Alls var 453 kaupsamningum um fasteignir þinglýst við sýslumannsembættin á höfuðborgarsvæðinu í september. Heildarvelta nam 12,2 milljörðum króna og meðalupphæð á hvern kaupsamning var 26,9 milljónir króna.

Alls var 453 kaupsamningum um fasteignir þinglýst við sýslumannsembættin á höfuðborgarsvæðinu í september. Heildarvelta nam 12,2 milljörðum króna og meðalupphæð á hvern kaupsamning var 26,9 milljónir króna. Viðskipti með eignir í fjölbýli námu 8 milljörðum, viðskipti með eignir í sérbýli 3,5 milljörðum og viðskipti með aðrar eignir 0,6 milljörðum króna.

Þegar september 2011 er borinn saman við ágúst 2011 fjölgar kaupsamningum um 5,8% og velta minnkar um 2,6%. Þegar september 2011 er borinn saman við september 2010 fjölgar samningum um 30,5% og velta eykst um 24,1%.

Makaskiptasamningar voru 15 í september 2011 eða 3,5% af öllum samningum. Í ágúst 2011 voru makaskiptasamningar 29 eða 7,1% af öllum samningum.

Fjöldi þinglýstra kaupsamninga um fasteignir á Akureyri í september 2011 var 45. Heildarveltan var 953 milljónir króna og meðalupphæð á samning 21,2 milljónir króna.