Bjarney Erla Sigurðardóttir

(Baddý) fæddist í Reykjavík 30. september 1957. Hún andaðist á heimili sínu, Malarási 4, hinn 23. september 2011.

Útför Bjarneyjar Erlu fór fram frá Árbæjarkirkju í Reykjavík þriðjudaginn 4. október 2011.

Ég var samtíma Baddý á Sólheimum á árunum 1983-1991 þegar við báðar bjuggum þar, en hún bjó þar mun lengur en ég.

Baddý var fremur varkár í samskiptum en við náðum að tengjast og mynda traust okkar á milli.

Mér er minnisstæð mánaðarlöng ferð okkar til Spánar í hópi frá Sólheimum. Baddý naut sín í þessari ferð og var sú eina sem þorði í sjóinn! Hún hló og lék sér í öldunum. Einnig man ég sérstaklega eftir þegar hún kvað upp raust sína á fundi og bað um að ákveðnu atriði væri sinnt sem truflaði hana í daglegu lífi. Það var auðsótt mál.

Um árabil unnum við saman á vefstofunni þar sem hún var afar vandvirk, glettin og samviskusöm.

Undir hljóðu yfirbragði bjó huguð, tilfinningarík og stolt kona.

Ég hitti Baddý síðast í Reykjavík fyrir nokkrum árum. Það urðu fagnaðarfundir, hlýtt bros, vangi að vanga.

Ég varðveiti minninguna um Baddý í hjarta mínu frá dögum okkar á Sólheimum. Ég varðveiti einnig teikningar sem hún gerði hjá mér í skólanum, sjálfsmyndir sem segja meira en mörg orð.

Það er mér heiður að hafa átt vináttu Bjarneyjar Erlu Sigurðardóttur.

Góðu foreldrar, Guðrún og Sigurður, ég sendi ykkur alúðar kveðjur og samúð yfir missi dóttur ykkar.

Gunnhildur Sigurjónsdóttir.

Örfá kveðjuorð til vinkonu minnar Bjarneyjar Erlu Sigurðardóttur. Ég var svo lánsöm að kynnast henni og eiga með henni samleið um árabil. Baddý var fremur seintekin en þeim mun hugljúfari og áhugaverðari við nána kynningu. Hógværð, sjálfsvirðing og sterk réttlætiskennd voru þeir þættir sem helst voru einkennandi í fari hennar. Hún var reiðubúin að rétta hlut þeirra sem hún taldi hallað á og varði eigin mannhelgi af einurð ef svo bar við.

Hún var frábær félagi hjálpsöm, skemmtileg og bjó yfir sérstakri glettni. Það fór þó ekki á milli mála að hennar bestu félagar og ástvinir voru foreldrar hennar, sem hún mat öðrum fremur og naut best að vera samvistum við, hvort heldur var heima eða á ferðalögum. Þeir sem þekkja til vita einnig að Baddý var sólargeislinn í lífi þeirra og þeirra er missirinn sárastur. Ég sendi þeim ásamt öllum vinum Baddýjar í Stuðlaseli 2 mínar dýpstu samúðarkveðjur.

Helga Birna Gunnarsdóttir.

Nú legg ég augun aftur,

ó, Guð, þinn náðarkraftur

mín veri vörn í nótt.

Æ, virst mig að þér taka,

mér yfir láttu vaka

þinn engil, svo ég sofi rótt.

(Sveinbjörn Egilsson.)

Baddý bjó frá fæðingu í fjölskylduhúsi á Marargötu 1. Þar bjuggu foreldrar hennar Guðrún og Sigurður frændi minn á miðhæðinni, afi og amma, Bjarney og Sigurjón, uppi og Sigdís afasystir í kjallaranum. Við vorum á svipuðum aldri og þangað kom ég reglulega að heimsækja Sigdísi eða Siggu frænku eins og hún var kölluð og var ömmusystir mín. Í þessum heimsóknum hittumst við Baddý frænka mín og lékum okkur saman. Við höfðum gaman af að hlaupa eftir renningnum á ganginum uppi hjá Bjarneyju og Sigurjóni eða spila svartapétur við Siggu eða dunda eitthvað niðri hjá henni. Skemmtilegast var þó þegar Baddý spilaði á orgelið hennar ömmu sinnar og við sungum með Siggu frænku sem hafði gaman af því hvað við kunnum af textum og stolt yfir því hvað Baddý var flink að spila. Hún var svo músíkölsk og spilaði allt eftir eyranu.

Á öllum hæðum var okkur gert eitthvað til góða og ég minnist sérstaklega þegar við fengum fyllta brjóstsykurinn hjá Bjarneyju og eitthvað var okkur gert til góða á öllum hæðum. Baddý var umvafin ást og umhyggju lítil stelpa á Marargötunni og var augasteinn allra. Við hittumst minna eftir að hún fór að Sólheimum í Grímsnesi en þó oft í fríum. Ég hafði ekki hitt hana í fjöldamörg ár þegar ég kom að Sólheimum og við báðar orðnar fullorðnar. Hún þekkti mig strax og eftir þetta hittumst við stöku sinnum. Seinna var ég svo heppin að geta endurnýjað kynnin við Baddý þegar ég fór að hitta hana ásamt mömmu hennar og Halldóri fósturpabba á Borgarbókasafninu í Árbæ þar sem ég starfa. Þangað kom hún síðast núna þremur vikum áður en hún dó. Þá færði hún mér tvær myndir af sér aðra þar sem hún er í upphlutnum hennar Bjarneyjar ömmu sinnar á Marargötunni þar sem burkninn stóri er í baksýn í fallegu stofunni.

