Mannfræðingur Daniel Miller segir samskiptavefi á borð við Facebook komna til að vera.
Mannfræðingur Daniel Miller segir samskiptavefi á borð við Facebook komna til að vera. — Morgunblaðið/Ómar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Mannfræðingurinn Daniel Miller telur samskiptavefi á borð við Facebook komna til að vera. Í framtíðinni muni eldra fólk og þeir sem eigi erfitt með að komast út vegna veikinda eða fötlunar nota vefinn í auknum mæli.

Mannfræðingurinn Daniel Miller telur samskiptavefi á borð við Facebook komna til að vera. Í framtíðinni muni eldra fólk og þeir sem eigi erfitt með að komast út vegna veikinda eða fötlunar nota vefinn í auknum mæli. Þá geti fólk nýtt sér Facebook til að bæta upp fjarlægðina sem líf í nútímasamfélagi hafi skapað og þannig komið aftur á hugmyndum um fjölskyldu og samfélag.

María Ólafsdóttir

maria@mbl.is

Daniel Miller, prófessor í mannfræði við University College í Lundúnum (UCL) hefur rannsakað flest það sem snýr að daglegu lífi okkar mannanna. Hann hefur skoðað efnismenningu og neyslu út frá ýmsum hliðum en nýjasta bók hans snýr að samskiptavefnum Facebook. Miller hélt nýverið fyrirlestur um nýjustu bók sína hér á landi á vegum Mannfræðifélags Íslands.

Notkunin mun breytast

Bókin Tales from Facebook, skýrir frá fyrstu mannfræðirannsókninni sem gerð hefur verið á afleiðingum Facebook-notkunar en rannsóknin var gerð á Trinidad. Þar rannsakaði Miller hvernig samskiptasíðan hefur breytt félagslegum samskiptum og gefa niðurstöðurnar til kynna að notkun tengslasíða muni breytast töluvert í framtíðinni og verði hugsanlega mun mikilvægari fyrir eldra fólk en yngra.

„Ég held að upphaf Facebook hafi ekki gefið rétta mynd af því um hvað þessi vefur snýst. Vefurinn verður til og er notaður í fyrstu af háskólanemum og er í umræðunni mikið tengdur við unga fólkið. Ég spái því hins vegar að Facebook eigi eftir að verða hvað vinsælust meðal fólks sem þarfnast þess hvað mest. Það er að segja að stærsti notendahópurinn verði fólk sem nú er um fimmtugt og yngra þegar það verður eldri borgarar. Það fólk mun vilja vita hversu góð nettengingin þeirra sé og hvernig þau tengist við fólk. Facebook mun auðvelda fólki sem kemst ekki ferða sinna auðveldlega eða er veikt að halda sambandi við annað fólk.

Einn af viðmælendum mínum í bókinni minn er til að mynda mjög mikil félagsvera en sökum fötlunar sinnar dvelur hann heima fyrir allan daginn og er þá á Facebook.

Sama er að segja um nýbakaðar mæður sem vilja geta fylgst með og verið áfram hluti af vinahópnum þó að þær komist ekki í partí. Það er líka saga í bókinni um mjög feiminn strák sem átti erfitt uppdráttar í samskiptum við hitt kynið en eftir að hann byrjaði að spila tölvuleikinn Farmville á Facebook fór hann að eiga auðveldra með samskiptin. Þetta er framtíð samskiptavefja eins og Facebook af augljósum ástæðum,“ segir Miller.

Færir fortíðina nær

Miller er því ekki á því að samskiptavefir líkt og Facebook muni líða undir lok. Sama hvort fyrirtækið í kringum Facebook muni halda velli eður ei. Hann yrði mjög undrandi ef slík samskiptanet væru ekki komin til að vera og slík þjónusta eigi eftir að vaxa og þróast með hverju árinu sem líður.

„Ég tel að Facebook hafi haft fremur róttæk áhrif en það er athyglisvert að flestir líta á síðuna sem einhvers konar dægurflugu. Ég held að Facebook-vefurinn sé vinsæll meðal annars vegna þess að hann færir okkur nær fortíðinni. Flestir njóta þeirra forréttinda að eiga sitt einkalíf og sjálfsforræði. En um leið saknar fólk tengsla af ýmsum toga og finnst það að einhverju leyti hafa misst nándina úr lífi sínu. Þetta sér maður vel í því að eitt það fyrsta sem fólk gerir á Facebook er að bæta gömlum skólafélögum og ættingjum á vinalistann. Þetta er leið fólks til að bæta upp fjarlægðina sem líf í nútímasamfélagi hefur skapað og koma aftur á hugmyndum um fjölskyldu og samfélag,“ segir Miller.

Útbreiðsla mannfræðinnar

Spurður um neikvæðar hliðar Facebook segir Miller að allt í okkar menningarlega umhverfi hafi jákvæðar og neikvæðar hliðar. Friðhelgi einkalífsins sé að vissu leyti rofin en helsta umræðan nú sé í kringum þá pólitík sem tengist Facebook.

„Fólk segir að Facebook sé dásamleg því þar geti allir tengst og notað vefinn til frelsunar. Til að mynda í löndum þar sem órói og ófriður ríkir. En á sama tíma hefur Facebook hins vegar auðveldað yfirvöldum landanna að smala saman þeim aðgerðarsinnum sem þykja til trafala og auðveldað að setja þá í fangelsi. Það er því allt of mikil einföldun að ákveða að Facebook sé annaðhvort góð eða slæm,“ segir Miller. Síðastliðin ár hefur Miller einbeitt sér að því að skrifa bækur um mannfræðitengt efni fyrir hinn almenna lesanda. Hann lýsir nýju bókinni sem bók með 12 smásögum en öllu akademískari endi. Fólki finnist gaman að lesa skáldsögur og eitthvað sem það geti tengt sig við. Slíkt form geti því passað vel til að kynna mannfræði fyrir fólki.

„Í raun færir Facebook okkur aftur til þess sem við mannfræðingar höfum talað um að fólk sé. Það er að segja að við skoðum aldrei einstaklinga heldur skiljum fólk í raun sem samskiptanet þar sem allir eru tengdir öðru fólki. Út frá þessu má segja að Facebook og aðrir slíkir vefir séu í raun fólkið sjálft,“ segir Miller.

Facebook er nú tekin að breiðast út um allan heim en í löndum eins og t.d. Kína, þar sem sem Facebook er bönnuð, nýtir fólk sér annars konar samskiptavefi.

RANNSÓKN

Facebook-ævintýri

Mannfræðingurinn Daniel Miller hefur stundað rannsóknir á Trinidad, Jamaica, Indlandi og London. Þær hafa einkum beinst að efnismenningu, neyslu og tengslum fólks við hluti á borð við gallabuxur, heimili, fjölmiðla og bíla.

Miller hefur gefið út fjölda greina og bóka, til að mynda The Comfort of Things (2008), The dialect of shopping (2001), Anthropology and the Individual (2009) og Stuff (2009). Nýjasta bók Miller, Tales from Facebook, sem kom út á þessu ári, fjallar um rannsóknir hans á samskiptavefnum Facebook. Bókin byggist upp á frásögnum 12 viðmælenda og eru í raun eins konar smásögur sem allar fjalla á einn eða annan hátt um Facebook.