[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hvað gerir kona sem hefur verið svikin af sínum nánustu og misst það sem henni er kærast? Hún leggur upp í blóðuga hefndarför.

Ung kona vaknar úr dái á sjúkrahúsi. Hún veit fyrst hvorki í þennan heim né annan en smám saman renna upp fyrir henni ástæður sjúkrahúsvistarinnar sem og ömurlegar aðstæður á sjúkrastofnuninni. Konan bítur á jaxlinn og hrindir af stað áætlun sem hefur það eitt að markmiði að drepa Bill!

Eitthvað á þessa leið hljómar upphaf kvikmyndarinnar Kill Bill 1 sem leikstjórinn og handritshöfundurinn Quentin Tarantino á heiðurinn af. Myndirnar urðu reyndar tvær þó upphaflega hafi leikstjórinn viljað hafa söguna í einu lagi.

Myndirnar tvær segja frá þessu hefndarferðalagi Brúðarinnar, en hennar rétta nafn kemur ekki í ljós fyrr en undir lok seinni myndarinnar. Fimm manns eru á dauðalista Brúðarinnar, hennar fyrrverandi félagar, og á toppnum trónir fyrrverandi ástmaðurinn, Bill.

Uma Thurman leikur Brúðina og er fantaflott í hlutverkinu góða. Þetta var ekki í fyrsta sinn sem þau Tarantino leiddu saman hæfileika sína en Thurman fór með hlutverk hinnar eitursvölu Miu Wallace í Pulp Fiction. Það var í raun við tökur á þeirri mynd sem þau Tarantino og Thurman fengu upphaflega hugmynd að bardagamynd með konu í aðalhlutverki þar sem hefndin væri hennar helsti drifkraftur.

Thurman er feikigóð í aðalhlutverkinu en ekki má gleyma að minnast á aukaleikarana sem eru hver öðrum betri. Tarantino hefur í gegnum tíðina haft auga fyrir góðum leikurum sem hafa einhverra hluta vegna safnað ryki á Hollywood-hillunum undanfarin ár. Þarna mætir til dæmis til leiks Darryl Hannah sem fær aldeilis að láta ljós sitt skína. David heitinn Carradine er einnig sem klæðskerasniðinn í hlutverk hins feiga Billa. Þá er ótalinn senuþjófurinn Michael Madsen.

Tónlistin skipar sem fyrr stóran sess í myndum Tarantinos. Öll frumsamin tónlist í myndinni er úr smiðju góðvinar leikstjórans og kollega hans, Robert Rodriguez.

Sjónvarpið sýnir Kill Bill 2 á laugardagskvöld klukkan 23.35.