Joseph Cristopher Allard fæddist 21. apríl árið 1948 í Connecticut í Bandaríkjunum. Foreldrar hans voru Elleanor Ruth, f. 1918, d.1976, og Claude Henry Allard, f. 1921, d. 2011. Hann var næstelstur sex systkina sem öll lifa bróður sinn utan eitt. Fyrri kona Josephs var Alison Mary Bower, f. 1950, d. 1987, þau slitu samvistir. Sonur þeirra, f. 22. ágúst 1976, er Christopher James Allard, tónlistarmaður. Árið 1999 kvæntist Joe sambýliskonu sinni til fjögurra ára, Sanae Kasahara, f. 3. apríl 1969, fjármálaráðgjafa.

Joseph C. Allard stundaði nám í bókmenntum, listasögu og tónlist og lauk doktorsprófi frá háskólanum í Essex, þar sem hann gegndi lektorsstöðu frá 1977 þar til í ágúst á þessu ári að hann fór á eftirlaun. Hann fór sem gestakennari til Bandaríkjanna, Sviss, Þýskalands, Íslands og Japans. Hann kenndi bókmenntir við Maryland-háskólann í herstöðinni í Keflavík um skeið. Hann var mikill áhugamaður um íslenskar bókmenntir og menningu og kenndi auk enskra bókmennta íslenskar bókmenntir að fornu og nýju við háskólann í Essex.

Joseph C. Allard vann ötullega að kynningu og útgáfu íslenskra bókmennta á Englandi. Hann þýddi ljóð eftir Matthías Johannessen í Voices from across the Water (1997), og New Journeys (2004). Hann gaf út ljóð eftir ung íslensk skáld, þ.ám. Sjón og Lindu Vilhjálmsdóttur, og bauð íslenskum skáldum og rithöfundum að koma og lesa upp úr verkum sínum á Listahátíð Essex, sem hann var einn upphafsmanna að. Hann starfaði náið með Pamelu Clunies-Ross hjá bókaútgáfunni Mare's Nest að útgáfu bóka eftir íslenska höfunda á borð við Einar Má Guðmundsson, Thor Vilhjálmsson, Ólaf Gunnarsson, Guðberg Bergsson, Þórarinn Eldjárn og Fríðu Á. Sigurðardóttur. Eftir hann liggja greinar um myndlist, tónlist, kvikmyndir og bókmenntir. Hann ritstýrði ásamt öðrum ýmsum sýnisbókum og kennslubókum um bókmenntir, s.s. Beowolf & Other Stories. A New Introduction to Old English, Old Icelandic and Anglo-Norman Literatures og Longman Anthology of Old English, Old Icelandic and Anglo-Norman Literatures. Þegar hann lést hafði hann lagt lokahönd á Icelandic Poetry (c. 870-2007) in the translations of Bernard Scudder, sem koma mun út innan skamms.

Útför Josephs C. Allards fer fram frá Wivenhoe í dag, 6. október 2011, og hefst athöfnin kl. 11.45.

Við heyrðum Joe Allard fyrst nefndan árið 1994. Þá kenndi hann bókmenntir við Maryland-háskólann á Keflavíkurstöðinni. Úrval ljóða eftir ung íslensk skáld hafði nýlega komið út á Englandi, og Bernard hafði þýtt hluta af ljóðunum, m.a. eftir Einar Má og Braga Ólafsson. Joe bauð þessum tveimur skáldum að koma í skólann og lesa upp úr verkum sínum og Bernard fór með sem þýðandi þeirra og bílstjóri. Einar Már minnist á þessa skrautlegu ferð suður á Keflavíkurflugvöll í bók sinni Rimlar hugans og þegar Joe frétti að hann væri orðinn persóna í skáldsögu eftir Einar Má brosti hann í kampinn.

Viku síðar bauð Joe Bernard að koma og tala um þýðingar í kennslustund hjá sér og upp frá því urðu þeir vinir, enda áttu þeir margt sameiginlegt. Báðir höfðu þeir ást á ljóðlist og bókmenntum, ekki síst því sem var íslenskt eða fornt, og áttu oft líflegar samræður um þessi hugðarefni sín. Joe var vel lesinn og menntaður maður, ekki aðeins í bókmenntum, heldur einnig myndlist og tónlist. Hann orti sjálfur og skrifaði sögur en hafði meiri áhuga á að kynna verk annarra en sjálfs sín. Sem ungur maður þurfti hann að velja á milli þess að helga líf sitt bókmenntum eða tónlist, hann valdi bókmenntirnar en sleppti tónlistinni þó aldrei. Þegar hann kom í heimsókn til okkar fengum við ekki aðeins að heyra ógrynni af sögum, því Joe var mikill sagnamaður, heldur lék hann einnig fyrir okkur píanóverk eftir Brahms, Beethoven og Mozart.

Joe var ástríðufullur kennari og fræðimaður. Hann lagði sig fram um að vekja áhuga nemenda sinna og kynna þá fyrir heimi bókmenntanna. Hann gaf út bækur og skrifaði greinar til að aðrir fengju notið sömu gleði og hann fann sjálfur í menningu og listum. Hann uppskar ríkulega í syninum Chris sem hefur haslað sér völl á tónlistarsviðinu og Joe var ákaflega stoltur af.

Þegar Bernard lést skyndilega haustið 2007 komu mannkostir Joes enn betur í ljós. Hann var hvorki stórvaxinn né sterkbyggður en þó var eins og hann slægi um okkur skjaldborg. Að hans undirlagi hófum við að taka saman ljóðaþýðingar Bernards og Joe kom hingað oft á næstu árum meðan við unnum að handritinu. Hann taldi þessi ferðalög ekki eftir sér, öðru nær, ekkert var eins sjálfsagt og að leggja vinnu og tíma í að koma verkum vinar síns út á bók. Hann skrifaði inngang og sögulegt yfirlit yfir íslenska ljóðagerð til að fylgja bókinni úr hlaði og hann lét ekki þar við sitja, ljóð Bernards skyldu líka gefin út, og áfram var starfað. Hann lagði áherslu á að öllu skyldi lokið fyrir haustið. Það tókst og skömmu síðar var hann allur.

Joe átti bókað far til Japans daginn eftir að hann lést. Þar ætlaði hann að kenna bókmenntir næstu sex mánuði. Hann ætlaði að styðjast við þær þrjár bækur sem hann hafði ritstýrt þetta síðasta ár, ein þeirra var ljóðaþýðingar Bernards. Hann hlakkaði til að nota hana í kennslunni. Það verður ekki að sinni, en við þökkum þessum góða manni fyrir allt. Blessuð sé minning hans.

Sigrún Ástríður

Eiríksdóttir, Hrafnhildur Ýr og Eyrún Hanna

Bernardsdætur Scudder.