Tilbúnar Rakel Logadóttir, Hallbera Guðný Gísladóttir, Málfríður Erna Sigurðardóttir, Kristín Ýr Bjarnadóttir, Hólmfríður Magnúsdóttir og Embla Sigríður Grétarsdóttir verða allar í eldlínunni með Val í dag.
Tilbúnar Rakel Logadóttir, Hallbera Guðný Gísladóttir, Málfríður Erna Sigurðardóttir, Kristín Ýr Bjarnadóttir, Hólmfríður Magnúsdóttir og Embla Sigríður Grétarsdóttir verða allar í eldlínunni með Val í dag. — Morgunblaðið/Sigurgeir S.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
FÓTBOLTI Ívar Benediktsson iben@mbl.

FÓTBOLTI

Ívar Benediktsson

iben@mbl.is

„Við ætum að sjálfsögðu að leika til sigurs og teljum okkur eiga alla möguleika til þess ef tekið er mið af fyrri viðureign okkar við Glasgow City FC,“ sagði Rakel Logadóttir, fyrirliði Vals, um síðari leikinn við skoska liðið Glasgow City FC í 32-liða úrslitum Meistaradeildar kvenna í knattspyrnu sem fram fer í dag. Leikið verður á Vodafone-vellinum og flautað til leiks klukkan 16. Aðgangur á leikinn er ókeypis og vonast Valsmenn eftir að fá sem flesta áhorfendur. „Það voru 750 áhorfendur á fyrri leiknum ytra í síðustu viku og ég vona að það verði ekki færri áhorfendur á leiknum í dag á okkar heimavelli. Við þurfum á stuðningi að halda og vonum að fólk komi og styðji við bakið á okkur,“ sagði Rakel en Valsliðið stendur vel að vígi eftir jafntefli, 1:1, í fyrri leiknum sem fram fór í Skotlandi fyrir viku.

„Skoska liðið leikur hraða knattspyrnu og ég reikna því með hröðum og skemmtilegum leik á báða bóga. Ef við náum upp góðum varnarleik og tekst að nýta þau marktækifæri sem við fáum þá getum við alveg unnið,“ segir Rakel og undirstrikar að markið á útivelli sé dýrmætt veganesti í leikinn í dag.

„Það er gott sjálfstraust í Valsliðinu og því ætlum við okkur ekki annað en að leika til sigurs,“ segir fyrirliðinn Rakel Logadóttir. Sigurliðið í leiknu mætir Turbine Potsdam í 16-liða úrslitum.