Titilvörn Hlyns Bæringssonar og Jakobs Arnar Sigurðarsonar í sænska körfuboltanum hefst annað kvöld. Þeir félagar urðu eins og kunnugt er sænskir meistarar í vor með Sundsvall Dragons undir stjórn Peters Öqvist sem einnig þjálfar íslenska karlalandsliðið. Allir eru þeir áfram hjá félaginu og í sumar bættist leikstjórnandinn öflugi, Pavel Ermolinskij við leikmannahópinn hjá Sundsvall en hann var kjörinn besti leikmaður Íslandsmótsins síðasta vor. Titilvörnin hefst á heimavelli þegar Sundsvall tekur á móti ecoÖrebro.
Annar Íslendingur hefur bæst við deildina og það er Brynjar Þór Björnsson, fyrrum samherji Pavels hjá KR. Brynjar gekk í sumar til liðs við Jamtland Basket og fyrsti leikur Brynjars verður erfiður. Jamtland fer til Norrköping og mætir Norrköping Dolphins sem lék til úrslita gegn Sundsvall síðasta vor og varð sænskur meistari árið 2010. Njarðvíkingurinn Logi Gunnarsson er eftir sem áður í herbúðum Solna Vikings en hann var mjög atkvæðamikill á síðustu leiktíð. Solna byrjar á útivelli gegn Uppsala en þar verður enginn Helgi Már Magnússon því hann hafði á dögunum félagaskipti frá Uppsala yfir til 08 Stockholm. Helgi og hinir nýju samherjar hans munu heimsækja LF Basket í fyrstu umferðinni.
Eins og sjá má af þessari upptalningu verða nú sex íslenskir landsliðsmenn í efstu deild í Svíþjóð á komandi leiktíð og þar af þrír hjá meistaraliðinu Sundsvall Dragons. kris@mbl.is