Björn Jóhann Björnsson
bjb@mbl.is
Hópur fólks og fyrirtækja, sem kallar sig Félag áhugamanna um réttmætt skuldauppgjör, hefur fengið Sigurð G. Guðjónsson lögmann til að undirbúa málsókn á hendur bönkunum fyrir endurútreikning á lánum. Telur félagið að útreikningarnir standist ekki lög og óréttmætt sé að endurreikna alla greidda gjalddaga á lánunum og setja á þá vexti. Stendur félagið fyrir auglýsingum í fjölmiðlum í dag, þar sem vakin er athygli á endurreikningi lána hjá bæði einstaklingum og lögaðilum.
Meðfylgjandi er dæmi frá félaginu um einstakling sem tók lán hjá Glitni, síðar Íslandsbanka, upp á rúmar níu milljónir króna í janúar árið 2006. Fyrir endurútreikning stóð lánið í 16,5 milljónum en félagið telur að réttar eftirstöðvar séu um 4,5 milljónir, miðað við að greiðslur af láninu hafi verið alls 4,6 milljónir kr. í febrúar sl. Að mati Íslandsbanka eru eftirstöðvarnar 11,5 milljónir eftir endurútreikning og þarna er tekist á um sjö milljónir króna.
„Þetta eru bæði einstaklingar og lögaðilar sem hafa að fullu alltaf staðið í skilum við sína lánardrottna, jafnvel þegar gengisfellingin var sem mest, og hafa aldrei farið á vanskilaskrá. Þetta er fólkið sem hefur verið að safnast saman núna á Austurvelli. Það er farið að sjóða á fólki. Því er ætlað að margborga af lánum sínum og greiða hærri skatta,“ segir Sigurður í samtali við Morgunblaðið.
Hann segir að félagið hafi unnið að undirbúningi málshöfðunar síðan um miðjan september. Menn vilji láta reyna á hvort það gangi upp að endurreikna alla gjalddaga, sem búið er að greiða, og setja á þá hærri vexti.
„Velta þarf upp þeirri spurningu hvort fyrirtæki og einstaklingar eigi ekki að njóta þess í neinu að bankarnir fengu lánasöfnin yfir með miklum afslætti. Það er alltaf verið að tala um einhverjar afskriftir en bankarnir eru ekki farnir að afskrifa neitt. Ég veit ekki við hvað er miðað þar, því þú ferð væntanlega ekki að afskrifa neitt fyrr en dregið er úr þeirri eign sem þú fékkst, og það er ekkert byrjað,“ segir Sigurður og telur að um mikið réttlætismál sé að ræða fyrir lántakendur.
Hann bendir jafnframt á að sífellt fleiri gögn og upplýsingar séu að koma fram, sem sýni markvisst hvernig reynt hafi verið að koma skuldabyrðinni yfir á millistéttina hér á landi. „Það á bara að kreista hana alveg út í eitt,“ segir Sigurður, sem ætlar í upphafi að láta reyna á örfá mál fyrir dómstólum áður en lengra verður haldið. Um prófmál geti verið að ræða fyrir fjölda lántakenda sem fengið hafa endurútreikning.
Spurður um viðbrögð hjá bönkunum til þessa segir Sigurður þau öll á einn veg, að endurútreikningar hafi verið gerðir í samræmi við lög sem sett voru í kjölfar dóma Hæstaréttar. Í þeim dómum hafi hins vegar ekkert verið talað um að hægt sé að endurreikna greidda gjalddaga.
- Hæstiréttur talaði ekki um að endurreikna greidda gjalddaga. Sigurður G. Guðjónsson