Afskipti Það er ekki eðlilegt ástand eða æskilegt að ríkið hafi stóran hluta þjóðarinnar á sínu framfæri, og skapar ákveðna lýðræðislega skekkju.
Afskipti Það er ekki eðlilegt ástand eða æskilegt að ríkið hafi stóran hluta þjóðarinnar á sínu framfæri, og skapar ákveðna lýðræðislega skekkju. — Morgunblaðið/Kristinn
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í ritinu Bureaucracy skrifar Ludwig von Mises m.a. um þann lýðræðislega vanda sem fylgir því að embættismaðurinn er ekki bara opinber starfsmaður, heldur líka kjósandi. Hann er í þeirri undarlegu aðstöðu að vera bæði starfsmaður og vinnuveitandi.

Í ritinu Bureaucracy skrifar Ludwig von Mises m.a. um þann lýðræðislega vanda sem fylgir því að embættismaðurinn er ekki bara opinber starfsmaður, heldur líka kjósandi. Hann er í þeirri undarlegu aðstöðu að vera bæði starfsmaður og vinnuveitandi. Hagsmunir embættismannsins sem launþega eru hins vegar mun meiri en hagsmunir hans sem almenns borgara og skattgreiðanda, því embættismaðurinn fær eðli málsins samkvæmt mun meira úr opinberum sjóðum en hann leggur í þá.

Mises bendir á að vandinn við þetta tvöfalda samband embættismannsins við ríkið verði enn greinilegri eftir því sem fjölgar í röðum þeirra sem fá laun sín frá ríkinu. Enda vill embættismaðurinn, eða bóta- og bitlingaþeginn ef því er að skipta, frekar fá launahækkun og þægilegar vinnuaðstæður en sparsaman ríkissjóð, straumlínulagaðan ríkisrekstur og lága skatta.

Þannig stendur samfélagið frammi fyrir sívaxandi vandamáli: Það er nánast óhjákvæmilegt að ríkið stækki og skattarnir hækki.

Þar sem allir lifa af ríkinu

Ef við skoðum stöðuna á Íslandi er spurning hvort við erum ekki komin fram af bjargbrúninni og orðið of seint að spyrna við vexti báknsins.

Um 22% af vinnuafli í landinu, um 37.400 manns, er á launum hjá ríki og sveitarfélögum. Við þá tölu má bæta að í lok ágúst voru nærri 12.000 manns atvinnulausir, og væntanlega flestir á bótum. Lánþegar hjá LÍN eru yfir 12.000 og svo þarf að bæta við öllum þeim sem fá alls kyns bætur, lífeyri, styrki og listamannalaun frá ríki og sveitarfélögum eða vinna sem verktakar að hinum ýmsu framkvæmdum og verkefnum hins opinbera. Gleymum heldur ekki stéttum eins og bændum, sem eru háðir háum greiðslum frá ríkinu, eða útgerðunum, sem eru háðar pólitískum úthlutunum á kvóta til að halda rekstrinum á floti.

Ætli sé ekki óhætt að fullyrða að yfir helmingur heimila á landinu sé að stórum hluta háður hinu opinbera um framfærslu sína. Hinn helmingurinn fær svo minni sporslur, s.s. barnabætur, vaxtabætur eða aðgang að ríkisreknum skólum. Er sennilega ekki hægt að finna þá manneskju í landinu öllu sem ekki er með puttana í pottinum. Munurinn á fólki er helst sá að sumir eru með litlaputta í pottinum og aðrir með handlegginn vel upp fyrir öxl.

Þegar allir tapa

Í félagsvísindum er talað um svokallaða fangaklemmu: Tveir samverkamenn eru handteknir fyrir glæp og hvor um sig hefur þann valkost að játa eða neita. Ef báðir neita sleppa báðir undan refsingu því sönnunargögnin skortir, en ef annar neitar og hinn játar og klagar samverkamann sinn fær sá sem neitar þyngri refsingu en sá sem játar. Glæponarnir hafa sameiginlega mestan ávinning af að neita, en taka hvor fyrir sig minnsta áhættu með því að játa.

Ísland er statt í svona fangaklemmu. Fólk er logandi hrætt um að ef byrjað er að minnka ríkið þá þorni fyrst upp þeir straumar úr pottinum sem liggja til þess sjálfs. Fólkið kýs hærri bætur, meiri afskipti, reddingar og styrki, í þeirri von að geta með heppni, frekju eða réttum tengslum fengið meira í sinn hlut þegar ríkið útdeilir gjöfunum.

Það sem fólk gleymir, á erfitt með að sjá eða hundsar af ásetningi og af heilbrigðri sjálfsbjargarviðleitni er að ef við skærum starfsemi ríkisins við nögl og gæfum fólkinu í landinu fullt frelsi værum við öll miklu betur stödd. Með ríkisafskiptunum töpum við öll.