Þegar fasteign er metin er best að vanda til verka. Hvert herbergi er skoðað í krók og kring. Skápar og hillur eru opnuð, umhverfið kannað og kallað eftir ýmsum gögnum. Jafnvel fenginn sérfræðingur til aðstoðar.
Þegar meta á gæðastarf hjá fyrirtæki eða stofnun þarf líka að vanda til verka og skoða allar rekstrareiningar.
Flest lönd nota matslíkön, sem lýsa allri starfsemi, til að fá sem heildstæðast mat. Er þessi aðferð talin til bestu starfshátta. Hluti slíks líkans byggist á spurningum fyrir hvern rekstrarþátt sem gefa til kynna hvað þarf að vera til staðar til að ná sem bestum árangri.
Mest notaða matslíkan hjá fyrirtækjum í Evrópu nefnist EFQM-líkanið og kemur frá „European Foundation for Quality Management“. Sambærilegt líkan fyrir stjórnsýsluna nefnist CAF-líkanið (Common Assessment Framework) frá EIPA (European Institite of Public Administration). EFQM-matslíkanið hefur lengi verið notað af fyrirtækjum og stofnunum á Íslandi. Hjá stjórnsýslu Evrópubandalagslanda er stuðst við CAF-matslíkanið. Ennfremur er stuðst við það í stjórnsýslu margra annarra landa, m.a. Noregs, Sviss, Tyrklands, Kína og Rússlands. Hafin er notkun á CAF-matslíkani á Íslandi.
CAF-líkanið byggist á EFQM-líkaninu og eru þau nánast eins upp byggð en spurningarnar undir hverjum þætti eru ólíkar. Áherslan í spurningum EFQM-matslíkansins höfðar til fyrirtækja en CAF til stjórnsýslunnar. Stjórnvísi veitti gæðaverðlaun þar sem EFQM-matslíkanið var notað til að meta hvaða fyrirtæki eða stofnun stæði sig best á sama hátt og tíðkast í Evrópu. Verðlaunin virkuðu hvetjandi á fyrirtæki til að endurskoða og bæta starfshætti sína. Spennandi verður að fylgjast með hvaða áhrif CAF-líkanið mun hafa á starfshætti íslenskrar stjórnsýslu.