Forsetinn Ef tekið yrði vel í umsókn um aðild Íslands að BNA og Obama gengur vel í kosningunum 2012 gæti svala sjarmatröllið orðið nýr leiðtogi Frónbúa. Óneitanlega áhugaverðari maður en Rompuy.
Forsetinn Ef tekið yrði vel í umsókn um aðild Íslands að BNA og Obama gengur vel í kosningunum 2012 gæti svala sjarmatröllið orðið nýr leiðtogi Frónbúa. Óneitanlega áhugaverðari maður en Rompuy. — Reuters
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
• Þegar mælitölur eru skoðaðar virðast Bandaríkin betri en Evrópusambandið á flestum sviðum • Betri lífskjör á nær alla vegu, meira frelsi og lægri skattar fyrir íbúa Bandaríkjanna en íbúa ESB • Væri kannski skynsamlegra fyrir Ísland að...

• Þegar mælitölur eru skoðaðar virðast Bandaríkin betri en Evrópusambandið á flestum sviðum • Betri lífskjör á nær alla vegu, meira frelsi og lægri skattar fyrir íbúa Bandaríkjanna en íbúa ESB • Væri kannski skynsamlegra fyrir Ísland að sækja um að verða 51. ríkið í Bandaríkjum Norður-Ameríku?

Fréttaskýring

Ásgeir Ingvarsson

asgeiri@mbl.is

Vefurinn Andríki.is, Vefþjóðviljinn, sló því upp í gríni í pistli fyrir um mánuði að Ísland ætti að skoða inngöngu í Bandaríkin. Tillagan var ekki meint í alvöru, heldur var vefurinn að benda á að hversu undarlegt það væri að Ísland ætti í samningaviðræðum við Evrópusambandið til að „sjá hvað væri í boði“. Hví þá ekki líka að hefja viðræður við Bandaríkin og sjá hvað býðst? „Eða ætla menn virkilega að hafa af þjóðinni réttinn til að greiða atkvæði um aðildarsamning við Bandaríkin, þetta gamalgróna lýðræðisríki og bandamann Íslands?“ spyr Andríki.is.

En hugmyndina um að gera Ísland að 51. ríki Bandaríkja Norðu-Ameríku má líka nota til að sjá hvort Evrópusambandið er yfir höfuð svo spennandi félagsskapur. Aðildarsinnar virðast svo oft sjá Evrópusambandið í hillingum sem sannkallað draumaland, ekki aðeins frá sjónarhorni frjáls flæðis vöru, þjónustu og vinnuafls, heldur einnig hvað snýr að gæðum samfélagsins og stjórnmálastefnu almennt um hin ýmsu mál.

Þegar rýnt er í töflur og tölur kemur hins vegar í ljós að Bandaríkin eru Evrópu fremri á flestum, ef ekki öllum sviðum og ættu á pappírunum að vera mun fýsilegri kostur ef á annað borð á að framselja fullveldi þjóðarinnar.

Skoðum nokkur skemmtileg dæmi:

Hvar er lýðræðið?

Rannsóknardeild tímaritsins The Economist, Economist Intelligence Unit, gefur reglulega út lista sem mælir lýðræði í löndum heims. Síðast var listinn birtur árið 2010 og eru 10 Evrópusambandsríki (og 3 EFTA-ríki) í 16 efstu sætum listans. Í 17. sæti eru Bandaríkin, með einkunnina 8,18.

Við fyrstu sýn mætti ætla að Bandaríkin séu því ekki jafn framúrskarandi lýðræðisríki og Evrópusambandslöndin, nema hvað í ESB eru aðildarríkin samtals 27 talsins, svo 62% ESB-ríkja eru með lakara lýðræði en Bandaríkin. Economist flokkar lönd með lægri einkunn en 8 sem lönd með „gallað lýðræði“ (e. flawed democracies). Fyrir neðan þau mörk er að finna ESB-ríki á borð við, í lækkandi röð: Grikkland, Ítalíu, Frakkland, Slóveníu, Eistland, Slóvakíu, Kýpur, Litháen, Ungverjaland, Póland, Lettland, Búlgaríu og Rúmeníu.

Þá má nefna að Spánn, Bretland, Belgía og Portúgal, mælast öll með lægri lýðræðiseinkunn en Bandaríkin, og fá einkunnir frá 8,02 til 8,16.

