Guðmundur Böðvarsson og Kristrún Sigurfinnsdóttir eru bæði Laugdælingar og byggðu sér fyrir fáum árum skemmtilegt hús við Háholt að Laugarvatni þar sem þau búa nú og una sér vel.
Guðmundur Böðvarsson og Kristrún Sigurfinnsdóttir eru bæði Laugdælingar og byggðu sér fyrir fáum árum skemmtilegt hús við Háholt að Laugarvatni þar sem þau búa nú og una sér vel. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Háholt er austasta gatan hér á Laugarvatni. Flest húsin hér voru reist árið 2003 en á þeim tíma var talsverð uppsveifla hér og talsvert byggt.

Háholt er austasta gatan hér á Laugarvatni. Flest húsin hér voru reist árið 2003 en á þeim tíma var talsverð uppsveifla hér og talsvert byggt. Hér við götuna eru einbýlishús, raðhús og parhús og íbúarnir hér sinna þessum dæmigerðu störfum sem Laugvetningar sinna. Hér eru til dæmis nokkrir kennarar og annað starfsfólk við skólana, einhverjir sinna smíðum og vinna á skrifstofu. Þá er hér í næsta húsi við okkur gallerí með gistiþjónustu og kaffihúsi þannig að þetta er býsna mikil flóra hér,“ segir Guðmundur Böðvarsson sem býr við Háholt á Laugarvatni.

Undir hárri hlíð

Tæpast verður sagt að Laugarvatn láti mikið yfir sér; þar sem þorpið stendur við vatnsbakkann undir hárri skógi vaxinni hlíð. Þéttbýli tók að myndast á þessum stað þegar héraðsskóli var settur á laggirnar og raunar hefur skólahaldið alla tíð verið burðarás byggðarinnar.

Laugarvatn er umfram annað skólabær. Flestir byggja með einhverjum hætti afkomu sína á starfi skólanna á staðnum eða hafa tengsl við þá; það er leik-, grunn- og menntaskóla eða Íþróttafræðasetur Háskóla Íslands. Alls eru til heimilis skráðir á Laugarvatni um 170 manns en óhætt er að margfalda þá tölu með tveimur; svo margir eru í heimavist menntaskólans og stúdentaíbúðum en skráðir með lögheimili í öðrum sóknum.

„Lengi framan af voru flest húsin hér vestast í þorpinu; það er næst skólunum. Byggðir voru kennarabústaðir og annað starfsfólk skólanna byggði í grenndinni. Það var svo árið 1965 sem fyrstu húsin voru byggð hér í austurþorpinu, það er þegar foreldrar mínir þau Böðvar Ingimundarson og Halldóra Guðmundsdóttir og önnur hjón til, þau Hilmar Einarsson og Linda Pálmadóttir. Mig minnir raunar að menn hafi ekki verið nema í meðallagi hrifnir af því að einhverjir sem ekki tengdust skólunum færu að reisa hús hér á staðnum og einhvers staðar var fært til bókar að því færi best á því að húsin yrðu reist sem fjærst skólunum,“ segir Guðmundur um byggðina í austurþorpinu sem fyrr á árunum var stundum nefnd Kútahverfi, þó að hér verði látið liggja milli hluta af hverju sú nafngift er sprottin.

Margskiptur maður

Guðmundur er húsasmiður að mennt og hefur víða stungið niður staf sínum í uppsveitum Árnessýslu. Meðal annars reisti hann með sínum mönnum það þriggja íbúða raðhús sem hann býr í í dag með fjölskyldu sinni; eiginkonu sinni Kristrúnu Sigurfinnsdóttur og þremur börnum. Guðmundur er margskiptur í starfi. Er í hlutastarfi hjá byggingafulltrúa á Laugarvatni sem hefur eftirlit með framkvæmdum í uppsveitum Árnessýslu. Að auki er hann hlutastarfandi slökkviliðsmaður hjá Brunavörnum Árnessýslu og varðstjóri á Laugarvatni.

„Svo er ég líka hjá Heilbrigðisstofnun Suðurlands sem annast sjúkraflutninga í Árnessýslu. Og það má eiginlega segja að því fylgi að ég sé æði oft á bakvaktinni. Neðan frá Selfossi og hingað að Laugarvatni er hálftíma akstur og berist neyðarkall héðan fer ég oft á staðinn á undan til að veita einhvers konar fyrstu hjálp áður en sjúkrabíll nær á vettvang. Þetta er bara nokkuð sem fylgir starfinu,“ segir Guðmundur Böðvarsson í Háholti.

sbs@mbl.is