Karl Þorsteins
Karl Þorsteins
Eftir Karl Þorsteins: "Það er rétt að bókfærður hagnaður bankanna er mikill, en ennþá er gríðarleg óvissa um innheimtur útlána og að stærstu leyti stafar hagnaðurinn af fortíðaruppgjöri og alltof háum vaxtamun."

Ég hlusta ekki á eldhúsdagsumræðurnar á Alþingi en tók samt eftir orðum forsætisráðherra, þegar hún sagði að „ríkisstjórnin telur að bankarnir þurfi að leggja meira af mörkum til samfélagsins og uppgjör þeirra sýna að þeir eru svo sannarlega aflögufærir“.

Það er full ástæða til þess að krefja bankana um skuldaskil en ég hef meiri áhyggjur af að í stað þess að bankarnir séu aflögufærir, þá muni tjón skattborgara vaxa við ennþá meiri og handahófskennda skattlagningu á fjármálastofnanir.

Ríkið situr beggja vegna borðs við skattlagninguna, því ríkið er jafnframt langstærsti hluthafinn og hefur lagt um 190 milljarða í formi hlutafjár og víkjandi lána til viðskiptabanka og sparisjóða. Ef stuðst er við svipuð markaðsverðgildi og hjá bönkum í Skandinavíu má áætla að ríkið fái 25 milljörðum minna fyrir hlutinn nú og frekari skattlagning eykur síður en svo verðgildið.

Það er rétt að bókfærður hagnaður bankanna er mikill, en ennþá er gríðleg óvissa um innheimtur útlána og að stærstu leyti stafar hagnaðurinn af fortíðaruppgjöri og alltof háum vaxtamun. Hagnaðurinn byrgir þá sýn að kostnaðurinn er alltof mikill og það gildir bæði um bankakerfið sjálft og eftirlitsiðnaðinn á bak við kerfið.

Varðandi úrbætur virðist það alltaf gleymast að bankar hafa það mikilvæga hlutverk að miðla fjármagni frá innlánseigendum og til arðsamra verkefna. Fjármagn er hreyfiafl breytinga og verðmætasköpunar og bankar þurfa að verðmeta áhættuna rétt og veita lánsfé til arðsamra verkefna. Augljóst er að áhættumatið var rangt fyrir hrun þegar alltof ódýru lánsfé var dælt út með alltof veikum tryggingum, en núna vantar að starfandi fyrirtæki fái eðlilega rekstrarfyrirgreiðslu og að fyrirtæki og einstaklingar með arðsöm og góð verkefni hafi aðgang að lánsfjármagni á viðunandi kjörum.

Það er augljóst af fjölmörgum dæmum sem ég hef skoðað að vinnubrögð banka einkennast ennþá af ákvörðunarfælni og alltof stífum tryggingarkröfum. Gangverk fjármálakerfisins vinnur af þeim sökum á takmörkuðum afköstum og fyrir vikið eru bankarnir, ef notuð eru orð bankastjóra Landsbankans, „stútfullir af peningum“.

Þörf er á mikilli bót og bankarnir og stærsti eigandinn þurfa að gera betur.

Höfundur hefur víðtæka reynslu á fjármálamarkaði og er starfandi stjórnarformaður Quantum ehf.

Höf.: Karl Þorsteins