Mótmæli Krafan um aðgerðir vegna skuldavanda heimilanna hefur enn og aftur verið áberandi í umræðunni að undanförnu.
Mótmæli Krafan um aðgerðir vegna skuldavanda heimilanna hefur enn og aftur verið áberandi í umræðunni að undanförnu. — Morgunblaðið/Kristinn
Örn Arnarson ornarnar@mbl.is Sigurður Erlingsson, framkvæmdastjóri Íbúðalánasjóðs, segir ljóst að sjóðurinn hafi að óbreyttu ekkert svigrúm til frekari afskrifta í tengslum við hugsanleg úrræði stjórnvalda vegna skuldavanda heimila.

Örn Arnarson

ornarnar@mbl.is

Sigurður Erlingsson, framkvæmdastjóri Íbúðalánasjóðs, segir ljóst að sjóðurinn hafi að óbreyttu ekkert svigrúm til frekari afskrifta í tengslum við hugsanleg úrræði stjórnvalda vegna skuldavanda heimila. Að sögn Sigurðar blasir við að ef stjórnvöld ákveði að ráðast í frekari úrræði í þeim efnum þurfi að koma til frekara framlag til sjóðsins úr ríkissjóði.

Krafan um aðgerðir vegna skuldavanda heimilanna hefur sem kunnugt er verið áberandi á ný í fjölmiðlum að undanförnu, meðal annars vegna undirskriftalista sem Hagsmunasamtök heimilanna afhentu Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra um liðna helgi, þar sem ríflega 30 þúsund manns krefjast þess meðal annars að verðbótaþáttur verðtryggðra lána verði afturvirkt látinn takmarkist við efri mörk verðbólgumarkmiðs Seðlabankans, eða að hámarki 4% á ári, frá og með ársbyrjun 2008.

Íbúðalánasjóður er stærsti lánveitandi verðtryggðra fasteignalána á markaðnum og er talið að markaðshlutdeild hans sé um 70%. Lífeyrissjóðirnir fara með um 10% og þar af leiðandi bankar og önnur fjármálafyrirtæki 20%.

Verulegur kostnaður vegna Íbúðalánasjóðs

Ríkissjóður hefur nú orðið fyrir verulegum fjárútgjöldum vegna Íbúðalánasjóðs vegna efnahagsástandsins. Í árslok í fyrra var ákveðið að ríkið fengi heimild til þess að auka eiginfjárstöðu Íbúðalánasjóðs um allt að 33 milljarða króna. Það framlag var meðal annars ákveðið í tengslum við úrræði á borð við svokallaða 110% leið vegna skuldavanda heimilanna. Eins og fram kom á sínum tíma var þessu framlagi ætlað að tryggja að sjóðurinn uppfyllti ákvæði í lögum um að stefna bæri að því að eiginfjárstaðan væri 5% af áhættugrunni.

Snemma á þessu ári var ljóst að menn höfðu vanmetið endurfjármögnunarþörf Íbúðalánasjóðs. Samkvæmt hálfs árs uppgjöri sjóðsins nam eiginfjárstaðan ríflega 2%. Málefni sjóðsins verða tekin fyrir á núverandi þingi en samkvæmt upplýsingum frá sjóðnum er talið að hann þurfi á bilinu 12-16 milljarða til viðbótar eigi hann að uppfylla markmiðið um 5% eiginfjárhlutfall.

Eins og fram hefur komið í umfjöllun Morgunblaðsins er ekki gert ráð fyrir þessum útgjöldum ríkissjóðs á fjárlögum yfirstandandi árs, en vart þarf að taka fram að um verulegar upphæðir er að ræða.