Kristján Ísaks Valdimarsson fæddist 3. maí árið 1936 á Ísafirði. Hann lést á Landspítalanum í Fossvogi 26. september 2011.

Hann var sonur hjónanna Sigríðar Ísaksdóttur og Valdimars Valdimarssonar. Systkini Kristjáns eru Íslaug Aðalsteinsdóttir, búsett í Garðabæ, Kristína Jakobína Valdimarsdóttir, látin í júlí 1935, Erla Valdimarsdóttir, látin í september 2008, Elvar Þór Valdimarsson, látinn í ágúst 2011, og drengur óskírður Valdimarsson, látinn í september 1942.

Árið 1957 kvæntist Kristján Grétu Halldórs hjúkrunarkonu frá Akureyri. Börn þeirra eru. 1. Helga Sigríður, maki Jón Þór Guðjónsson, þau eiga fjögur börn. 2. Árni Valdimar, maki Ragnheiður Skúladóttir, þau eiga fjögur börn. 3. Sverrir Þór, maki Guðrún Hörn Stefánsdóttir, þau eiga þrjú börn. 4. Margrét Jónína, maki Páll Pálsson, þau eiga þrjú börn. 5. Kristján Ísak, maki Sigríður G. Pálmadóttir, þau eiga þrjú börn. 6. Gunnar Freyr, maki Margrét Dögg Bjarnadóttir, þau eiga fimm börn. 7. Elín Íslaug, maki Kristinn Ágúst Ingólfsson, þau eiga þrjú börn.

Systkinin misstu móður sína á unga aldri og voru bræðurnir Kristján og Elvar aldir upp hjá móðursystur sinni Guðlaugu Ísaksdóttur og manni hennar á Skarði ofan Akureyrar. Kristján gekk í Gagnfræðaskólann á Akureyri, hann útskrifaðist sem stýrimaður frá Stýrimannaskólanum í Reykjavík og var til sjós í nokkur ár. Hann vann lengst af hjá Sýslumanninum á Akureyri. Kristján tók þátt í starfi Sjálfsbjargar um skeið og var meðal annars framkvæmdastjóri Plastiðjunnar Bjargs. Kristján hafði mikinn áhuga á íþróttum, tók þátt í starfi Knattspyrnufélags Akureyrar (KA) og Íþróttabandalagi Akureyrar (ÍBA). Hann starfaði í Oddfellow-hreyfingunni og var sú regla honum mikils virði.

Útför Kristjáns fer fram frá Akureyrarkirkju í dag, 6. október 2011, kl. 13.30.

Elsku afi, ég sakna þín mjög.

Elsku afi, ef ég mætti ráða værir þú enn hér hjá mér.

Elsku afi, ég mun aldrei gleyma yndislega knúsinu þínu.

Elsku afi, ég geymi þig í hjartanu mínu að eilífu.

Elva Margrét Árnadóttir.

Kær vinur okkar og samferðamaður í rúma hálfa öld, Kristján Valdimarsson, er fallinn frá.

Við vorum 16 ungar stúlkur sem hófum nám í Hjúkrunarskóla Íslands sumarið 1954. Það má segja að Kristján hafi verið fyrsti „mágur“ okkar skólasystranna þar eð þau voru þegar heitbundin, Kristján og Gréta Halldórs skólasystir okkar, þegar við hófum nám.

Kristján var einstaklega glaðlyndur, ljúfur og hjálpsamur maður. Það var unun að fylgjast með ást þeirra Grétu og Kristjáns blómgast þessi þrjú ár í námi okkar því ekki voru nú stefnumót daglegt brauð við þær aðstæður.

Eftir að Gréta lauk námi stofnuðu þau Kristján heimili á Akureyri. Þau eignuðust sjö mannvænleg börn sem öll bera foreldrum sínum gott vitni. Kristján var einstaklega góður eiginmaður og faðir. Aldrei var svo þröngt um þessa stóru fjölskyldu að ekki væri hægt að bæta við í fæði og húsnæði þegar vinir áttu leið um Akureyri.

Ógleymanlegar og dýrmætar eru minningar okkar um ferðalög okkar skólasystranna með mökun bæði heima og erlendis sem hafa verið næstum árlegur viðburður eftir að vinnudögum lauk. Gréta og Kristján tóku þátt í þessum ferðum þegar heilsa leyfði og var Kristján jafnan hrókur alls fagnaðar.

Síðastliðin ár hafa þau hjón ekki gengið heil til skógar. Erfið veikindi hafa hrjáð þau bæði. En aldrei var bugast og get ég fullyrt að þau studdu hvort annað af ást og umhyggju allt að leiðarlokum.

Við skólasysturnar biðjum þann sem öllu ræður að vera með Grétu okkar, börnum þeirra hjóna og fjölskyldum þeirra. Við vottum þeim öllum okkar innilegustu samúð á erfiðum tímum. Minning um góðan vin mun lifa með okkur. Blessuð sé minning Kristjáns Valdimarssonar.

Fyrir hönd skólasystra úr

Hjúkrunarskóla Íslands sem

útskrifuðust haustið 1957,

Soffía Jensdóttir.

Kveðja frá Íþróttabandalagi Akureyrar

Kristján Valdimarsson er látinn. Þar er genginn einn af þessum hógværu en traustu mönnum, sem rækti öll störf sem honum vorum fengin af samviskusemi, áhuga og alúð. Íþróttir og íþróttarmál voru hans áhugamál og naut íþróttahreyfingin á Akureyri sérstaklega góðs af því. Hann var KA-maður fram í fingurgóma og starfaði mikið fyrir félagið. Hann þótti sjálfsagður til þess að taka sæti í stjórn Íþróttabandalags Akureyrar (ÍBA), en eðlilegt var talið, að stærstu félögin innan vébanda þess tilnefndu menn í stjórnina. Þannig sat hann um árabil í stjórn ÍBA á níunda og tíunda áratug síðustu aldar allan tímann sem gjaldkeri. Þar var réttur maður á réttum stað. Hann hélt af öryggi og samviskusemi utan um fjármál bandalagsins þannig að aldrei kom til neinna vandamála í rekstrinum að því leyti. Formaður og framkvæmdastjóri bandalagsins, sem unnu með Kristjáni á þessum tíma, minnast hans sérstaklega með miklu þakklæti. Hann var rólegur og yfirvegaður í öllu sem hann tók sér fyrir hendur. Þá var hann mannasættir og valdist þess vegna oft til þess að miðla málum, þegar ágreiningur kom upp og sætta þurfti ólík sjónarmið. Kom það oft fyrir þegar sigla þurfti á milli skers og báru vegna sérstakra hagsmuna hinna ýmsu félaga innan vébanda Íþróttabandalagsins.

Menn báru virðingu og traust til Kristjáns og vissu að hann reyndi að beita ýtrustu sanngirni við úrlausn mála. Alltaf var komist að niðurstöðu, sem allir gátu sætt sig við þegar Kristján kom að málum.

Íþróttabandalag Akureyrar þakkar nú Kristjáni enn og aftur fyrir hans mikilvægu og farsælu störf að eflingu íþróttastarfsemi á Akureyri og sendir eiginkonu hans og fjölskyldu innilegar samúðarkveðjur.

f.h. Íþróttabandalags Akureyrar,

Þröstur Guðjónsson

formaður.