Sparnaður HS er gert að spara.
Sparnaður HS er gert að spara.
Starfsfólk Heilbrigðisstofnunarinnar á Sauðárkróki, HS, er uggandi um framtíð sína eftir að 62 milljóna króna niðurskurður til stofnunarinnar var kynntur í fjárlagafrumvarpi ársins 2012.

Starfsfólk Heilbrigðisstofnunarinnar á Sauðárkróki, HS, er uggandi um framtíð sína eftir að 62 milljóna króna niðurskurður til stofnunarinnar var kynntur í fjárlagafrumvarpi ársins 2012. Forstjórinn efast um að nokkur sparnaður felist í niðurskurðarkröfunni. Þetta kom fram á fundi starfsfólks sem haldinn var í gær.

„Við kynntum tillögur ráðuneytisins fyrir starfsfólkinu og gerðum grein fyrir því hvernig þetta horfir við okkur,“ segir Hafsteinn Sæmundsson, forstjóri HS. „Það hefur verið skorið niður um 35% hjá okkur frá hruni, sem er miklu meira en hjá öllum öðrum heilbrigðisstofnunum.“

Að sögn Hafsteins voru engar tillögur um hvernig brugðist verði við kröfu stjórnvalda kynntar á fundinum. „Við eigum eftir að útfæra það. En við þurfum að vera búin að bregðast við frumvarpinu fyrir mánaðamót og þurfum þá að vera tilbúin með fyrstu aðgerðir.“ Hafsteinn segist vona að niðurskurðaraðgerðirnar verði mildaðar. „Það er sérkennilegt að það sé skorið svona mikið niður hjá okkur. Að mínu mati felur þetta í sér aukakostnað fyrir ríkið. Til dæmis veitum við öldruðum heimaþjónustu, en ef við hættum því eykst álagið á sjúkrahúsin. Það sama gildir um endurhæfinguna, það hefur bein áhrif á álagið á sjúkrarýmin ef hún leggst af,“ segir hann.

Hafsteinn segir að niðurskurðartillögurnar feli í sér uppsagnir. „Ef þetta verður, þá fer menntaða fólkið. Ég vona í lengstu lög að þetta gangi til baka, þetta er verulegt tjón fyrir samfélagið.“ annalilja@mbl.is