Golf Kristján Jónsson kris@mbl.is Ólafur Björn Loftsson, kylfingur úr Nesklúbbnum, fékk ekki mikið fyrir frammistöðu sína á Whyndham-mótinu á PGA-mótaröðinni ef horft er til heimslista áhugamanna í golfi.

Golf

Kristján Jónsson

kris@mbl.is Ólafur Björn Loftsson, kylfingur úr Nesklúbbnum, fékk ekki mikið fyrir frammistöðu sína á Whyndham-mótinu á PGA-mótaröðinni ef horft er til heimslista áhugamanna í golfi. Ólafur vann sig inn í Whyndham-mótið með glæsilegum sigri á úrtökumóti fyrir áhugamenn. Í framhaldinu stóð hann sig virkilega vel á stóra sviðinu og lék á tveimur höggum undir pari og var aðeins höggi frá því að komast í gegnum niðurskurðinn. Margur hefði haldið að þessi árangur hefði gert mikið fyrir hann á heimslista áhugamanna en sú varð nú aldeilis ekki raunin.

„Mér fannst nú frekar kjánalegt að ég hrapaði niður ein fjörutíu sæti eftir Whyndham-mótið. Þetta kerfi er því ekki alveg í lagi og í því eru smágallar. Í næsta móti á eftir, sem var háskólamót, var ég í bullandi vandræðum en fékk fleiri stig á heimslistanum fyrir það en Whyndham-mótið. Þessi listi á að gefa besta mynd af því hvar maður stendur í háskólagolfinu en maður reynir að pæla ekki mikið í þessu dags daglega,“ sagði Ólafur í samtali við Morgunblaðið í gærkvöldi. Ólafur er kominn af stað í háskólagolfinu en hann er á sínu síðasta ári og keppir fyrir Charlotte-skólann. Ólafur lék afar vel um helgina og hafnaði þá í 6. sæti í móti sem Duke-háskólinn hélt.

„Ég spilaði mjög vel í mótinu. Þótt maður setji alltaf stefnuna á efsta sætið var þetta engu að síður mjög gott mót hjá mér. Vindurinn var mikill alla þrjá hringina og af þeim sökum var skorið almennt mjög hátt í mótinu. Ég átti ekki góða byrjun í fyrstu tveimur mótunum og var þá ekki við mína bestu heilsu en þetta var mun betra um helgina,“ sagði Ólafur sem glímir við álagsmeiðsli í úlnlið en segir þau ekki vera alvarleg og er bjartsýnn á veturinn.