[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ágúst Jóhannsson, landsliðsþjálfari kvenna í handknattleik, er kominn með lið sitt, Levanger í Noregi, áfram í Evrópukeppni bikarhafa eftir tvo auðvelda sigra á Izmir frá Tyrklandi um helgina.

Á gúst Jóhannsson, landsliðsþjálfari kvenna í handknattleik, er kominn með lið sitt, Levanger í Noregi, áfram í Evrópukeppni bikarhafa eftir tvo auðvelda sigra á Izmir frá Tyrklandi um helgina. Levanger vann fyrri leikinn 35:18 og þann síðari 34:17 en báðir fóru fram í Levanger. Rakel Dögg Bragadóttir var ekki með í leikjunum vegna meiðsla. Nína Björk Arnfinnsdóttir skoraði eitt mark fyrir Levanger í fyrri leiknum.

Hörður Fannar Sigþórsson línumaður Akureyrar í handbolta og mikill varnarjaxl verður frá keppni næstu vikurnar en að því er fram kemur á vef Akureyrarliðsins ristarbrotnaði hann í leiknum gegn FH á fimmtudagskvöldið. Þetta eru ekki góð tíðindi fyrir Akureyri en fyrir á sjúkralistanum voru þeir Heimir Örn Árnason, Ásgeir Jónsson og Daníel Einarsson .

M agnús Kristinn Magnússon úr Víkingi sigraði félaga sinn og nafna, Magnús Finn Magnússon , í úrslitaleiknum í meistaraflokki karla á Adidas-mótinu í borðtennis, stigamóti BTÍ, sem fram fór í TBR-húsinu um helgina. Magnús Kristinn vann úrslitaleikinn 3:0 en leikurinn var samt hnífjafn því loturnar enduðu 11:9, 11:9 og 11:8. Víkingar áttu fjóra efstu menn því Daði Freyr Guðmundsson og Mihaita Barbascu höfnuðu í 3.-4. sæti á mótinu.

Körfuboltadómarinn Sigmundur Már Herbertsson , annar af tveimur FIBA-dómurum landsins, mun dæma leik Tampereen Pyrintö og Szolnoki Olaj í Evrópukeppninni sem fram fer í Finnlandi í dag. Sigmundur hefur dæmt talsvert á undanförnum misserum og hefur fengið stærri verkefni frá FIBA Europe eftir góða frammistöðu í þeim leikjum sem hann hefur dæmt að því er fram kemur á vef Körfuknattleikssambands Íslands.

Richard Eiríkur Tahtinen , landsliðsþjálfari kvenna í íshokkíi, er kominn með heimild til að leika með Birninum á Íslandsmótinu. Richard þjálfar kvennalið félagsins og er fyrrverandi leikmaður og þjálfari Skautafélags Reykjavíkur en hefur ekki stigið á ísinn í nokkur ár. Richard á íslenska móður og finnskan föður. Hann ólst upp ytra en fluttist til Íslands fyrir tæpum áratug síðan og gekk til liðs við SR. Var hann þá einn öflugasti leikmaður deildarinnar. Richard er auk þess fyrrverandi þjálfari karlalandsliðs Íslands.

Mariya Savinova frá Rússlandi hefur verið útnefnd frjálsíþróttakona ársins í Evrópu af evrópska frjálsíþróttasambandinu. Savinova hefur átt góðu gengi að fagna á hlaupabrautinni í ár og hápunkturinn hjá henni var heimsmeistaratitillinn í greininni sem hún vann í Daegu í S-Kóreu í ágúst.

Savinov, sem er 26 ára gömul, er fjórði Rússinn sem hlýtur þessa viðurkenningu.