Því miður vantar í rannsóknina að Evrópusambandinu sem heild sé gefin lýðræðiseinkunn, en allar líkur eru til þess að sú mæling yrði ekki glæsileg enda sáralítið samband milli almennra borgara og yfirvalda í Brussel. Ef fólki er mest annt um lýðræðið virðast Bandaríkin rétta bandalagið fyrir Ísland að ganga í.

Gaman er að nefna að áhrif Íslands á Bandaríkjaþingi yrðu svipuð og hjá Evrópuþinginu. Hjá ESB myndu Íslendingar fá 3 atkvæði af 350 í ráðherraráðinu eða 0,85%, en í öldungadeild Bandaríkjaþings myndum við fá tvö þingsæti, og af þá samtals 102 eða 0,98%. Í neðri deildinni vestanhafs, fulltrúadeildinni, yrðu áhrifin ekki alveg jafnmikil, enda ráðast þar þingsæti af íbúafjölda ríkisins. Ísland fengi 1 af 435 þingmönnum Bandaríkjamegin eða 0,23%, en 5 af 750 í Evrópuþinginu eða 0,67%.

Hvar er frelsið?

Hagrannsóknarfélagið The Heritage Foundation í Bandaríkjunum heldur utan um mælingu á efnahagslegu frelsi (e. economic freedom) í heiminum. Meðal breyta sem hafa áhrif á mælinguna má nefna: hversu auðvelt eða erfitt er að stofna fyrirtæki, hversu frjáls viðskipti eru og hve dýrir skattarnir eru á hverjum stað.

Fá ríki fá þar hæstu einkunn og ná að komast í flokk „frjálsra“ ríkja. Írland og Sviss komast í besta flokk, og eru þar í félagsskap með Kanada, Ástralíu og Hong Kong. Í hóp þeirra ríkja sem eru „að mestu frjáls“ falla bæði Bandaríkin og Ísland, og svo 12 ESB-ríki. Aftur á móti fellur stór hópur Evrópusambandsríkja í næsta flokk fyrir neðan, og eru „miðlungsfrjáls“, og bara einu þrepi ofar en lönd sem eru „að mestu ófrjáls“ á borð við Kína, Indland og Rússland. Í miðlungsfrjálsa hópnum er að finna lönd á borð við Portúgal, Spán, Frakkland, Ítalíu, Letland og svo öll löndin frá Póllandi og niður að Grikklandi. Um helmingur ESB-ríkja er því með ófrjálsara viðskiptaumhverfi en Bandaríkin.

Hvar er heiðarleikinn?

Samtökin Reporters Without Borders gefa löndum heims einkunn ár hvert fyrir fjölmiðlafrelsi. Þar lenda Bandaríkin í 20. sæti og teljast því í 2. flokki. Þar fyrir ofan eru 13 ESB-ríki. Til að gera langa sögu stutta er sagan aftur sú sama og í tilviki efnahagslegs frelsis: í ríflega helmingi ESB ríkja búa fjölmiðlar við takmarkað frelsi. Á sumum stöðum er ástandið hreint ekki glæsilegt: Í hópi 3. flokks landa eru Slóvakía, Spánn, Portúgal, Frakkland, Slóvenía, og Kýpur. Síðan er ástandið svo lélegt í Ítalíu, Rúmeníu, Búlgaríu, og Grikklandi að þau lönd falla í 4. flokk.

Hvar eru mannréttindin?

Finna má ýmsa mælikvarða til að meta réttindi fólks. Íslendingar hafa lengi viljað hreykja sér af að vera herlaus þjóð. Í Bandaríkjunum er her en þó ekki herskylda. Blessunarlega eru lönd Evrópu að mestu laus við herskylduna en þó ekki öll: EFTA-löndin Sviss og Noregur skylda borgarana til að gegna herþjónustu, a.m.k. á pappírunum, en það gera líka Danmörk, Noregur, Eistland, Austurríki, Grikkland og Kýpur. Fylgismönnum frelsis frá herþjónustu ætti því að hugnast betur að vera hluti af Bandaríkjunum.

Réttindi samkynhneigðra eru líka eitthvað sem Íslendingar láta sig varða, og fjölmenna m.a.s. í árlega skrúðgöngu tileinkaða því málefni. En þegar komið er austur fyrir Berlín er Evrópa ekkert ofboðslega „gay friendly“.

