ÚR BÆJARLÍFINU
Skapti Hallgrímsson
Akureyri
Á þessum árstíma er í tísku að velja lið ársins. Eins og gömlum íþróttafréttamanni sæmir ákvað ég að standa fyrir mínu eigi vali – og það verður að segjast eins og er að valið var býsna auðvelt.
Margir voru vissulega kallaðir en aðeins einn útvalinn að vanda, og að sjálfsögðu héðan að norðan; vinstri axlarliður Jóhanns Helga Hannessonar, framherjans unga og harðskeytta fótboltamanns í Þór, er liður ársins í Pepsi-deildinni.
Jóhann Helgi er þekktur fyrir allt annað en að kveinka sér og gefast upp en jafnvel mestu harðjaxlar dáðust að honum á laugardaginn þegar sýnt var frá leik Keflavíkur og Þórs á Stöð 2. Hann fór úr axlarlið, í annað skipti á stuttum tíma reyndar, en hafði ekki tíma til að bíða eftir að fagmenn í þessum fræðum hlypu inn á völlinn heldur lagðist í grasið og smellti öxlinni í lið með aðstoð eins Keflvíkingsins.
Dömulegir dekurdagar eru haldnir á Akureyri um helgina. Þetta er orðinn árviss viðburður og ótrúlega margt í boði hér og þar um bæinn fyrir dömur á öllum aldri. Of langt mál yrði að telja það upp, en upplýsingar má finna á vefsíðunni www.visitakureyri.is.
Akureyrsk börn á öllum aldri glöddust í gærmorgun þegar búið var að nudda stírurnar úr augunum. Jörð var alvhít, eins og nánar er greint frá hér ofar á síðunni. Glaðasta barnið sem ég heyrði af er fjögurra ára stúlka. Bros færðist yfir andlitið og hún kallaði: „Mamma, mamma, það eru komin jól!“
Akureyringar og íbúar næstu sveita eiga von á góðu í kvöld og annað kvöld. Sá snjalli Elías Örn Guðmundsson, Mugison, kemur þá fram á Græna hattinum. Einir tónleikar eru á dagskrá í kvöld og tvennir annað kvöld, vegna mikillar spurnar eftir miðum.
Mugison leikur gamalt og nýtt efni. Hann hefur jafnan slegið í gegn hér fyrir norðan, eins og annars staðar. Nýr diskur meistarans hefur fengið afar góða dóma og Mugison þótti frábær á tónleikum í Fríkirkjunni á dögunum.
Á laugardagskvöld koma fram þrjár hljómsveitir á Græna hattinum, Spaceships are Cool og Yunioshi frá Bretlandi, og hin íslenska Bloodgroup sem ætlar að sýna á sér nýja hlið og spila órafmagnað, eða allt að því, eins segir í tilynningu.
Ýmsir gestir leika með Bloodgroup á þessum rafmagnslausu tónleikum; Halldór Warén píanóleikari, fiðluleikararnir Roland Hartwell og Lin Wei, Helen Maddison víólueikari og Bryndís Halla Gylfadóttir sellóleikari.
Bloodgroup kemur til Akureyrar frá Kína þar sem sveitin var á tónleikaferðalagi en hún hefur komið fram á 70 tónleikum í 20 löndum á árinu.
Menningin er í hávegum höfð í höfuðstað Norðurlands um þessar mundir og verður eflaust í allan vetur. Margt var í boði um síðustu helgi og talið er að samtals um 5.000 manns hafi notið þess sem var í boði!
Einn af föstu punktunum að vetrinum eru Föstudagsfreistingar í Ketilhúsinu. Boðið er upp á fyrstu freistingar haustsins á morgun kl. 12.00 þegar Einar Clausen tenór og Daníel Þorsteinsson píanóleikari flytja sönglög eftir Sigfús Halldórsson í bland við ítalskar perlur. Tónlistarfélag Akureyrar heldur samkomurnar í samstarfi við menningarmiðstöðina í Listagili og Goya Tapas bar.