Ítölsk innansveitarkróníka.
Norður | |
♠7 | |
♥108543 | |
♦ÁK10843 | |
♣D |
Vestur | Austur |
♠10983 | ♠G52 |
♥G62 | ♥KD97 |
♦G65 | ♦972 |
♣984 | ♣G76 |
Suður | |
♠ÁKD64 | |
♥Á | |
♦D | |
♣ÁK10532 |
Stærstu bridsfélög Ítala keppa árlega um réttinn til að taka þátt í bikarkeppni Evrópu (Champions Cup). Úrslitaleikurinn í ár var sýndur á Bridgebase fyrir skömmu, en þar áttust við Allegra-klúbburinn frá Tórínó og Angelini frá Róm. Í Allegra-liðinu spiluðu Lauria, Versace, Bocchi, Madala, Duboin, Sementa, Giubilo og Zaleski – átta manna lið á móti fjórmenningum Angelini, þeim Fantoni, Nunes, Cima og sjálfum Garozzo.
Allegra-sveitin sigraði örugglega, en heppnin var óneitanlega með þeim í spilinu að ofan. Lauria og Guibilo slysuðust upp í 7♦, sem vinnast út á hagstæða legu í láglitunum. Hinum megin vakti Fantoni í suður á víðáttulaufi og Nunes sýndi skiptinguna í rauðu litunum með heljarstökki í 3♠. Og hvað gat suður gert við því nema segja 3G?