Listaverkið Tilbrigði við nýju fötin keisarans sem á við um öll svið mannlegs lífs, ekki bara listirnar.
Listaverkið Tilbrigði við nýju fötin keisarans sem á við um öll svið mannlegs lífs, ekki bara listirnar.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Yasminu Reza. Leikarar: Baltasar Kormákur, Hilmir Snær Guðnason og Ingvar E. Sigurðsson. Leikmynd: Guðjón Ketilsson. Búningar: Guðjón Ketilsson og Berglind Einarsdóttir. Lýsing: Lárus Björnsson. Þýðing: Pétur Gunnarsson.

Eftir Yasminu Reza. Leikarar: Baltasar Kormákur, Hilmir Snær Guðnason og Ingvar E. Sigurðsson. Leikmynd: Guðjón Ketilsson. Búningar: Guðjón Ketilsson og Berglind Einarsdóttir. Lýsing: Lárus Björnsson. Þýðing: Pétur Gunnarsson. Hljóðmynd: Sigurvald Ívar Helgason. Leikstjórn: Guðjón Pedersen. Stóra sviðið í Þjóðleikhúsinu 29. september.

Listaverkið mun upphaflega hafa verið sýnt í París árið 1994 og öðlaðist samstundis miklar vinsældir og hóf sigurgöngu um heiminn. Það var fært upp í Þjóðleikhúsinu 1997 við miklar vinsældir og er nú sýnt aftur 14 árum síðar. Leikarar eru þeir sömu og síðast en nú eru þeir komnir á miðjan aldur og þurfa engan stuðning af hárkollum og bumbum. Leikstjórn og leikmynd eru einnig í höndum þeirra sömu og áður. Persónur verksins eru þrjár, húðsjúkdómalæknirinn Serge, verkfræðingurinn Mark og Ivan sem er nýlega búinn að skipta yfir í ritfangabransann. Átök verksins kvikna af því að Serge hefur keypt málverk eftir viðurkenndan málara, frá góðu tímabili á ferli hans, fyrir háa upphæð en málverkið er hvítur flötur og ekkert annað. Verkfræðingnum Mark finnst þetta forkastanlegt og Ivan, þriðji vinurinn, sveiflast milli þessara félaga sinna sem hann vill hvorugan styggja.

Mér fannst það örlítil vonbrigði að setjast í aðalsal Þjóðleikhússins og sjá það sem að mínu mati var sláandi ljót leikmynd, hlaði af kössum úr brúnum bylgjupappa með daufum merkingum sem sögðu til um innihaldið. Mynd í leikskrá rifjaði það upp fyrir mér að þegar verkið var sett upp á Litla sviði Þjóðleikhússins var líka notaður kassahlaði án þess að mér þætti neitt athugavert við það. Kannski er ástæðan mismunandi stærð salanna. Maður gerir einhvern veginn ráð fyrir að það sé eitthvað tilkomumikið, áhugavert eða snjallt við leikmynd á stóra sviði Þjóðleikhússins. Á hitt er þó að benda að þessi leikmynd nýtist með hugvitssamlegum hætti í sýningunni. Þá verður hún heldur ekki gagnrýnd fyrir að taka mikið frá listaverkinu sjálfu þegar það er til sýnis!

Listaverkið er um 100 mínútur að lengd og flutt án hlés. Það er vel skrifað og hver persóna um sig fær að skína í samleik og einræðum. Sagt hefur verið um verkið að með því að velja rétt í hlutverkin sé maður kominn langleiðina með að setja upp vel heppnaða sýningu. Það er óhætt að fullyrða að hér er valinn maður í hverju rúmi. Leikararnir segja í viðtali í leikskrá að þeir fari nær sjálfum sér við persónusköpunina í þessari uppfærslu og nú sé minna offors, gríninu sé leyft að koma bara út úr verkinu. Þetta finnst mér ganga eftir. Í mörgum tilvikum liggur galdurinn í því hvernig einni setningu eða jafnvel einu orði er skilað með tímasetningu og raddblæ og hér steinliggur allt.

Búningar, greiðsla, hár og skegg skila vel þeim mun sem er á persónunum. Mark Baltasars er í þykkum vönduðum jakkafötum með feitt hárið vandlega greitt og karlalegt skegg í kringum munninn en Serge Ingvars, sem hefur farið í andlega umpottun og er með afbyggingu og nútímalist á hraðbergi, var meira yfir í gelið og allur tálgaðri, tísku- og listalegri enda á lausu og daðrandi við listaheiminn. Ivan, persóna Hilmis Snæs, var svo aðallega í því að reyna að hemja fötin á réttum stað.

Sérstaklega var gaman að sjá hvernig Baltasar gat notað þau ár sem hann hefur bætt við sig síðan síðast, gert sig aðeins lotinn, nýtt örfá aukakíló til að láta skyrtuna dragast upp úr buxunum og svo var einkar laglegt þegar hann einstaka sinnum pírði augun út í loftið og gretti sig – sem segja má að sé einkennisvipur hins miðaldra manns.

Hlutverk Hilmis Snæs sem vingullinn Ivan sem er að vinna í ritföngum og er að fara að gifta sig er hvað fyndni varðar sennilega þakklátast. Hann er að nokkru leyti trúðurinn í vinagenginu og ein innkoma hans er svo skemmtileg að sýningin stoppaði á meðan klappað var sérstaklega. Ef ég man rétt brilleraði hann einnig algerlega í þessari sömu einræðu fyrir 14 árum enda er þarna á ferðinni toppefni fyrir rétta manninn.

En hvað gerir Listaverkið svona vinsælt? Greinir það vináttu með svo eftirminnilegum hætti? Vekur það mann til umhugsunar um eðli listarinnar? Er það bara einfaldlega fyndið? Skoðanirnar eru margvíslegar. Einhverjir hafa sagt að Listaverkið ýti undir fordóma gegn nútímalistum, aðrir hafa sagt að það risti ekki sérlega djúpt. Eitt er þó að minnsta kosti víst og það er að verkið hefur einhverja almenna skírskotun sem nægir til að hrífa fólk um allan heim. Það er einnig nógu gott til að lifa áfram þó að því muni kannski ekki hlotnast sess meðal meistaraverka í leikbókmenntum heimsins.

Listaverkið er tilbrigði við nýju fötin keisarans sem á við um öll svið mannlegs lífs, ekki bara listirnar. Kjarninn í verkinu er umfjöllun um vináttuna, þróun hennar og þolraunir. Þörf vina fyrir að stjórna hver öðrum, hin hljóða krafa um að vinurinn haldi áfram í því hlutverki sem honum var úthlutað í huganum. Það má jafnvel ganga lengra og segja að karakterarnir í verkinu sýni hver um sig þætti sem búa í öllum mönnum, bara í misjöfnum hlutföllum. Snobb eða þörfina fyrir aðdáun, áráttuna til að sigla gegn straumnum og svo það að nenna ekki að gera ágreining út af hlutum sem manni er slétt sama um.

Eitt atriði fór aðeins í taugarnar á mér í þessari uppfærslu og það er þegar þeir félagar taka allir dansspor í frakka á einum stað í sýningunni. Ekki það að þeir geri þetta ekki óaðfinnanlega eins og annað sem þeir taka sér fyrir hendur. Ég átti bara erfitt með að sjá hvað þetta atriði átti að segja manni og hvernig það tengdist sýningunni fyrir utan það að vera artí – svona næstum því eins og risastórt hvítt málverk.

Sigurður G. Valgeirsson

Höf.: Sigurður G. Valgeirsson