Icesave-kerti Í bréfinu er rakin staðan við slitameðferð Landsbankans og rökstutt að innstæðueigendur hafi ekki borið skarðan hlut frá borði.
Icesave-kerti Í bréfinu er rakin staðan við slitameðferð Landsbankans og rökstutt að innstæðueigendur hafi ekki borið skarðan hlut frá borði.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Andri Karl andri@mbl.is Gjaldþrot þriggja stærstu banka Íslands er á meðal tíu stærstu gjaldþrota viðskiptasögunnar. Enginn sparifjáreigandi er líklegur til að tapa fjármunum á þessum gjaldþrotum.

Baksvið

Andri Karl

andri@mbl.is

Gjaldþrot þriggja stærstu banka Íslands er á meðal tíu stærstu gjaldþrota viðskiptasögunnar. Enginn sparifjáreigandi er líklegur til að tapa fjármunum á þessum gjaldþrotum.“ Þetta segir í svari íslenskra stjórnvalda til Eftirlitsstofnunar EFTA, ESA, vegna Icesave-málsins sem skilað var inn um mánaðamótin síðustu en birt opinberlega í gær. Í svarinu er ESA eindregið hvatt til að „loka málinu“, þ.e. að aðhafast ekki frekar og láta máið niður falla, enda muni greiðslur að fullu berast úr þrotabúi Landsbankans.

Svarið er ítarlegt, um tuttugu blaðsíður að lengd. Í því er vísað til fyrri sjónarmiða stjórnvalda og því mótmælt að rökstutt álit ESA sem birt var Íslendingum í júní sl. hnekki þeim. Þá greindi ESA frá því að eftir að hafa farið ítarlega yfir svarbréf frá íslenskum stjórnvöldum – sem skilað var inn í maí sl. – geti stofnunin ekki annað en haldið sig við fyrri afstöðu sína. Sú afstaða er að Íslendingum beri að greiða 650 milljarða króna innistæðutryggingar vegna Icesave, að öðrum kosti verði málinu vísað til EFTA-dómstólsins.

Þýðingarmiklar upplýsingar frá Evrópusambandinu

Meðal annars er í svarbréfi Íslendinga nú gerð grein fyrir upplýsingum sem komið hafa fram í undirbúningi Evrópusambandsins að nýrri innistæðutilskipun. Efnahags- og viðskiptaráðuneytið metur þessar upplýsingar „þýðingarmiklar“ og greindi Árni Páll Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra, frá því á Alþingi í gær í svari til Péturs H. Blöndal, þingmanns Sjálfstæðisflokks, um fyrirkomulag innistæðutryggingasjóðs. „[Í svarinu] rekjum við þær skýringar sem framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur sett fram á nýjum hugmyndum að breytingum á innistæðutryggingakerfinu, þar sem skýrt er tekið fram að ríki eiga ekki að bera ábyrgð á innistæðutryggingakerfinu. Þetta er einn af þeim þáttum sem við færum fram í okkar málsvörn til að það sé engum vafa undirorpið, að það sé ekki lagaleg skylda Íslands að greiða.“

Erfitt er um að spá því til hvaða ráða ESA tekur eftir að hafa fengið svörin í hendur né hversu langur tími líður þar til viðbrögð berast. Eftir fund um svörin í utanríkismálanefnd Alþingis nýverið sagði Árni Þór Sigurðsson, formaður nefndarinnar, að ESA gæti „ákveðið að kaupa rök íslenskra stjórnvalda og fellt málið niður, stofnunin getur líka komist að þeirri niðurstöðu að þetta breyti engu um afstöðu hennar og eins gæti verið að óskað verði eftir frekari svörum frá Íslandi“. Fari svo að þetta breyti ekki afstöðu hennar verður málinu vísað til EFTA-dómstólsins.

Vísað í ummæli forseta ESA

Einnig virðist sem Árni Páll hafi lesið grein Sigurðar Kára Kristjánssonar, varaþingmanns Sjálfstæðisflokks, sem birtist í Morgunblaðinu eftir að fyrra svarbréfi var skilað inn. Í því bendir Sigurður Kári á að forseti ESA hafi lýst eindreginni afstöðu sinni til málsins í íslenskum fjölmiðlum í júní 2010, gegn hagsmunum og málstað Íslendinga.

Í svarbréfinu sem skilað var inn fyrir helgi er vísað í þau ummæli Per Sanderud, forseta ESA, að hefði Ísland gengið að kröfum Breta og Hollendinga hefði málið verið látið niður falla. Þetta bendi til að aðgerðir ríkjanna tveggja séu þáttur í mati ESA á niðurstöðu í málinu.

Icesave
» Icesave-málið ætlar seint að hverfa frá íslensku þjóðinni. Innlánsnetreikningarnir sem fyrst var boðið upp á í Bretlandi og síðar Hollandi.
» Icesave vakti strax athygli fjölmiðla í Bretlandi, þá vegna hárra vaxta, en þeir voru 5,2% og bestu vaxtakjör á óbundnum innlánsreikningum í Bretlandi.
» Þegar Landsbankinn fór af stað með Icesave í Hollandi, um mitt ár 2008, voru reikningshafar í Bretlandi orðnir 220 þúsund talsins.
» Innistæðueigendur í Bretlandi og Hollandi sem nutu tryggingaverndar fengu kröfur sínar greiddar úr þarlendum sjóðum eftir fall Landsbankans.
» Eftirlitsstofnun EFTA segir að Íslandi beri að tryggja að innistæðueigendur fái greiddar að lágmarki 20.887 evrur í samræmi við tilskipun um innistæðutryggingar.