Skyndilega eru alþingismenn orðnir réttlausir. Það má henda í þá eggjum, tómötum og alls kyns óþverra, án þess að þeir sem það geri séu kallaðir til ábyrgðar fyrir ofbeldisfullar gjörðir sínar.

Skyndilega eru alþingismenn orðnir réttlausir. Það má henda í þá eggjum, tómötum og alls kyns óþverra, án þess að þeir sem það geri séu kallaðir til ábyrgðar fyrir ofbeldisfullar gjörðir sínar. Þingmennirnir, fórnarlömbin, fara svo afar varlega í að fordæma það ofbeldi sem þeir verða fyrir. Engu er líkara en þeir hafi misst alla sjálfsvirðingu og telji að þeir eigi engan rétt.

Við vitum hvernig fer fyrir þeim sem glatar virðingu fyrir sjálfum sér. Aðrir hætta samstundis að bera virðingu fyrir honum og geta endalaust réttlætt fyrir sjálfum sér að það sé í góðu lagi að fá útrás með því að sparka í hann. Hann liggur svo vel við höggi og það er lítil hætta á að hann fari að bera hönd fyrir höfuð sér. Nú eru þingmenn komnir í þessa vondu stöðu fórnarlambsins og þeir finna enga útgönguleið. Það er heldur enginn að hjálpa þeim. Allra síst fjölmiðlar.

Fjölmiðlar hafa unun af mótmælum. Eggjakast er flott fyrsta frétt í sjónvarpstímum og prúðbúið fólk í vanda er ómótstæðilegt myndefni. Tölum ekki um ef það skyldi fá á sig högg og falla í götuna. Þetta eru sko fréttir í lagi!

Á dögunum spurði fréttamaður í sjónvarpi spurningar sem ætti að þykja sjálfsögð: Er réttlætanlegt að kasta eggjum að alþingismönnum, er það ekki ofbeldi? Á næstu dögum urðu fjölmargir til að segja að svona spurning væri grófleg aðför að hundruðum eða þúsundum sem mótmæltu friðsamlega. Reyndar vakti sérstaka athygli manns að fjölmiðlamaður skyldi bera fram þessa spurningu því fréttaflutningur flestra fjölmiðla byggist á sérkennilegu afstöðuleysi gagnvart ofbeldisverkunum á Austurvelli, rétt eins og þarna hafi sjálfsagðir og eðlilegir hlutir átt sér stað. Þetta var víst verknaður sem engin ástæða þykir til að fordæma, af því að þarna var reitt fólk á ferð. Og svo voru þetta víst ekki allir, bara sumir, sem köstuðu eggjum.

Ef líkamsárás er gerð í miðbænum á helgarnótt heyrum við þá rökin um að hundruð manna hafi hagað sér vel í miðbænum og þess vegna sé fréttin af líkamsárásinni tekin úr samhengi og gróflega ýkt? Nei, við heyrum það ekki. En þegar alþingismenn verða fyrir ofbeldi heyrast raddir, meðal annars frá talsmanni Hagsmunasamtaka heimilanna, um að óþarfi sé að einblína á þá fáu sem gerðust brotlegir.

Svo heyrast rökin um að það sé allt í lagi að kasta eggjum að þingmönnum af þeir séu svo vondir við þjóðina. Við höfum sem sagt rétt á því að beita þingmenn ofbeldi og subba út Alþingishúsið af því að lánin okkar eru verðtryggð eða vegna þess að kaupið okkar er of lágt. Mikið óskaplega hefur fólk sem býður manni upp á svona málflutning litla siðferðiskennd. En þeir sem vilja réttlæta ofbeldi velja iðulega að fara ómerkilegustu leiðir. Við eigum ekki að taka undir með þeim og við eigum ekki að þegja og láta eins og ofbeldi sé í lagi. kolbrun@mbl.is

Kolbrún Bergþórsdóttir

Höf.: Kolbrún Bergþórsdóttir