— Morgunblaðið/Sigurgeir S.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Það verður líf og fjör í Hörpu í nóvember, en þá setur Yesmine Olsson þar upp Bollywoodsýningu með miklu húllumhæi. Á milli æfinga kennir Yesmine á námskeiðum um indverska eldamennsku og hjálpar landanum að komast í form enda einkaþjálfari að...

Það verður líf og fjör í Hörpu í nóvember, en þá setur Yesmine Olsson þar upp Bollywoodsýningu með miklu húllumhæi. Á milli æfinga kennir Yesmine á námskeiðum um indverska eldamennsku og hjálpar landanum að komast í form enda einkaþjálfari að aðalstarfi. Blaðamaður náði tali af Yesmine og komst m.a. að því að hún vann eitt sumarið sem ruslakarl.

Draumastarfið? „Draumavinnan felst í því að fást við fjölda ólíkra verkefna á mínum sérsviðum, þar sem mér bæði leiðist aldrei, og ég get þroskast og vaxið sem einstaklingur.“

Versta vinnan? „Þegar ég var yngri vann ég eitt sumar sem sorphirðumaður. Ég held að pabbi hafi verið að kenna mér lexíu með því að útvega mér það starf. Svo var líka lífsreynsla þegar ég var fengin til að semja og þjálfa dansrútínu í línudansi. Þar sem ég hef takmarkaða þekkingu og enn takmarkaðri áhuga á línudansi ákvað ég að setja upp sérlega hátt verð, en var samt ráðin. Í viku þurfti ég að kenna línudans.“

Draumabíllinn? „Þegar ég var yngri langaði mig alltaf í Wrangler. Í dag er ég ekki svo viss um af hvaða tegund draumabíllinn er, en það þyrfti samt að vera smájeppi sem hentar vel fyrir áhugamál fjölskyldunnar: stangveiði og hestamennsku. Bíllinn má ekki vera of stór, svo hann henti í innanbæjarakstur og eins svo það sé ekki eins og fjallganga að stíga um borð í bílinn.“

Hvað vantar á heimilið? „Ég vildi óska að ég hefði meiri tíma til að huga að útliti heimilisins. Þegar sá tími kemur á ég eftir að skemmta mér við að leita uppi einstaka muni með persónuleika. Um daginn rakst ég t.d. á ákaflega skemmtilega kínverska lampa til sölu hjá sænskri húsgagnaverslun. Svo væri notalegt að hafa opinn arineld á heimilinu. Nýlega keypti ég svo það sem mig vantaði mest: lítinn tandoori-ofn sem rúmast úti á svölum og má nota allan ársins hring.“

Hvað langar þig í? „Mig langar afskaplega í ný hljómtæki. Maðurinn minn er þrjóskur í þessum málaflokki og heldur ástfóstri við græjurnar sem hann fékk í arf frá föður sínum. Ég er sjálf mikill tónlistarunnandi og sakna gæðahljómsins úr ferskum græjum. Síðan langar mig að hafa meira af blómum á heimilinu. Blóm held ég að gleðji alla, en ég er enn að vinna að því að hafa nægan tíma og nógu græna fingur til að geta hugsað sómasamlega um blóm.“

Hvað er best heima? „Eldhúsið er uppáhaldsstaðurinn. Ég hef valið öll mín fyrri heimili út frá eldhúsinu. Gashellurnar má ekki vanta, og helst gott opið rými sem tengist inn í stofuna. Það þrengir fljótt að mér í litlu eldhúsi enda kallar eldamennskan mín á að hafa mikið af skálum og pottum úti, og skemmtilegast af öllu er að elda í góðum félagsskap svo það er gott að hafa rými fyrir fleira fólk.“

ai@mbl.is