Fimm ára baráttu fyrir tilvist aldargamals beykitrés í breska þorpinu Irton lauk í gær með því að mótmælendur gáfust upp og verktakar geta fellt tréð.

Fimm ára baráttu fyrir tilvist aldargamals beykitrés í breska þorpinu Irton lauk í gær með því að mótmælendur gáfust upp og verktakar geta fellt tréð. Bæjaryfirvöld hafa staðið í stappi við mótmælendur í mörg ár en nokkrir þeirra klifruðu upp í tréð í lok september og neituðu að fara. Sautján ára stúlka sem kallar sig „Beykihnetuna“ var síðust mótmælenda til að gefa sig en kom loks niður úr trénu í gær. Fella átti tréð þar sem rætur þess voru farnar að eyðileggja lagnir í næsta nágrenni þess. „Beykihnetan“ sagði er hún kom niður úr trénu að orðið væri ljóst að ekkert frekar væri hægt að gera til að berjast fyrir beykitrénu gamla. Hins vegar væri baráttunni ekki lokið, fleiri tré þyrftu vernd fyrir vélsögunum.

Dómstóll hafði þegar dæmt bæjaryfirvöldum í vil, þau mættu fella tréð.