— Morgunblaðið/Golli
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þetta voru um 200 manns sem mættu til leiks á laugardaginn.

Þetta voru um 200 manns sem mættu til leiks á laugardaginn. Mér fannst í raun ótrúlegt hve margir mættu og að nær allir mættu sem höfðu skráð sig til leiks,“ segir Ragnhildur Steinunn Jónsdóttir, stjórnandi sjónvarpsþáttarins Dans dans dans um prufur sem fram fóru fyrir þáttinn síðastliðna helgi.

Í opnar prufur af þessu tagi mætir gjarnan hæfileikafólk með stóra drauma í bland við spaugara sem mæta til leiks eingöngu upp á grínið. Ragnhildur Steinunn segir að það hafi komið verulega á óvart að ekki eitt einasta grínatriði hafi verið sýnt að þessu sinni.

„Þarna voru allir af heilum hug og alveg ótrúlega hæfileikaríkir dansarar. Þetta var allt frá ballett yfir í súludans og harðasta hipp hopp, fólk á öllum aldri og svo var kynjahlutfallið eiginlega alveg hnífjafnt,“ segir hún og bætir við að hún hafi verið afar fegin að vera í hlutverki þáttastjórnanda en ekki keppanda þegar hún sá allt þetta hæfileikaríka fólk mæta til leiks. Þrjátíu atriði komust svo áfram og verða sex sýnd í einu í fimm þáttum í beinni útsendingu á RÚV og hefjast þeir í byrjun nóvember. „Dómnefndin á ekki auðvelt starf fyrir höndum,“ fullyrðir Ragnhildur Steinunn.

birta@mbl.is