkvöldi í tilefni af stefnuræðu Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra.

Baksvið

Róbert B. Róbertsson

robert@mbl.is

Vel á annað þúsund manns safnaðist saman fyrir framan Alþingi á Austurvelli í gærkvöldi í tilefni af stefnuræðu Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra.

Þingfundurinn hófst rétt fyrir klukkan átta, en töluverður fjöldi mótmælenda var kominn nokkru fyrir þann tíma. Eftir því sem leið á kvöldið fjölgaði fólki og hávaðinn magnaðist.

Flugeldar og flugvélar

Búið var að koma fyrir fjölda tómra tunna sem fólk barði á svo glumdi um allan miðbæinn. Flugeldum var skotið upp og eldur lagður að vörubretti úr tré, en lögreglan skarst í leikinn áður en eldurinn varð að báli.

Svo virðist sem áætlunarflugi Flugfélagsins hafi verið beint yfir Austurvöll því að minnsta kosti þrjár farþegavélar merktar fyrirtækinu flugu beint yfir alþingishúsið svo mikill hávaði skapaðist.

Fólk úr öllum stigum samfélagsins virtist þarna samankomið og á dreifðum aldri.

Mótmælaspjöld voru áberandi og á þau var búið að rita skilaboð ætluð ráðamönnum Íslands. Slagorð á borð við „Ég borða ekki fögur fyrirheit“, „Þarf ég að flytja úr landi til að eignast mannsæmandi líf?“, „Þjóðinni blæðir út“ og „Lýðræði – réttlæti“ mátti sjá á Austurvelli í gærkvöldi.

Mótmælin fóru að mestu friðsamlega fram en þó voru einhverjir sem grýttu eggjum og öðru matarkyns í átt að alþingishúsinu.

MÓTMÆLI

Mennska framtíð

„Ég er að mótmæla því hvernig fjármálavaldið hefur leikið fólkið,“ sagði Júlíus Valdimarsson. Hann sagði jafnframt að hann vildi mótmæla því hvernig bankarnir, ríkisstjórnin og Alþingi hefðu komið fram. Þá fór hann fram á það að leyst yrði úr vanda heimilanna ekki síður en strax og að verðtryggingin yrði afnumin.

„Ég vil að völdin verði tekin af bönkunum þannig að fólkið sjálft myndi sína banka og við losnum úr klóm fjármálavaldsins. Ég segi að við séum þessi 99% sem þræla í þrælakistunni fyrir þetta 1% sem þá er eftir. Þá á ég við að Ísland, eins og önnur lönd, er hluti af alþjóðlegu fjármálakerfi sem er að níðast á fólkinu,“ sagði Júlíus og lyfti upp skilti sínu sem á stóð: „Mennska framtíð.“

Missti íbúðina sína eftir að hafa lent í bílslysi

,,Ég er að mótmæla því að búið er að rústa öllu hjá heimilunum. Margt fólk er búið að missa aleiguna og það er ekkert verið að gera fyrir þetta fólk,“ sagði Guðmundur Ingi Kristinsson.

Hann sagðist vera búinn að fá nóg, en Guðmundur er einn þeirra sem eru búnir að missa mikið.

,,Ég er búinn að missa íbúðina mína og það eina sem ég gerði er að ég lenti í umferðarslysi og er í dag 100% öryrki. Það var 82 ára gamall maður sem ók yfir á öfugan vegarhelming og keyrði bílinn minn í klessu. Þetta gerðist fyrir 10 árum og ég er búinn að fá allt í allt 400 þúsund í bætur.“

Bara glæpamenn sem fá gjafsókn

,,Ég er búinn að bíða og bíða og biðja um gjafsókn. Þeir lofa öllu fögru, en það gerist ekki neitt. Ögmundur lofaði mér gjafsókn og það gerist ekkert. Öllu er logið og falsað. Það fær enginn gjafsókn í dag nema glæpamenn.“

„Leyfið okkur að kjósa strax“

Ein þeirra sem létu í sér heyra í mótmælunum á Austurvelli í gær var Elínborg Valdórsdóttir. Hún mótmælti að eigin sögn þeirri meðferð sem gamla fólkið, öryrkjarnir og fátæka fólkið hefur sætt.

„Það er búið að fara svo illa með gamla fólkið, öryrkjana og fátæka fólkið, taka af því eigur og mér finnst það vera óréttlæti,“ sagði Elínbjörg, sem stóð í fremstu röð mótmælenda. Hún sagði jafnframt að boða þyrfti til kosninga strax.

„Leyfið okkur að kjósa strax. Út með þessa ríkisstjórn.“