Hrefna Pribish fæddist í Reykjavík 25. júlí 1946. Hún lést á Landspítalanum 1. október 2011. Hrefna var dóttir Hönnu Kristjánsdóttur saumakonu, f. 23. apríl 1922, látin 5. október 1979, og Nicolas L. Pribish, f. 1922, og látinn 1998. Systkini Hrefnu eru: 1. Sigríður, Dinah, f. 29. desember 1943, maki Magnús Jónasson. 2. Alfreð, f. 29. nóvember 1950, maki Steinunn Sigurðardóttir. 3. Viðar, f. 3. maí 1953, maki Sigríður Gestsdóttir. 4. Reynir Ágúst, f. 25. ágúst 1963. Hálfsystur samfeðra eru Nicolette og Victoria búsettar í Bandaríkjunum.
Hinn 25. júlí 1964 giftist Hrefna eftirlifandi eiginmanni sínum Valdimari A. Valdimarssyni húsasmíðameistara, f. 15. mars 1943, syni Valdimars A. Valdimarssonar, f. 15. febrúar 1906, d. 28. júlí 1979, og Önnu Þórarinsdóttur, f. 8. júlí 1905, d. 16. janúar 1995. Hrefna og Valdimar eignuðust þrjár dætur: 1. Anna Hanna, f. 20. nóvember 1964, gift Sigurði Garðari Steinþórssyni, f. 5. mars 1960, þau eiga 3 syni Anton Þór, Bergþór og Gabríel Þór. 2. Linda, f. 9. febrúar 1967, gift Braga Björnssyni, f. 9. desember 1963, þau eiga 3 börn Hrefnu Sif, Ragnar Örn og Berglindi Rut. 3. Hrefna, f. 30. nóvember 1974, gift Gísla Páli Reynissyni, f. 23. apríl 1973, þau eiga 3 syni Eldar Mána, Óliver Dúa og Ísar Tuma.
Nánast öll búskaparár sín sinnti hún móður-, húsmóður- og síðar ömmuhlutverkinu, en þau störf voru henni kærust. Þau hjón höfðu búið sér glæsilegt heimili í Seljahverfi þar sem hún undi sér vel í að gera garðinn og heimilið fallegt. Húsmóðir var hún af alúð og liggja eftir hana mörg falleg handverk hvort sem í saum eða prjóni.
Útför Hrefnu fer fram frá Seljakirkju 6. október 2011, og hefst athöfnin kl. 13.
Hún Hrefna systir er látin. Aðdragandinn var stuttur en veikindin var Hrefna ekki að bera á torg eða kveinka sér yfir þeim.
Allt frá æsku hefur Hrefna verið minn styrkur, alltaf til staðar, svo sterk og ákveðin.
Það er margs að minnast, allra góðu stundanna við heimsóknir. Þá var oftar en ekki rætt um ferðalög til útlanda og þá helst til Bandaríkjanna. Þar undi Hrefna sér vel við að heimsækja ættingja og vini, versla og þá helst fyrir börn og barnabörn.
Minningabrot koma fram. Það var eitt sinn fyrir nærri 50 árum að ég varð þess var að þær mæðgur, mamma og Hrefna, voru eitthvað að pukrast inni í eldhúsi. Ungur maður beið utandyra, sem síðar átti eftir að verða lífsförunautur Hrefnu. Valli og Hrefna hafa verið sem eitt síðan, eiga yndisleg börn og barnabörn.
Fjölskyldan var Hrefnu allt. Guð gefi ykkur styrk í sorginni.
Guð geymi þig, elsku systir.
Viðar.