Í KAPLAKRIKA
Ólafur Már Þórisson
omt@mbl.is
FH og Valur áttust við í N1-deild karla í handknattleik í gær og voru það FH-ingar sem höfðu betur, 29:27. Staðan í hálfleik var 12:13 en það voru Valsmenn sem höfðu frumkvæðið fyrstu þrjátíu mínúturnar. Það snerist hins vegar við í seinni hálfleik. FH-ingar misstu meðal annars tvo leikmenn af velli í stöðunni 14:14. Með aðeins fjóra sóknarmenn gegn sex varnarmönnum Vals náðu FH-ingar samt sem áður að halda jöfnu og eftir að þeir Ragnar Jóhannsson og Baldvin Þorsteinsson höfðu tekið út refsinguna sína var staðan 16:16.
Sá kafli setti tóninn og náðu heimamenn mest sex marka forskoti, 29:23. Þrátt fyrir að hafa ekki skorað mark síðustu mínúturnar á meðan Valsmenn gerðu fjögur var bilið of mikið fyrir þá rauðklæddu að brúa.
Ragnar ekki að stressa sig
Varnarleikur Vals var í molum í seinni hálfleik, sautján mörk á síðustu 30 mínútunum miðað við 12 í þeim fyrri segir sína sögu. Fremstur í flokki í sókninni hjá FH fór Ragnar Jóhannsson sem kom til liðsins frá Selfossi fyrir tímabilið.„Loksins náði ég að finna mig, það tók alveg nokkra leiki að komast inn í liðið og spila vel,“ sagði Ragnar sem var ekki áberandi í markaskorun hjá FH í fyrstu tveimur leikjunum á Íslandsmótinu. Hann var vanur því að skora mörk hjá Selfyssingum og það mörg. Spurður hvort hann hefði verið farið að lengja eftir því að skora fleiri með FH sagði Ragnar: „Nei nei, ég er búinn að vera rólegur yfir þessu. Þetta kemur bara og maður þarf að spila sig inn í þetta.“
Ragnari líkar vel dvölin í Hafnarfirðinum. „Þetta eru allt hörkustrákar og góðir handboltamenn. Það hefur verið auðvelt að komast inní hópinn félagslega.“ Hann er ánægður með byrjun liðsins í mótinu ef undan er skilinn opnunarleikurinn gegn Fram. „Við erum bara nokkuð ánægðir með gengið fyrir utan fyrsta leikinn. Það var súrt að tapa og spila svona illa. Þessir síðustu tveir leikir eru hins vegar búnir að vera mjög góðir,“ sagði Ragnar og bætti við að liðið væri líklega svona seinni-hálfleiks-lið ef marka má síðustu leiki.
Óskar Bjarni Óskarsson, þjálfari Vals, var ekki eins ánægður með leik sinna manna og þá sérstaklega í seinni hálfleik. „Við misstum þá allt of langt frá okkur og vorum óvirkir í seinni hálfleik og lélegir varnarlega. Við varla klukkuðum þá og þetta leit mjög illa út. Það er miður því við vorum fínir í fyrri hálfleik.“
*Nánar er rætt við Óskar, Ragnar og Einar Andra Einarsson, þjálfara FH, sem fór fögrum orðum um nýja leikmanninn Ragnar Jóhannsson.
FH – Valur 29:27
Kaplakriki, úrvalsdeild karla, N1 deildin, miðvikudaginn 5. október 2011.Gangur leiksins : 0:1, 1:1, 1:3, 4:6, 6:6, 8:8, 9:8, 9:10, 10:12, 12:13 , 12:14, 14:14, 18:18, 20:20, 23:20, 26:21, 29:23, 29:27 .
Mörk FH : Ragnar Jóhannsson 7, Atli Rúnar Steinþórsson 5, Örn Ingi Bjarkason 4, Andri Berg Haraldsson 4/3, Ólafur Gústafsson 3, Hjalti Pálmason 3, Baldvin Þorsteinsson 2, Halldór Guðjónsson 1.
Varin skot : Daníel Freyr Andrésson 7, Sigurður Örn Arnarson 1.
Utan vallar : 4 mínútur.
Mörk Vals : Orri Freyr Gíslason 7, Anton Rúnarsson 6, Sturla Ásgeirsson 5, Finnur Ingi Stefánsson 5, Magnús Einarsson 2, Sigfús Sigurðsson 1, Atli Már Báruson 1.
Varin skot : Hlynur Morthens 14/1.
Utan vallar : 2 mínútur.
Dómarar : Jón Karl Björnsson og Þorleifur Á. Björnsson, góðir.
Áhorfendur : 800.