Úr Frank Ú. Michelsen segir marga líta á úrakaup sem fjárfestingu.
Úr Frank Ú. Michelsen segir marga líta á úrakaup sem fjárfestingu. — Morgunblaðið/Eggert
Rolex mun í dag ýta úr vör endurnýjaðri útgáfu af hinu víðfræga úri Explorer II. Þessi gerð úra er orðin þrjátíu ára gömul, en það var upphaflega hannað fyrir pólfara og hellakönnuði, sem ekki sjá mun á nóttu og degi. Frank Ú.

Rolex mun í dag ýta úr vör endurnýjaðri útgáfu af hinu víðfræga úri Explorer II. Þessi gerð úra er orðin þrjátíu ára gömul, en það var upphaflega hannað fyrir pólfara og hellakönnuði, sem ekki sjá mun á nóttu og degi.

Frank Ú. Michelsen úrsmiður segir að um töluverðan viðburð sé að ræða í heimi úrsmíði. „Lengi vel leit út fyrir að við fengjum ekki að vera með, en nú er komið í ljós að Ísland verður með frá byrjun,“ segir hann í samtali við Morgunblaðið.

Betra en innlán

Frank segir að góð sala sé á Rolex-úrum hér á landi. Fólk líti á kaupin sem fjárfestingu – betra sé að geyma peningana sína í varanlegum hlutum sem þessum en til að mynda á innlánsreikningum, sem jafnvel beri neikvæða raunvexti. „Ég spyr fólk gjarnan hvort það vilji að ég fjarlægi plasthúðina, sem fylgir úrunum og verndar þau fyrir hnjaski, og oft fæ ég þau svör að þess sé ekki þörf – gripurinn fari beint inn í peningaskáp,“ segir Frank.

Frank segir að breytingarnar á úrinu séu töluverðar. Nýjasta kynslóð Rolex-úrverka sé notuð í Explorer II, með nýrri höggvörn og spíralfjöðrun, sem tryggi áreiðanleika. Þetta úrverk sé einnig ónæmt fyrir segulmögnun. Þá séu vísarnir stækkaðir og svokölluð chromalight-tækni sé notuð í skífu og vísa. Hún lýsi í allt að átta tíma.