— Reuters
Dóttir heimilisgyðjunnar Mörthu Stewart, Alexis, hefur ýmislegt út á móður sína að setja en hún gaf nýverið út bókina Whateverland: Learning to Live Here, þar sem hún uppljóstrar ýmsu vandræðalegu um elsku mömmu.

Dóttir heimilisgyðjunnar Mörthu Stewart, Alexis, hefur ýmislegt út á móður sína að setja en hún gaf nýverið út bókina Whateverland: Learning to Live Here, þar sem hún uppljóstrar ýmsu vandræðalegu um elsku mömmu.

„Martha gerir allt betur, þú getur ekki unnið,“ segir Alexis meðal annars í bókinni. „Ef ég gerði eitthvað og það var ekki fullkomið, þá þurfti ég að gera það aftur. Ég ólst upp við það að límbyssu var miðað að höfðinu á mér.“

Hrekkjavaka og jólin voru ekki í hávegum höfð á heimili Stewart-fjölskyldunnar, þó að bækur og sjónvarpsþættir fjölskyldumóðurinnar gefi annað til kynna.

„Martha hafði ekki áhuga á því að vera barnvæn. Hún lét mig sjálfa pakka inn jólagjöfunum til mín. Hún afhenti mér hluti rétt fyrir jól og sagði: „Pakkaðu þessu inn, en ekki kíkja.““

Á hrekkjavöku fékk Alexis engan búning heldur voru öll ljós í húsinu slökkt til þess að fólk héldi að enginn væri heima.

Alexis segir einnig frá því í bókinni að móðir hennar hafi vanið sig á að pissa með salernisdyrnar opnar og að það hafi aldrei verið til neinn tilbúinn matur á heimilinu þegar hún var yngri.

Þrátt fyrir að eiga ýmislegt óuppgert við móður sína tileinkar Alexis henni bókina og Martha á sjálf texta um dóttur sína í bókinni. Það mætti því ætla að þessi drottning heimilishaldsins vissi upp á sig skömmina.