Ásgeir Ingvarsson
ai@mbl.is
„Víða í íslensku atvinnulífi held ég að mikið land sé óunnið í markaðsmálum og innleiðing á réttum vinnubrögðum skemmra á veg komin en fyrirtækin halda sjálf,“ segir Þórhallur Guðlaugsson dósent við viðskiptafræðideild HÍ. Þórhallur er einn þriggja fyrirlesara sem flytja munu erindi í hátíðarsal HÍ á morgun frá 12 til 13.30. Viðburðurinn er í tilefni af aldarafmæli Háskólans og ber yfirskriftina „Markaðsfræðin í fortíð, nútíð og framtíð“. Auk Þórhalls taka til máls Friðrik Eysteinsson aðjúnkt og Frosti Jónsson markaðs- og birtingaráðgjafi.
„Vandinn liggur meðal annars í því að fyrirtækin hér á landi eru meira söludrifin heldur en markaðsdrifin, og eins að í markaðsstarfinu er ofuráhersla lögð á auglýsingar. Starfsmenn fyrirtækja eru oft miklu spenntari fyrir að vera tengiliðir við auglýsingaskrifstofurnar heldur en að leggja mikla vinnu í mælingar, tölfræði og greiningu, og mikið skortir á að vönduð markaðsstefna sé útfærð eða henni þá framfylgt samviskusamlega.“
Maðurinn með rúlluna
Þórhallur líkir markaðsstarfi margra íslenskra fyrirtækja við það að mála herbergi. „Þegar þarf að mála þá vilja helst allir fá að munda rúlluna, en engan langar að gera allt hitt: pússa og spasla undirlagið, leggja límband yfir viðkvæma staði og koma penslinum út í erfið horn. En það er einmitt sá hluti vinnunnar sem hefur hvað mest að segja um gæði lokaútkomunnar.“Eftir miklu er að slægjast enda segir Þórhallur að mælingar sýni vel að sterk tengsl eru milli markaðshneigðar í reksri og árangurs fyrirtækja á markaði. Með því að nýta markaðsfræðin betur sé hægt að ná til neytenda og með betri árangri og minni tilkostnaði. „Ef stjórnendur vita t.d. ekki af hverju þeir eru að auglýsa fyritæki sitt eða vöru, þá er hætta á að mikil sóun eigi sér stað. Með skýrari hugmyndum um markmið og viðbrögð markaðarins er viðbúið að náist miklu betri árangur fyrir sömu fjárfestingu.“
Hvað selur?
» Segir íslensk fyrirtæki oft of söludrifin en ekki nógu markaðsdrifin. Reynt að selja frekar en pæla.
» Lítill áhugi hjá almennum starfsmönnum á mælingum og tölfræði en allir vilja vera tengiliðir við auglýsingastofurnar.
» Hætta á sóun ef stjórnendur vita ekki nákvæmlega til hvers þeir eru að auglýsa og hvað virkar best.