Egill Steinar Ingimundarson fæddist í Hafnarfirði 24. nóvember 1960. Hann lést á Landspítalanum í Fossvogi 27. sept 2011.

Móðir hans var Steinunn Snjólfsdóttir, fædd 1934. Faðir Ingimundur Jónsson vélstjóri, fæddur 1926. Þeim varð sjö barna auðið. Þau eru Jórunn f. 1958, Jón Ingi f. 1959, d. 1978, Valur f. 1962, Oddný f. 1964, Sigurður f. 1966, Kristinn f. 1968. Egill var í sambúð með Ragnheiði Evu Birgisdóttur. Þau eignuðust 2 börn: 1) Eygló Ýr Evudóttir f. 1984, maki Jón Ingi Gunnarsson og börn þeirra Ingi Rafn, Óskar Erik og Herdís Eva. 2) Egill Ingi f. 1996. En þau slitu samvistum. Þau bjuggu í Hafnarfirði og Garðabæ. Egill bjó seinast í Keflavík. Egill starfaði mikið við beitningu, var á sjó, keyrði vörubíl og vann ýmis störf sem til féllu.

Útför Egils fer fram í dag, þriðjudaginn 4. október 2011, í Keflavíkurkirkju og hefst athöfnin kl. 13.

Elsku Egill. Fyrir mörgum árum dreymdi mig draum. Jón Ingi bróðir okkar kom til mín og vildi sýna mér staðinn sinn í himnaríki. Þar var stór salur og fallegur og þar inni var stór og fallegur flygill sem hann sýndi mér. Ég veit núna að hann var ætlaður þér. Það hafa orðið fagnaðarfundir þegar þið hittust aftur. Og þú ert örugglega núna að prófa flygilinn og pabbi og mamma hjálpa þér að aðlagast nýja staðnum.

Elsku bróðir. Þú fékkst allar Guðsgjafirnar. Þú varst tónlistarmaður, íþróttamaður, heimspekingur og húmoristi. Svo ertu líka fallegasta sál sem ég hef kynnst, það var alltaf svo gaman að tala við þig, þú varst skemmtilegur og ljúfur og svo varstu bara svo vel að þér í öllum sköpuðum hlutum.

Margt kemur upp í hugann þegar ég hugsa um þig þegar þú varst lítill drengur skítugur upp fyrir haus alltaf að spila fótbolta. Þegar þú spilaðir á flautuna sem var næstum jafn stór og þú. Þegar við sömdum lög uppi í herberginu mínu í Vinaminni og ætluðum að verða heimsfrægir tónlistarmenn. Þegar þú eldaðir handa mér pastað og við hlógum eins og tröll. Þegar þú fórst að vera með henni Evu. Hún var stóra ástin í lífi þínu og þú stóra ástin hennar. Þið eignuðust tvö yndisleg börn og þrjú barnabörn. Saga ykkar er falleg, sértök og erfið. En hún Eva okkar stóð alltaf með þér og gerir enn þótt þið séuð löngu hætt saman.

Líf þitt var ekki alltaf auðvelt, krumla alkóhólismans hélt þér löngum stundum og undan henni komst þú ekki síðustu ár. Mér þykir svo vænt um hvað fólk talar fallega um þig og þótti vænt um þig, bæði börn og fullorðnir. Ég er svo glöð yfir símtalinu sem við áttum um daginn, þú ræddir um börnin þín og þú varst svo stoltur af þeim eins og alltaf. Þú varst nýbúinn að hitta barnabörnin þín og varst að springa úr monti út af þeim. Við ræddum líka um tónlist og himnaríki, þú sagðir að himnaríki væri til, að þannig væri það bara og þar væri yndislegt að vera. Og ég veit, elsku bróðir, að þú ert kominn þangað núna. Faðmaðu drenginn minn frá mér og alla þá sem mér eru kærir. Ég veit að hvíti flygillinn mun hljóma hátt í himnaríki og þegar við hittumst aftur muntu spila fyrir mig á hann. Við börnin þín og þá sem elskuðu þig vil ég segja. Leyfum sorginni að hafa sinn gang.

Lærum af lífi Egils Steinars.

Yljum okkur við góðu minningarnar. Styrkjum hvert annað og höfum kærleikann að leiðarljósi.

Elsku bróðir.

Njóttu þín á nýja staðnum, spilaðu og syngdu og ég veit að þú verður hamingjusamur og heimsfrægur í himnaríki.

Með ást og virðingu

Þín systir,

Jórunn.

Kæri vinur.

Þú varst mesti húmoristinn.

Þú varst besti beitningarmaðurinn.

Þú varst skemmtilegastur.

Þú varst stundum erfiður.

Þú varst stundum blankur.

Þú varst ljúfmenni.

Þú varst vinur minn.

Ég ætlaði að halda öll mín heit

og ögrandi móti bylgjunum leit.

en skipið mitt festina í stormi sleit

og stefndi undan vindi og sjó.

Sumir fara nauðugir, en sigla þó.

Svo hraktist ég einn yfir úthöf blá

og ókunnar strendur og lýði sá,

þar brenndi ég sál mína eitri á,

sem ógæfunornin mér bjó,

Sumir eiga vita, en villast þó.

Og nú er svo komið, að ég er

ekki annað en skuggi af sjálfum mér,

og bátinn minn viljandi ég brast við sker

og mundi þig... mundi þig þó.

Ég veit, að þú beiðst og bíður mín

eins björt og sólin, eins ilmandi og vín.

Ég heyri í bylgjunum hjartaslög þín

og hlusta og stari út á sjó,

en ég er bundinn í báða skó.

(Davíð Stefánsson.)

Nú skilja leiðir um sinn

en þú varst alltaf vinur minn.

Þinn mágur,

Pétur H.

Ég sendi þér kæra kveðju

nú komin er lífsins nótt,

þig umvefji blessun og bænir

ég bið að þú sofir rótt.

Þó svíði sorg mitt hjarta

þá sælt er að vita af því,

þú laus ert úr veikinda viðjum

þín veröld er björt á ný.

Ég þakka þau ár sem ég átti

þá auðnu að hafa þig hér,

og það er svo margs að minnast

svo margt sem um hug minn fer,

þó þú sért horfinn úr heimi

ég hitti þig ekki um hríð,

þín minning er ljós sem lifir

og lýsir um ókomna tíð.

(Þórunn Sigurðardóttir)

Hvíldu í friði, elsku Egill,

og takk fyrir allt.

Þín mágkona,

Jónína.

Elsku frændi okkar. Við viljum þakka þér fyrir þann tíma sem við áttum saman og munum alltaf varðveita minningarnar sem við eigum um þig.

Við vildum kveðja þig með ljóði:

Þar sem englarnir syngja sefur þú

sefur í djúpinu væra.

Við hin sem lifum lifum í trú

að ljósið bjarta skæra

veki þig með sól að morgni.

Farðu í friði vinur minn kær

faðirinn mun þig geyma.

Um aldur og ævi þú verður mér nær

aldrei ég skal þér gleyma.

Svo vöknum við með sól að morgni.

(Bubbi Morthens)

Jón Ingi, Berglind Nanna, Sandra Sif og Sunna Björk.

HINSTA KVEÐJA
Elsku bróðir.
Þó að ævi þín sé öll er mikið til að minnast. Við studdum hvor annan
(þú veist hvað ég meina.)
Engum treysti ég betur en þér.
Hvíl í friði, yndislegi bróðir.
Kristinn.