Tónelskar Antonía Hevesi, Erla Björg Káradóttir og Rannveig Káradóttir flytja undurfagra þekkta dúetta í bland við sprellfjörugar og hádramatískar aríur eftir Mozart, Donizetti, Delibes og Verdi á hádegistónleikum í dag.
Tónelskar Antonía Hevesi, Erla Björg Káradóttir og Rannveig Káradóttir flytja undurfagra þekkta dúetta í bland við sprellfjörugar og hádramatískar aríur eftir Mozart, Donizetti, Delibes og Verdi á hádegistónleikum í dag.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Silja Björk Huldudóttir silja@mbl.

Silja Björk Huldudóttir

silja@mbl.is

„Þetta í fyrsta skiptið sem tvær söngkonur koma fram í einu á hádegistónleikunum,“ segir Antonía Hevesi píanóleikari, en systurnar Erla Björg og Rannveig Káradætur sópransöngkonur verða gestir á öðrum hádegistónleikum haustsins í hádegistónleikaröð Hafnarborgar sem fram fara í dag milli kl. 12.00 og 12.30. Þetta er níunda árið í röð sem boðið er upp á hádegistónleika í Hafnarborg, en þeir fara héreftir fram fyrsta þriðjudag hvers mánaðar. Sem fyrr er aðgangur ókeypis. Antonía hefur verið listrænn stjórnandi tónleikanna frá upphafi.

Að sögn Antoníu hafa þær systur ekki haft tækifæri til þess að koma mikið fram saman að undanförnu enda iðulega búið hvor í sínu landinu. „Stutt er síðan Erla Björg flutti heim frá Austurríki þar sem hún lærði og Rannveig býr sem stendur í Frakklandi en er í nokkurra vikna heimsókn á klakanum. Okkur fannst því tilvalið að nota tækifærið og vera með systratónleika.“

Aðspurð segir Antonía efnisskrána setta saman með það fyrir augum að báðar söngkonurnar fái að glansa. „Þannig flytja þær hvor sína aríu sem hæfir þeim vel. Rannveig syngur aríu Norinu úr Don Pasquale eftir Donizetti, en þar bregður hún sér í hlutverk skvísu sem veit allt betur um karlmenn en margar aðrar. Þetta er mjög fjörug og skemmtileg aría. Erla Björg syngur hádramatíska aríu Ameliu úr Grímudansleiknum eftir Verdi, þar sem hún biður um það eitt að fá að kveðja son sinn áður en eiginmaður hennar hyggst taka hana af lífi út af meintu framhjáhaldi hennar.“

Auk þess verður boðið upp á tvo dúetta, annars vegar Blómadúettinn úr Lakmé eftir Delibes og hins vegar Bréfadúettinn úr Brúðkaupi Fígarós eftir Mozart.

Komið í veg fyrir systraríg

„Við pössuðum upp á að báðar fengju annars vegar að syngja hlutverk hefðarkonu og hins vegar þjónustustúlku, til þess að forðast systraríg eftir tónleikana,“ segir Antonía og tekur fram að raddir systranna hljómi einstaklega vel saman þótt þær séu með nokkuð ólíkar raddgerðir.

Að sögn Antoníu hafa hádegistónleikarnir í Hafnarborg fest sig í sessi og fjölgar tónleikagestum jafnt og þétt ár frá ári. „Það er stór hópur af fastagestum sem ýmist vinnur eða býr í miðbæ Hafnarfjarðar. Stundum mæta síðan heilu leik- og grunnskólabekkirnir,“ segir Antonía og tekur fram að sér þyki einnig mjög vænt um það þegar eldri borgarar komi í skipulögðum ferðum á tónleikana. Segist hún sannfærð um að tónleikagestir komi endurnærðir út að tónleikum loknum.