Baddý hefur verið svo heppin að fá tækifæri til að ferðast um allan heim með mömmu sinni og fósturföður og hafði yndi af því að punta sig og taka þátt í samkvæmislífinu á ferðalögum. Hún naut þess líka að synda bæði í sundlaugum og sjó og lét smá kælingu ekki aftra sér. Þau fóru líka iðulega með henni í bústaðinn í Grímsnesinu, hjólhýsaferðir og fyrir nokkrum árum hitti ég þau öll í Esjugöngu. Samband þeirra var einstakalega hlýtt og gamansamt og hún naut þess að vera í löngum fríum á fallega heimilinu í Malarásnum. Eftir að Baddý veiktist hafa þau hugsað um hana dag og nótt og sinnt því verkefni af einstakri alúð. Ekki er hægt að hugsa sér betri aðhlynningu og umhyggju en hún hefur fengið að njóta hjá þeim. Söknuður þeirra og missir er mikill.

Um leið og ég vil þakka fyrir að hafa fengið að kynnast Baddý frænku votta ég fjölskyldu hennar og ástvinum innilega samúð. Guð geymi hana Baddý frænku mína.

Jónína Óskarsdóttir

Elsku Baddý, ég fékk þann heiður að verða stjúpsystir þín þegar pabbi þinn og mamma mín giftu sig. Þegar við hittumst síðast varstu svo hress og svo indæl eins og alltaf. Það sem mér finnst standa upp úr síðustu árin sem við gerðum saman var stúdentsveislan mín í fyrra, þar sem við skemmtum okkur konunglega og ég á svo skemmtilegar myndir frá því sem ég mun passa vel upp á. Það voru ófá skiptin þar sem við vorum með mömmu inni á baði að gera okkur sætar, auðvitað var litun og plokkun föst rútína hjá okkur.

Takk fyrir samfylgdina á liðnum árum.

Soffía Sóley Þráinsdóttir.

Elsku Baddý okkar, mikið eigum við eftir að sakna samverustundanna með þér. Það var oft kátt á hjalla hjá okkur þegar við vorum að stússast í eldhúsinu eða þegar við fórum í búðaráp og keyptum okkur eitthvað til að punta okkur, þú varst svolítil punturófa.

Oft fórum við í Kolaportið að skoða öll djásnin þar, það fannst þér skemmtilegt og fengum við okkur oftast eitthvað gott í gogginn. Við minnumst líka hvað þú spilaðir fallega á hljómborðið jólasálma, en þú hafðir lært á orgel hjá ömmu, nöfnu þinni. Oft greipstu í prjónana hjá mér og prjónaðir stanslaust án þess að þurfa að horfa, líklega hefur þú fengið þessa æfingu á Sólheimum. Þú varst alltaf glöð, kát og góð, ekki síst þegar þú hittir smáfólkið, það fannst þér sérstaklega skemmtilegt.

Við viljum þakka þér fyrir allar góðu samverustundirnar.

Pabbi og Alda.

Kær vinkona okkar hún Bjarney Erla Sigurðardóttir, eða Baddý eins og hún var ávallt kölluð kvaddi hinn 23. september síðastliðinn. Hún Baddý var alveg sérstaklega ljúf og yndisleg kona. Hún var sannur vinur vina sinna og varði þá af mikilli einurð ef henni fannst þurfa. Baddý spilaði listavel á orgel og var með einstaklega næmt tóneyra. Ef hún kunni ekki eitthvert lag var nóg að humma það fyrir hana og þá gat hún spilað það. Við áttum margar góðar stundir við orgelið í Stuðlaselinu þar sem Baddý spilaði og við hin sungum. Baddý var mikill húmoristi og ekki þurfti mikið til að hún sæi spaugilegu hliðarnar á hlutunum, það er gott að muna hláturinn hennar Baddýjar því hann hlýjaði manni svo mikið.

Baddý átti alveg sérstakt samband við foreldra sína sem einkenndist af mikilli ástúð og náinni vináttu. Hún kaus að verja flestum sínum frístundum með þeim og ferðuðust þau saman um allt landið og út um allan heim.

Í dánarheim vitja ég þín dapur í kvöld,

í draumi þig litið ég hef.

Við gröfina sit ég, þó golan sé köld,

og grátandi flyt ég þér stef.

Og þegar að veturinn víkur á braut

og vorfuglar kveða sín ljóð,

og blómin sig vefja um brekkur og laut,

ég bý um þig, elskan mín góð.

(K.N.)

Elsku besta Baddý okkar. Við kveðjum þig með miklum trega og söknuði í hjarta.

Fyrir hönd allra í Stuðlaseli 2,

Oddrún.