Öflugur Róbert Aron Hostert sækir að vörn Akureyringa en Róbert var öflugur og skoraði átta mörk.
Öflugur Róbert Aron Hostert sækir að vörn Akureyringa en Róbert var öflugur og skoraði átta mörk. — Morgunblaðið/Ómar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í Framhúsi Guðmundur Hilmarsson gummih@mbl.is „Við erum Reykjavíkurstoltið“ sungu stuðningsmenn Framara eftir sigur liðsins á Akureyringum, 31:27, í N1-deild karla í handknattleik en liðin áttust við í Safamýrinni í gærkvöldi.

Í Framhúsi

Guðmundur Hilmarsson

gummih@mbl.is

„Við erum Reykjavíkurstoltið“ sungu stuðningsmenn Framara eftir sigur liðsins á Akureyringum, 31:27, í N1-deild karla í handknattleik en liðin áttust við í Safamýrinni í gærkvöldi. Framarar eru þar með með fullt hús stiga eftir þrjá umferðir og það er ekki nema von að gleði ríki í Safamýrinni þessa dagana; fótboltaliðið nýbúið að bjarga sér frá falli úr úrvalsdeildinni með ævintýralegum endaspretti og handboltaliðið hefur lagt að velli Íslandsmeistara FH, Akureyri, sem varð deildarmeistari á síðustu leiktíð, og Hauka, sem hafa verið sigursælir mörg undanfarin ár.

Kom til Fram til að vinna titla

„Við getum ekki verið annað en ánægðir með þessa byrjun á mótinu. Við vorum búnir að vinna þrjú sterk lið og nú þurfum við bara að halda þessu áfram. Næst er það Valur. Við vorum seinir í gang í þessum leik. Vörnin í fyrri hálfleik var afar slök og ekki síst þar sem ég var alveg úti á þekju en hún lagaðist til mikilla muna í seinni hálfleik,“ sagði Ægir Hrafn Jónsson, risinn í liði Fram, við Morgunblaðið eftir leikinn en hann kom til Framara frá Gróttu fyrir tímabilið en þar áður var hann í herbúðum Valsmanna. „Ég kom til Fram til að vinna titla og vonandi tekst það. Við erum með lið sem getur gert ansi góða hluti,“ sagði Ægir Hrafn.

Fyrri hálfleikurinn sem liðin buðu upp á í gær var hraður og fjörugur. Varnir liðanna voru ekki upp á það besta né markvarsla eins og hálfleikstölur gefa til kynna. Akureyringar voru skrefinu á undan en Framarar sóttu hægt og bítandi í sig veðrið og þó svo að þeir hafi ekki spilað vel í fyrri hálfleik hafði maður á tilfinningunni að þeir færu með sigur af hólmi. Ekki síst vegna þess hve gríðarleg breidd er í liðinu og Einar Jónsson þjálfari var óspar á að skipta mönnum inn og út. Kollegi hans í liði Akureyrar, Atli Hilmarsson, þurfti hins vegar að keyra mikið á sömu mönnunum og það tók eðlilega sinn toll þegar á leikinn leið.

Framarar líta ansi vel út í upphafi leiktíðarinnar og það kæmi undirrituðum á óvart ef þeir yrðu ekki í baráttunni um titlana á þessari leiktíð. Í sóknarleiknum kom Róbert Aron Hostert sterkur inn og hann átti nokkrar glæsilegar „slummur“ í markvinkilinn. Skemmtilegur leikmaður þar á ferð. Gleðigjafinn Sigurður Eggertsson fellur vel inn í liðið sem hefur mörg vopn í sókninni og þar má nefna örvhentu leikmennina Jóhann Gunnar Einarsson og Einar Rafn Eiðsson. Vörn Framara með Ægi Hrafn og Ingimund Ingimundarson í broddi fylkingar var lengi að hitna en þegar hún smellur saman er hún geysiöflug.

Akureyringar veittu Frömurum harða keppni. Þeir gáfust aldrei upp og hefðu getað hleypt leiknum upp í spennu á lokamínútunum en Magnús Gunnar, markvörður Framara, sá til þess að svo varð ekki. Oddur Grétarsson var heilt yfir besti maður Akureyringa, sem eru hálfvængbrotnir um þessar mundir en þeir eiga eftir að eflast þegar á líður.

Fram – Akureyri 31:27

Íþróttahús Fram, úrvalsdeild karla, N1 deildin, miðvikudaginn 5. október 2011.

Gangur leiksins : 0:1, 1:4, 3:6, 6:9, 10:13, 15:14, 16:16 , 17:19, 23:19, 26:24, 31:27 .

Mörk Fram : Róbert Aron Hostert 8, Sigurður Eggertsson 6, Jóhann Gunnar Einarsson 4, Ægir Hrafn Jónsson 3, Einar Rafn Eiðsson 3/1, Ingimundur Ingimundarson 2, Halldór Jóhann Sigfússon 2, Stefán B. Stefánsson 1, Matthías Bernhöj Daðason 1, Jóhann Karl Reynisson 1.

Varin skot : Sebastian Alexandersson 2 (þar af 1 til mótherja), Magnús Gunnar Erlendsson 12.

Utan vallar : 2 mínútur.

Mörk Akureyrar : Oddur Gretarsson 8/3, Bjarni Fritzson 7, Guðmundur Hólmar Helgason 4, Geir Guðmundsson 3, Guðlaugur Arnarsson 3, Bergvin Gíslason 1, Hlynur E. Mathíasson 1.

Varin skot : Sveinbjörn Pétursson 12 (þar af 4 til mótherja).

Utan vallar : 6 mínútur.

Dómarar : Arnar Sigurjónsson og Svavar Ó. Pétursson, mistækir.

Áhorfendur : 420.