Tilþrif Jóhannes Haukur Jóhannesson leikari er meðal þeirra sem nú vinna hörðum höndum að því að lesa inn nýjar bækur sem innan skamms verða settar inn á vefinn til niðurhals og koma út á geisladiskum.
Tilþrif Jóhannes Haukur Jóhannesson leikari er meðal þeirra sem nú vinna hörðum höndum að því að lesa inn nýjar bækur sem innan skamms verða settar inn á vefinn til niðurhals og koma út á geisladiskum.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fréttaskýring Silja Björk Huldudóttir silja@mbl.is Óhætt er að segja að sprenging sé framundan í útgáfu hljóðbóka á íslensku.

Fréttaskýring

Silja Björk Huldudóttir

silja@mbl.is

Óhætt er að segja að sprenging sé framundan í útgáfu hljóðbóka á íslensku. Þannig er útlit fyrir að hátt í fimmtíu nýjar hljóðbækur verði gefnar út á geisladiskum eða gerðar aðgengilegar sem niðurhal á vefnum á næstu vikum og mánuðum fram að jólum. Nýverið bárust fréttir af því að Skynjun ehf. ætli sér stóra hluti á íslenska hljóðbókamarkaðnum, en fyrir á þeim markaði eru m.a. Hljóðbók.is, Dimma.is, hljóðbókasíðan Hlusta.is og Sögustund.is með bækur fyrir börn.

„Við ætlum að hasla okkur völl á rafbókamarkaðnum almennt, en ákváðum að byrja á hljóðbókunum af því þar eru réttindamálin augljósari,“ segir Stefán Hjörleifsson, framkvæmdastjóri Skynjunar ehf. Segir hann ráðgert að gefa út fyrir jólin 20 nýjar hljóðbækur sem aðgengilegar verða á sérstökum bókaheimi Tónlist.is sem niðurhal auk þess sem valdir titlar koma út á geisladiskum. „Í framhaldinu gerum við ráð fyrir að gefa út 25-40 nýjar hljóðbækur á ári.“

Að sögn Stefáns felst helsta nýjungin í því að hljóðbækur vinsælla höfunda munu koma út samhliða innbundnum bókum. „Þetta hefur ekki verið reynt áður, en er lykilatriði því þannig verður hljóðbókin alvöru valkostur við prentuðu bókina,“ segir Stefán. Dæmi um nýjar bækur sem hægt verður að hala niður eru Hjarta mannsins eftir Jón Kalman Stefánsson, Jójó eftir Steinunni Sigurðardóttur, Skuggi meistarans eftir Ólaf Jóhann Ólafsson, Trúir þú á töfra eftir Vigdísi Grímsdóttur, Lýtalaus eftir Tobbu Marinós, Frönsk svíta eftir Iréne Némirovsky og Lygarinn eftir Óttar M. Norðfjörð, auk nýjustu bókar Yrsu Sigurðardóttur. Fyrstu bækurnar munu rata inn á bókaheiminn á Tónlist.is í október en vefurinn verður formlega opnaður 1. nóvember nk.

„Við höfum trú á því að það sé loksins kominn markaður fyrir hljóðbækur,“ segir Stefán og viðurkennir að það geti verið dýrt að gefa út hljóðbækur fyrir jafnlítinn markað og Ísland er þar sem málsvæðið sé lítið. „Það sem hefur breyst er að tæknin er orðin einfaldari og dreifileiðum hefur fjölgað, auk þess sem flestallir hafa núorðið aðgang að græjum til þess að hlusta,“ segir Stefán.

Bækur fyrir upptekna þjóð

„Það sem hefur skort hingað til er vilji útgefenda til að gefa út hljóðbækur samtímis prentuðum bókum,“ segir Gísli Helgason, annar tveggja eigenda Hljóðbók.is. Gísli er mikill reynslubolti þegar kemur að hljóðbókum því hann hefur unnið að útgáfu hljóðbóka á almennum markaði síðustu þrjá áratugi. „Við höfum lagt áherslu á að gefa út nýjar bækur um leið og þær koma út og það virðist loks vera að takast í ár. Ég held að útgefendur séu farnir að átta sig á því að hljóðbókin steli ekki frá prentuðu bókinni heldur er hrein viðbót,“ segir Gísli og bendir á að rannsóknir gerðar í Þýskalandi, á hinum Norðurlöndunum í Bretlandi og Bandaríkjunum staðfesti að lestur hafi aukist þegar hljóðbækur komu á markað. Að sögn Gísla má yfirleitt reikna með að 10-12% af upplagi prentaðra bóka seljist í hljóðbókaformi.

Á Hljóðbók.is má nú þegar finna um 90 titla úr ólíkum bókflokkum. „Við höfum síðustu misseri unnið að því að undirbúa vefinn okkar þannig að hægt sé að nálgast hljóðbækur okkar sem niðurhal og verður það hægt frá og með októbermánuði.“ Að sögn Gísla mun Hljóðbók.is gefa út 15-20 nýjar hljóðbækur fyrir komandi jól og verður þar aðallega um að ræða íslenskar og þýddar skáldsögur, nýútkomnar bækur í bland við gamlar. Meðal væntanlegra bóka eru Aðgát skal höfð í nærveru sálar eftir Solveigu Láru Guðmundsdóttur prest, Hausaveiðararnir og Frelsarinn eftir Jo Nesbø.

Að mati beggja viðmælenda má skýra auknar vinsældir hljóðbóka með annríki nútímalífs. Þannig sé talsverður fjöldi fólks sem ekki gefi sér tíma til að lesa bækur en finni tíma til að hlusta. Aðrir hafi ekki eirð í sér til að lesa eða vilja geta nýtt tímann til annars á meðan þeir hlusta, t.d. að keyra á milli staða, fara í göngutúr, vera í ræktinni eða sinna heimilisstörfum. Enn aðrir eru svo einfaldlega of þreyttir til að lesa sjálfir og finnst gott að láta lesa fyrir sig.