Mitt í öllu fréttaflóði helgarinnar af setningu Alþingis, mótmælum, fótbolta og fjárlögum var það einn pistill á netinu sem vakti athygli Víkverja öðru fremur. Pistillinn birtist fyrst á vef skólafélags Menntaskólans við Sund (belja.

Mitt í öllu fréttaflóði helgarinnar af setningu Alþingis, mótmælum, fótbolta og fjárlögum var það einn pistill á netinu sem vakti athygli Víkverja öðru fremur. Pistillinn birtist fyrst á vef skólafélags Menntaskólans við Sund (belja.is) og er eftir formann félagsins, Ásgrím Hermannsson, sem í þessum skóla hefur titilinn „ármaður“. Yfirskrift pistilsins er „Hvernig skólinn drap metnaðinn minn“ og hvetur Víkverji sem flesta til að lesa hugrenningar þessa unga manns. Hann er ritaður af miklum eldmóði og sannfæringarkrafti og eflaust munu einhverjir foreldrar og kennarar fussa og sveia yfir sumu af því sem Ásgrímur heldur fram. Meginskilaboð hans eru þau að skólakerfið hafi ekki tileinkað sér nýjar kennsluaðferðir í takt við nútímann og enn sé verið að beita sömu aðferðum og á 19. öld. Hann bendir réttilega á að aðgengi að upplýsingum er allt annað og meira en áður og ungmenni á hans aldri geti vel sótt sér það kennsluefni sem kennarar mæta með í skólastofurnar og þylja upp fyrir framan misáhugamikla nemendur. Einnig að ritstuldur sé orðinn landlægur. Pistillinn er ákall um breytt skólakerfi, þar sem meira tillit verði tekið til áhugasviðs nemenda á framhaldsskólaaldri og skólarnir verði betur tengdir atvinnulífinu.

Pistillinn verður ekki endurtekinn hér en Víkverji lætur duga að vitna í niðurlagið hjá Ásgrími:

„Förum að undirbúa okkur fyrir lífið á 21. öldinni en ekki lífið á 19. öldinni sem var þannig að ef þú fórst í skóla fékkstu vinnu, núna getur þú farið í tvöfaldan master og ekki einu sinni fengið vinnu. Gallinn er sá að við erum of menntuð í hlutum sem skipta ekki máli, ég þarf ekki að vita muninn á súru og basísku bergi, ef ég þarf þess einhvern tímann þá mun ég googla það, Jói félagi minn sem vill vera jarðvísindamaður þarf að vita það og það er fínt, hættum að reyna að steypa alla í sama mót og förum að vinna að því að gera einstaklinginn að betri einstaklingi.“