Eitt af því góða við haustið er að þá koma gamlir vinir oft aftur á skjáinn eftir sumarfrí. Tveir „vinir“, House og Spooks eru núna aftur komnir á dagskrá Skjás eins og Sjónvarpsins (í þessari röð) og fagna ég því mjög. Spooks eða Njósnadeildin hefur aðeins breyst í gegnum tíðina enda er þetta níunda þáttaröðin sem Sjónvarpið sýnir á þriðjudagskvöldum. Þættirnir eru núna með meiri ævintýrablæ yfir sér (ekki eins raunverulegir og áður) en spennan er hinsvegar alveg jafn mikil. Þar sem hin ofursvala Ros lést í lok síðustu þáttaraðar er nýtt fólk kynnt til sögunnar byrjun þessarar en Dimitri og Beth lofa bæði góðu.
Í House eru líka mannabreytingar en konurnar í læknateyminu eru farnar og verið er að leita að nýrri konu í liðið, sem vonandi verður einhver skemmtileg persóna og leikkona. Stjarna þáttanna er auðvitað læknirinn sérvitri Gregory House, sem Hugh Laurie leikur svo listilega vel.
Núna er orðið dimmt á kvöldin svo það er um að gera að hafa það huggulegt fyrir framan sjónvarpið yfir vel völdum þáttum eins og þessum. Núna er mál að setjast niður, kveikja á kertum og hafa það notalegt. Gleðilegt haust.
Inga Rún Sigurðardóttir