Því miður geta hommar og lesbíur aðeins fundið fimm lönd í ESB sem veita þeim sömu hjúskaparréttindi og gagnkynhneigðum. Til viðbótar eru 12 ESB-ríki sem veita réttindin með verulegum afslætti, þ.e. með staðfestri samvisti eða sambærilegu fyrirkomulagi. Gay pride-gangan yfir Evrópu myndi svo þurfa að staðnæmast þegar komið væri að landamærum Eistlands, Lettlands og Litháens, Póllands, Slóvakíu, Ungverjalands, Rúmeníu, Búlgaríu og Grikklands. Eyjaskeggjar á Kýpur og Möltu virðast heldur ekki vera með á nótunum, og hvað þá strangkaþólskir Ítalirnir. Ekki nóg með það heldur eru giftingar samkynhneigðra bannaðar skv. stjórnarskrám Lettlands (síðan 2006), Litháens (1992), Ungverjalands (frá og með 2012), Póllands og Búlgaríu (1991).

Regnbogafáninn á seint eftir að blakta yfir Evrópusambandinu.

Ef við kíkjum á kortið hafa 29 ríki BNA asnast til að banna hjúskap samkynhneigðra með ákvæðum í ríkisstjórnarskránni og 12 til viðbótar með lögum. Af 50 ríkjum eru 7 sem gefa samkynhneigðum sömu hjúskaparréttindi og gagnkynhneigðum, og 8 sem bjóða upp á aðra vígslu, þó að á sumum stöðum sé enn deilt um lögmæti vígslnanna.

Þó að víða í Bandaríkjunum sé illa farið með þá sem hugnast betur eigið kyn, þá er þar ögn meiri ástæða til bjartsýni en í austurríkjum ESB. Obama helgaði t.d. júnímánuð 2009 réttindum samkynhneigðra, og hefur látið málaflokkinn sig varða – þó að mörgum sýnist hann reyndar hafa gengið allt of skammt, en það er önnur saga.

Hvar eru lífsgæðin?

Fylgismenn ESB-aðildar sjá oft fyrir sér mikið sælulíf á meginlandinu. Raunin virðist þó ekki vera sú að í Evrópusambandinu vaði allir í peningum og verji dögunum á huggulegum kaffihúsum eða heimsfrægum söfnum.

Ef við skoðum landsframleiðslu á íbúa, m.t.t. kaupmáttarjöfnuðar, eru Bandaríkjamenn miklu betur staddir en meðal-Evrópubúinn. Í töflum Alþjóðabankans lenda Bandaríkin í 8. sæti af 180 með 47.084 Geary-Khamis dollara (þ.e. „alþjóðlega dollara“) á haus. Einu Evrópulöndin sem ná betri árangri eru Lúxembúrg (89.626 $, 2. sæti) og Noregur (56.921 $, 4. sæti). Evrópusambandið sem heild myndi vera í 27. sæti, með 31.675 $, eða á svipuðu reiki og Spánn og Ítalía.

Kannski hefur velgengni Bandaríkjanna eitthvað að gera með það að skattlagning er þar ekki alveg jafn taumlaus og í Evrópu. Bandaríkin taka í skatt um 26,9% af landsframleiðslu, sem er mikið minna hlutfall en sést í dæmigerðu ESB-landi. Í Evrópusambandinu er skattheimtan lægst hjá Rúmeníu, 28,1% en flest ESB-ríki eru að hafa af erfiði borgaranna skatta á bilinu frá 30 til 49%. Samkvæmt gögnum Eurostat er meðalskattlagning í ESB-löndunum 27 um 41,5% af landsframleiðslu.

Síðan má skoða lífsgæðavísitölu Economist Intelligence Unit, sem síðast var reiknuð árið 2005. Mælingin skoðar þætti á borð við lífslíkur, skilnaðartíðni, samfélagsþátttöku, veðurfar, atvinnuöryggi, og jafnrétti kynjanna. Bandaríkin hafna þar í 13. sæti af 111. Þar fyrir ofan eru ekki nema 7 ESB-lönd: Írland, Lúxemborg, Svíþjóð, Ítalía, Danmörk, Spánn og Finnland. 74% ESB-ríkja mælast sumsé með lakari lífsgæði en Bandaríkin.

Hverjum líkjumst við?

Loks er gaman að skoða með hverjum Íslendingar eiga meira sameiginlegt: íbúum Bandaríkjanna eða íbúum Evrópusambandsins.

