Pétur Stefánsson hlustaði á Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra í Kastljósinu á þriðjudag. „Allt á uppleið, ekkert á niðurleið. Allir hafa það gott,“ hafði hann eftir henni og orti: Efnahagslífið eflast mun, sem atvinna margra greina.

Pétur Stefánsson hlustaði á Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra í Kastljósinu á þriðjudag. „Allt á uppleið, ekkert á niðurleið. Allir hafa það gott,“ hafði hann eftir henni og orti:

Efnahagslífið eflast mun,

sem atvinna margra greina.

Allt er í blóma eftir hrun,

„ekki er því að leyna“.


Kristján Hreinsson fylgdist með setningu Alþingis og gat ekki á sér setið:

Trausti er ríkisstjórn rúin,

ráðherrar læðast með veggjum

og moldríka forsetafrúin

er farin að kasta eggjum.


Séra Hjálmar Jónsson bætti við:

Úti voru eggjasóðar,

inni messur settar.

Bil er milli þings og þjóðar,

þings og Hæstaréttar.


Sigrún Haraldsdóttir prjónar við:

Ýfir margra garpa geð

geil í svefni og vöku,

bilið reyna að brúa með

blautri eggjaköku.

Davíð Hjálmar Haraldsson heyrði af forstjóraskiptum hjá Iceland Express:

Fáu er í fréttum logið;

fékkst á hreint

að áfram getur Express flogið

allt of seint.

Ingólfur Ómar Ármannsson laumaði vísu til Vísnahornsins:

Léttir trega, lífgar brá,

líkt og dæmi sanna,

stakan snjalla ítök á

enn í hugum manna.

Pétur Blöndal pebl@mbl.is