Sunna Ósk Logadóttir sunna@mbl.is Sýrlensk kona, sem segist vera hin 18 ára gamla Zainab al-Hosni, kom fram í sjónvarpi í gær og sagðist ekki hafa verið hálshöggvin, eins og haldið hefði verið fram í fjölmiðlum, heldur hlaupist að heiman og í felur.

Sunna Ósk Logadóttir

sunna@mbl.is

Sýrlensk kona, sem segist vera hin 18 ára gamla Zainab al-Hosni, kom fram í sjónvarpi í gær og sagðist ekki hafa verið hálshöggvin, eins og haldið hefði verið fram í fjölmiðlum, heldur hlaupist að heiman og í felur. Mannréttindasamtökin Amnesty International sögðu í síðasta mánuði að konan hefði verið drepin og aflimuð. Amnesty er ekki sannfært um að stúlkan sé sú sem hún segist vera, en ef svo sé ættu sýrlensk stjórnvöld að upplýsa hver konan er sem var myrt.

Táknmynd mótmælanna

Hosni var sögð fyrsta konan sem drepin var í varðhaldi eftir að óeirðir hófust í landinu í mars síðastliðnum. Sögðu fjölmiðlar hana vera frá borginni Homs og var Hosni fljótlega gerð að táknmynd mótmælanna gegn stjórn landsins. Fréttir hermdu að hún hefði verið fangelsuð í þeim tilgangi að pynta hana til sagna um bróður hennar, sem hefur verið áberandi í mótælunum í Sýrlandi.

Fjölskylda Hosni sagði í gær að það liti út fyrir að stúlkan sem kom fram í sjónvarpinu væri Zainab al-Hosni. Amnesty krefst nú svara um af hvaða konu líkið er sem afhent var fjölskyldunni til greftrunar.

Höggi komið á stjórnvöld

Í sjónvarpinu sagðist stúlkan hafa strokið að heiman þar sem hún hefði sætt ofbeldi af hendi bræðra sinna. Sagði hún „lygi“ það sem fram hefði komið um sig og fjölskyldu sína í fjölmiðlum. Fréttirnar af dauða hennar hefðu verið sviðsettar til að koma höggi á sýrlensk stjórnvöld.