Björgunarfélag Hornafjarðar leysti síðdegis á þriðjudag tvö hreindýr sem voru föst í girðingu rétt ofan við Flatey á Mýrum.

Björgunarfélag Hornafjarðar leysti síðdegis á þriðjudag tvö hreindýr sem voru föst í girðingu rétt ofan við Flatey á Mýrum. Fram kemur í tilkynningu frá Slysavarnafélaginu Landsbjörgu að verkið hafi gengið vel þótt fara hafi þurft með ýtrustu varúð því eins og kunnugt er séu hreindýr stórar og stæðilegar skepnur.

Sveitin hafi einnig farið í svipað verkefni í síðustu viku en þá hafi eitt dýr verið losað en annað hafi drepist í girðingunni.

Sem standi sé vitað um sex hreindýr á svæðinu sem séu föst saman, tvö og tvö, í víraflækjum en þau séu á ferðinni og geti nærst. Fylgst sé með þeim en lítið er hægt að gera ef styggð kemur að þeim.