Með geit Alexandra Freyja, Ísabella Ronja, Elísabeth Ýr og Jóhanna B. Þorvaldsdóttir gefa pela á Háafelli.
Með geit Alexandra Freyja, Ísabella Ronja, Elísabeth Ýr og Jóhanna B. Þorvaldsdóttir gefa pela á Háafelli. — Morgunblaðið/Ómar
Andri Karl andri@mbl.is Eftirspurn eftir geitaosti hefur aukist mikið á Íslandi á umliðnum árum.

Andri Karl

andri@mbl.is

Eftirspurn eftir geitaosti hefur aukist mikið á Íslandi á umliðnum árum. Um árabil var hægt að kaupa íslenskan geitaost, sem þótti mjög góður, en frá síðasta ári hefur hann verið ófáanlegur og þurfa Íslendingar því að sætta sig við erlenda framleiðslu. Ötulust hefur í baráttunni fyrir betri nýtingu afurða af íslensk geitinni verið Jóhanna B. Þorvaldsdóttir, geitabóndi á Háafelli í Hvítaársíðu í Borgarfirði. Hún segir margan ferðamanninn hafa farið vonsvikinn frá Háafelli í sumar þegar honum var ljóst að enginn væri íslenski geitaosturinn.

„Í gangi var ostagerðarverkefni á vegum Búnaðarsamtaka Vesturlands, Bændasamtakanna, Landbúnaðarháskóla Íslands, mjólkursamlags MS í Búðardal og Matís sem stóð í fimm ár og þá var geitamjólkin tekin inn. Þá var til Brie-ostur úr mjólk frá mér í nokkur ár,“ segir Jóhanna. Framleiðslan annaði ekki eftirspurn og eftir að henni var hætt, vegna fjármagnsskorts, kom bersýnilega í ljós hvers kyns var. „Seinni part sumars voru að koma frá fimm og upp í tólf fjölskyldur á dag. Þetta voru bæði Íslendingar og útlendingar og allir spurðu um osta.“

Jóhanna segir að Íslendingarnir hafi heyrt af geitaostinum en útlendingar séð geitur í túni og út frá því talið sjálfsagt að til væru ostar á sveitabænum. „Þeir telja það bara fylgja, enda alþekkt víða um heim.“

Til þess að koma upp framleiðslu á geitaosti þarf Jóhanna betri aðstöðu á Háafelli, enda gilda strangar reglur hér á landi þegar kemur að matvælaframleiðslu. „Það er svo ergilegt að ná ekki að markaðssetja þessar frábæru vörur af því að maður hefur ekki fjármagnið til að byggja upp aðstöðu. Ég á geitastofninn, nóg af mjólkurdýrum og reynsluna. Þá vantar bara aðstoð til að mjólka almennilega. Miðað við fjöldann í sumar gæti ég selt ótrúlega mikið bara beint héðan,“ segir Jóhanna.