Á Írlandi og Bretlandi búa samtals 66 milljónir af um 502 milljónum íbúa ESB. Hinn venjulegi Íslendingur myndi sennilega eiga í mestu vandræðum með að ræða, orðabókarlaust, við hinar 436 milljónirnar sem byggja Evrópu. Meðal Íslendingurinn fer hins vegar létt með að ræða við heimamenn í Bandaríkjunum á þeirra móðurmáli.

Við fáum mest af okkar afþreyingarefni frá Bandaríkjunum, og myndum sennilega fá það allt þaðan ef ekki væri fyrir breska sakamálaþætti og svo lögbundin lágmarksskipti á efni milli norrænu ríkissjónvarpsstöðvanna.

Við þekkjum Stephen Colbert, Jay Leno og Britney miklu betur en nokkra dægurmenningartýpu í Frakklandi, á Spáni, eða Danmörku. Við horfum á Leiðarljós en ekki EastEnders, hvað þá Un posto al sole. Fleiri Íslendingar geta nefnt forseta Bandaríkjanna en forseta Evrópuþingsins.

Viðhorf Bandaríkjamanna, lífsgildi þeirra og vinnuandi er líkari þeim sem Íslendingar hafa. Báðar þjóðirnar eru mótaðar af innræti mótmælendatrúarinnar, og um margt frábrugðnar annars ágætum viðhorfum frænda okkar í kaþólskum og slavneskjum ríkjum Evrópu.

Þó að vegalengdin sé meiri þegar dregin er bein lína á kortið er á svo ótalmarga vegu styttra á milli Íslands og Colorado en Íslands og Grikklands.

MYNDU DAGAR VÍNS OG RÓSA BÍÐA ÍSLENDINGA VIÐ INNLIMUN?

Eplabökur og pikköpp-bílar í löngum röðum

Lífsgæði, lágir skattar og frelsi eru eitt, en aðild að Bandaríkjunum myndi sennilega líka opna fyrir alls kyns minniháttar fríðindi. Þannig ættu landsmenn að geta fengið að sjá alla uppáhaldssjónvarpsþættina sína hindrunarlaust á vefsíðum eins og Hulu.com, sem í dag er bara opin Bandaríkjamarkaði. Við hefðum heldur ekki þurft að bíða í áraraðir eftir aðgangi að iTunes-búðinni. Við gætum verslað hindrunarlaust við Amazon.com, og með smálagni í samningum fengið fría heimsendingu, ólíkt Hawaiibúum.

Við myndum fá nokkra nýja frídaga til minningar um Martein Lúther King jr, George Washington, Kristófer Kolumbus, og fallna hermenn. Að ekki sé talað um sjálfstæðisdaginn 4. júlí og þakkargjörðar-ofátið í nóvember. Ólíkt flestum íslenskum frídögum eru þeir bandarísku yfirleitt bundnir við vikudag frekar en mánaðardag, svo lítil hætta er á að fríið lendi á helgi.

Háskóli Íslands myndi væntanlega þurfa að setja saman bæði ruðnings- og klappstýrulið og smala í lúðrasveit. Reykjavík þyrfti svo að stilla upp almennilegu körfuboltaliði til að keppa í NBA-deildinni.

Starbucks, Arby's, Wendy's, Macy's, Tiffany's og Krispy Kreme myndu vafalítið opna útibú í Reykjavík. Og svo gætum við allt í einu farið að fagna sigri í flestum keppnisgreinum á Ólympíuleikunum.

HVERJU BREYTIR AÐILD?

Yfirlýsing um hlutdrægni

Reynsla og viðhorf höfundar greinarinnar hér á undan hafa mótað hjá honum neikvæð viðhorf hvað varðar aðild Íslands að Evrópusambandinu. Endurspeglar umfjöllunin þær skoðanir og kann m.a. að hafa stýrt vali og túlkun á þeim dæmum sem notuð voru í samanburðarskyni. Er ekki um að ræða vísindalega úttekt heldur einkum samantekt á áhugaverðum atriðum sem ætlað er að vekja til umhugsunar. Höfundur hvetur lesendur til að kynna sér ólík sjónarmið og hugsa út fyrir rammann.

Loks minnir höfundur á að það myndi varla vera töfralausn á vandamálum Íslands hvort sem landið gengi inn í Bandaríkin eða Evrópusambandið, og mest ávinnist með því að taka til í stjórnun landsins heimafyrir.

Innganga í ESB þýðir ekki að meðalhitinn hækki í Reykjavik.